Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 13:26:29 (4433)

1998-03-06 13:26:29# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[13:26]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru alveg örugglega einhverjir í félagslega kerfinu sem ættu frekar að vera í leiguíbúðum, ef leiguíbúðaverðið væri viðráðanlegt. En hvernig hefur Framsfl. staðið sig í uppbyggingu leiguíbúða þau tvö ár sem þeir hafa verið með félmrn.?

Ég ætla að minna á það að á árunum til 1995 þegar Alþfl. var með félmrn. voru leiguíbúðirnar um 1.300 talsins, Búsetuíbúðir, kaupleiguíbúðir og aðrar leiguíbúðir, 1.300 talsins eða um 170 á ári. Hvernig hefur Framsfl. staðið sig? Á síðasta ári 49 leiguíbúðir. Það eru fjórum sinnum færri íbúðir en þegar jafnaðarmenn voru með félmrn. Fjórum sinnum minna.

Og svo segir félmrh. að það eigi bara allir að fara í leiguíbúð. Hvar eru þessar leiguíbúðir? (Gripið fram í.) Hvar eru þær? Hv. þm. verður að svara því, þegar við blasir að hundruð fjölskyldna verða kannski á götunni eftir að þetta frv. verður samþykkt.

Og hv. þm. talar um að hlusta. Er Framsfl., er þessi hv. þm., er hæstv. félmrh. tilbúinn að hlusta á verkalýðshreyfinguna? Það hefur aldrei fyrr gerst að verið sé að umbylta félagslega kerfinu, ég tala nú ekki um eyðileggja það eins og hér er gert, og ekki talað orð við verkalýðshreyfinguna. Þetta eru ný vinnubrögð í samskiptum stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna, þetta eru ný vinnubrögð. Við erum að umbylta og rústa kerfið og það er ekki talað við verkalýðshreyfinguna. Ég skora á hv. þm. að hlusta á láglaunafólkið, (ÍGP: Ég geri það.) hlusta á verkalýðshreyfinguna sem hefur byggt upp þetta kerfi, fara að tillögum verkalýðshreyfingarinnar og aðstoða hana við það að þetta frv. verði ekki knúið í gegn í andstöðu við láglaunafólk og verkalýðshreyfinguna.