Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:13:40 (4437)

1998-03-06 14:13:40# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þá er komin lausnin á þessu. Við þurfum ekki lengur að hafa kosningar til Alþingis. Almenningur í landinu er representaraður af foringjum ASÍ. Þá er komin lausnin á því.

ASÍ, verkalýðshreyfingin öll, er ekkert annað en valdastrúktúr, ekkert annað. Og lýðræðið í henni er alveg með fádæmum. Það er miklu, miklu meiri breyting á þingmannaliðinu heldur en nokkurn tíma í stjórnun verkalýðshreyfingarinnar. Þar sitja menn áratugum saman og stjórna, og stjórna öllu landinu. Og það er ekki skrýtið að kjósendum finnist þeir alltaf kjósa sömu flokkana, alveg sama hvaða flokka þeir kjósa. Það er vegna þess að Alþingi hefur framselt vald sitt til verkalýðshreyfingarinnar meðal annars. Og þar af leiðandi skiptir ekki máli hvaða flokk þeir kjósa, kjósendur, vegna þess að það er verkalýðshreyfingin sem ræður, ásamt með öðrum hagsmunaaðilum, LÍÚ, Bændasamtökunum, Vinnuveitendasambandinu o.s.frv.

Ég vil skora á hv. þm. að viðurkenna lýðræðið og viðurkenna það að kjósendur, sem ég kalla almenning í landinu, eiga að ráða en ekki verkalýðshreyfingin. Og ég geri mikinn mun á verkalýðshreyfingunni og verkalýðnum. Það er tvennt ólíkt. Eftir að allir vinnandi Íslendingar eru skyldugir til að vera í verkalýðsfélagi þá er félagsgjaldið þangað inn ekkert annað en skattur. Fólk er ekki þar af því að það vilji vera þar heldur af því að það verður að vera þar. Þetta er svo ólýðræðislegt sem frekast má vera og ég skora á hv. þm. að draga það til baka að verkalýðshreyfingin eigi að ráða hérna með verkföllum.