Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:50:29 (4443)

1998-03-06 14:50:29# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði hvort þetta mundi leysa þörf þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Ef núv. kerfi gerir það þá gerir þetta kerfi það líka. Í grg. með frv. er sýnt fram á það með ýmsum útreikningum að greiðslubyrði af þeim lánum sem nú eru að koma inn í staðinn fyrir félagslegu íbúðalánin er mun lægri en af þeim félagslegu lánum sem nú eru í kerfinu. (JóhS: En annar kostnaður sem ...?) Ég átta mig ekki alveg á þessu frammíkalli, hvaða annan kostnað þarna er um að ræða sem þingmaðurinn er að vitna til.

En varðandi það hvort 50 leiguíbúðir leysi þörf alls leiguíbúðamarkaðarins á næstu árum að þá tel ég það ekki vera og það er greinilegt að frumvarpshöfundar hafa ekki heldur talið það vera nægilegt vegna þess að í frv. er heill kafli um lán til leiguíbúða. Í frv. er gert ráð fyrir því að hægt verði að byggja leiguíbúðir með ýmsu formi, þ.e. sveitarfélög geta gert það og félög og félagasamtök (JóhS: Það vantar bara peningana.) geta staðið að því að byggja leiguíbúðir og er opnað fyrir mjög margar og margvíslegar leiðir til þess. Og sumir sem hafa rennt í gegnum þetta frv. hafa talið að jafnvel væri um of margar leiðir að ræða. (JóhS: Það vantar nýjar leiðir.)