Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:46:09 (4441)

1998-03-06 14:46:09# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nefnt hér að leggja eigi niður kaupleigukerfið og það sé kerfi sem hafi átt að leysa úr þörf láglaunafólks. Það er nú einhvern veginn svo að eftirspurn láglaunafólks eftir kaupleigukerfinu hefur ekki verið fyrir hendi. Að minnsta kosti hefur láglaunafólkið þá ekki litið á það sem lausn fyrir sig að nýta það kerfi, þannig að ekki var það nú lausnin, það hefur a.m.k. ekki sýnt sig.

Varðandi það hvort byggt hafi verið umfram þörf á einhverjum ákveðnum stöðum úti á landi, þá sýnir það sig núna að byggt hafi verið umfram þörf. En þegar þessar íbúðir voru byggðar var farið, að því ég best veit, nákvæmlega eftir þeim reglum sem settar voru hjá Húsnæðisstofnun sem upprunnar voru væntanlega frá sitjandi ráðherra á þeim tíma hvernig ætti að fara að því að kanna þörf fyrir félagslegt íbúðarhúsnæði í hverju sveitarfélagi. Ég hef ekki nokkra einustu ástæðu til að ætla að menn hafi brotið þær reglur á einhvern hátt.

Hins vegar hefur íbúðaþróun úti á landi verið þannig að fækkað hefur mjög mikið í sveitarfélögunum og þar fyrir utan hefur það sýnt sig að fólk úti á landi hefur aðra kosti en að fara inn í félagslega íbúðakerfið og hefur valið það. Það er kannski hluti af þessu en mikið af þeim íbúðum hefur hins vegar verið notað af sveitarfélögunum til þess að leysa leiguíbúðaþörfina.