Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:15:23 (4438)

1998-03-06 14:15:23# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg minna en ekki neitt til baka af því sem ég hef sagt um það að eðlilegt sé og að menn eigi að fagna því að hafa verkalýðshreyfinguna í landinu með í ráðum og sem þátttakanda í uppbyggingu á mikilvægu sviði eins og húsnæðismálin eru. Það er sjálfsagður hlutur. Þetta er fjölþátta þjóðfélag, hv. þm., og margar meginstoðir standa undir samfélagsgerðinni. Það er ekki svo að einhver einn eigi að hafa völdin. Vissulega er Alþingi með löggjafarvaldið en svo er líka framkvæmdarvald og dómsvald og hverjum dettur í hug að halda því fram að það sé óheilbrigt í lýðræðislegu tilliti þó að hlustað sé á sjónarmið heildarsamtaka launamanna í landinu? Það er svoleiðis málflutningur út úr kú að engu tali tekur. Af hverju er verkalýðshreyfingin að skipta sér af húsnæðismálum? Það er af því að hún hefur það meginhlutverk að semja um kaup fyrir sína umbjóðendur og reyna að bæta þeirra lífskjör. Hvað eru húsnæðismál annað en mikilvægur hluti af lífskjörum launamanna í landinu? Þetta er svo eðlilegur og sjálfsagður hlutur. Verkalýðshreyfingin hefur ekki á umliðnum árum beitt sér í þessum efnum fyrst og fremst vegna þess að hún hafi viljað það eða litið á það sem sitt meginhlutverk. Nei, hún hefur gert það vegna þess að hún hefur talið sig knúna til þess að knýja fram umbætur fyrir hönd sinna umbjóðenda. (PHB: Með verkföllum?) Þess vegna með verkföllum, já. Og þann rétt hefur verkalýðshreyfingin. Hún hefur rétt til þess að beita verkföllum. (PHB: Gegn almenningi?) Almenningur í landinu hefur rétt til þess að beita samtakamætti sínum (PHB: Gegn almenningi?) til þess að knýja um bætt kjör og tryggt húsnæði. Það að komast út úr moldarkofunum og í sómasamlega íbúð eru líka lífskjör, hv. þm. Það verður hv. þm. að skilja. Það þýðir ekkert að tala um þessa hluti þannig við mig að það sé eitthvað ólýðræðislegt eða andþingræðislegt við það að halda fram rétti þess að haft sé samráð við verkalýðshreyfinguna um mál af þessu tagi. Og það er alveg fráleitt (PHB: Eru verkföll samráð?) að halda þessu fram eins og hv. þm. gerir. Verkföll eru löglegt neyðarúrræði sem verkalýðshreyfingin hefur til þess að ná fram umbótum fyrir sína umbjóðendur og hv. þm. verður að fara að skilja þetta.