Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:54:56 (4446)

1998-03-06 14:54:56# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þetta kerfi í grófum dráttum þannig að það verði gert ráð fyrir einum íbúðalánasjóði sem hafi með almenna þjónustu að gera við þá sem vilja kaupa eða eignast húsnæði hér á landi. Síðan verði gert ráð fyrir ákveðnu viðbótarlánakerfi sem fólk geti fengið aðild að, enda borgi sveitarfélag viðkomandi einstaklings sinn hlut í rekstri kerfisins. Þannig að það fá þetta ekki endilega allir. Ef svo illa vildi til að Seyðisfjarðarkaupstaðar borgaði ekki til félagslega kerfisins þá mundi fólk ekki fá viðbótarlán á Seyðisfirði, eins og þetta er hér byggt upp.

En kjarni málsins er sá að gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður og allt kerfi hans sé í raun sjálfstætt og sjálfberandi sem fjárhagsleg eining að öllu leyti. En síðan er gert ráð fyrir því að hinn félagslegi jöfnunarþáttur málsins sé allur í vaxtabótakerfinu, það er alveg rétt. Þar með er sú grundvallarbreyting að verða frá því sem verið hefur --- ég er ekki að segja að það hafi verið fullkomið eins og það hefur verið, að við höfum haft vaxtabótakerfi og félagslegar ráðstafanir í húsnæðiskerfinu en nú er öllu þessu vísað yfir á vaxtabótakerfið. Þar með er verið að gera tillögu um fjárhagslega bankastofnun má segja, húsnæðisbanka eða vísi að honum, miklu frekar en að um sé að ræða tillögu um félagslegar ráðstafanir í húsnæðismálum.