Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:44:39 (4440)

1998-03-06 14:44:39# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi hér að ég hefði, oftar en einu sinni í máli mínu, sagt að ég vildi einfalda félagslega kerfið. Það er alveg rétt. Ég vil hins vegar ekki einfalda það þannig að ég úthýsi fólki. Með umræddum tillögum á að leggja niður kaupleigukerfið. Ég tel að kaupleigukerfið eitt og sér, ef það væri við lýði, gæti haft mikinn sveigjanleika og leyst þörf láglaunafólks.

Ég vil spyrja hv. þm. að því hvort hún telji að þetta frv. leysi þörf hinna verst settu í þjóðfélaginu. Telur hún að þetta leysi þörf láglaunafólks og að 50 leiguíbúðir dugi til að mæta þeim sem ekki fá aðgang að þessu nýja kerfi?

Síðan vil ég spyrja hv. þm. hvort hún telji að byggðar hafi verið félagslegar íbúðir umfram þörf í einhverjum sveitarfélögum, t.d. því kjördæmi sem hún er þingmaður fyrir? Telur hv. þm. að í einhverjum tilvikum hafi félagsleg aðstoð frekar gengið til verktakafyrirtækja en til láglaunafólks í þessum sveitarfélögum?