Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:09:26 (4435)

1998-03-06 14:09:26# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði margt og ég er honum hjartanlega ósammála í flestum atriðum. (SJS: Það er nú gott.) Nema kannski því að húsnæðiskerfið hafi átt hlutverki að gegna fyrir svona fimmtíu árum en hafi það alls ekki lengur.

Ég er hlynntur einstaklingsfrelsi og hv. þm. er hlynntur félagslegri samhjálp, þ.e. að mínu mati að gera alla jafna, alla jafnfátæka. Þetta eru sjónarmið og ég get ekki sagt að hans ræða hafi verið röng og hann getur ekki sagt að mín sjónarmið séu röng. Við eigum að virða hvor annars sjónarmið. Ég segi því ekki að hv. þm. hafi haft rangt fyrir sér í sínum málflutningi áðan.

Herra forseti. En það var eitt atriði í ræðu hv. þm. sem stakk mig óþyrmilega. Það lá við að mér fyndist ég vera kominn svona 30--40 ár aftur í tímann. Hv. þm. sagði: ,,Þarf verkalýðshreyfingin að beita verkfallsvopninu til þess að hafa áhrif?`` Ég hugsaði með sjálfum mér: Heyri ég rétt? Er hv. þm. að hóta hv. Alþingi með því að alþingi götunnar taki völdin? Taki yfir löggjafarvaldið?

Hvar er stjórnarskráin sem við höfum svarið eið að? Hvernig talar hv. þm. til kjósenda okkar? Kjósenda sem hafa kosið meiri hluta á Alþingi, og svo ætlar hann að láta einhverja verkalýðsrekendur í ASÍ, sem ekki eru kosnir lýðræðislegri kosningu, ráða yfir meiri hluta alþingismanna. Ég spyr hv. þm.: Á hvaða götum er hann, á hvaða villigötum er hann?