Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:57:50 (4448)

1998-03-06 14:57:50# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég varð að skjótast frá og hef þar af leiðandi misst af fyrri ræðum og verði einhver endurtekning á því sem þar hefur komið fram þá biðst ég velvirðingar á því. (Gripið fram í: Hvað var þingmaðurinn að gera?)

Við erum að ræða býsna stórt mál sem á sér mjög langa sögu. Sú saga er rakin í greinargerðinni, þ.e. hvernig það kom til að hafist var handa um að reisa íbúðir með sérstakri félagslegri fyrirgreiðslu, reyndar strax í kringum 1920. Þetta kerfi hefur í gegnum áratugina tekið býsna miklum breytingum eins og lesa má í grg. Ég held að í megindráttum hafi þetta kerfi tekið breytingum í samræmi við þróun á hverjum tíma. Kannski var langstærsti áfanginn þegar samið var um byggingu Breiðholtsins árið 1965 og segja má að félagslega húsnæðiskerfið hafi þróast að miklu leyti í framhaldi af þeim samningum. Þar voru fyrst framkvæmdanefndar\-íbúðirnar, síðan voru stofnaðir Verkamannabústaðir, stjórnir Verkamannabústaða, og með breytingum 1990 komu húsnæðisnefndirnar til sögunnar. Síðan voru gerðar enn frekari breytingar á þeim lögum og nú er hér lögð til mikil grundvallarbreyting á þessu kerfi öllu saman. Og þá vakna upp mjög margar spurningar.

[15:00]

Fyrsta spurningin er sú hvort það sé rétt stefna að færa húsnæðismál og félagslega aðstoð í húsnæðismálum alfarið til sveitarfélaganna þannig að aðrir aðilar, í þessu tilviki verkalýðshreyfingin, komi þar alls ekki að. Nú á verkalýðshreyfingin engan eignarrétt á þessum málaflokki en í áratuganna rás hefur hún alltaf haft beinan aðgang og haft mikil áhrif á þróun félagslega íbúðalánakerfisins og það er meira og minna tilkomið vegna þrýstings frá verkalýðshreyfingunni. Það eina sem ég hef í rauninni áhyggjur af í því sambandi er að þessi tengsl við líf fólksins í landinu, líf þeirra sem lökust hafa kjörin, kunni að rofna.

Ég hef sjálf komið töluvert nálægt þessum málum og ætla að greina frá því í tengslum við það sem ég ætla að fjalla um á eftir. Ég átti sæti í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík um nokkurra ára bil á síðasta áratug. Ég var í húsbréfanefndinni á sínum tíma og ég var líka í nefnd sem endurskoðaði lögin um félagslega húsnæðiskerfið 1990 þannig að ég hef komið töluvert að þessum málum og þekki þessa sögu vel. Ég hef stundum sagt frá því að það að sitja í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík er einhver merkilegasta lífsreynsla sem ég hef lent í um ævina. Það var óskaplega fróðlegt að kynnast þessari hlið á lífinu í Reykjavík sem a.m.k. ég hafði ekki kynnst áður. Ég er fædd og upp alin úti á landsbyggðinni, og hreinlega þekkti ekki þennan geira mannlífsins, þennan stóra hóp, sérstaklega af ungum konum með börn sem áttu í miklum erfiðleikum við að komast í húsnæði. Það var óskaplega erfitt verk þegar verið var að reyna að skammta þessar íbúðir til þessa hóps sem var svo einsleitur að það var í raun og veru ekki hægt að taka mið af nokkrum sköpuðum hlut við að ákveða hvort þessi konan eða hin átti að fá íbúðina því að aðstæður voru mjög svipaðar.

Ég fullyrði að þetta félagslega kerfi sem hér hefur verið við lýði hefur komið óskaplega mörgum til hjálpar. Það hefur bjargað aðstæðum mjög margra því að það var eins og að fá happdrættisvinning að komast inn í þessar íbúðir miðað við baslið sem var annars staðar, hvort sem það var á almennum íbúðamarkaði eða í leigukerfinu í Reykjavík. Þess vegna vil ég setja spurningarmerki við það sem fram kemur í greinargerðinni á bls. 21 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Að síðustu er rétt að minna á þá staðreynd að félagslega íbúðalánakerfið stefnir í þrot og að óbreyttu hefði þurft að koma til veruleg hækkun vaxta af félagslegum lánum.``

Þetta félagslega kerfi stefnir í þrot. Það má kannski segja að það sé rétt að því leyti sem snýr að stöðu Byggingarsjóðs verkamanna og það hefur verið margbent á það í umræðum á undanförnum árum að nauðsynlegt væri að taka á þeirri stöðu. M.a. var í þeirri nefnd sem ég starfaði í 1990 lagt til að Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins yrðu sameinaðir en af einhverjum ástæðum náði það ekki fram að ganga. Síðan hefur staða sjóðsins versnað mjög mikið. En það er fyrst og fremst vegna þess að framlög ríkisins hafa verið skorin niður jafnt og þétt. Og ef ég skil þetta frv. rétt, hæstv. félmrh., þá er það hér með úr sögunni, nema einhverjar sérstakar aðstæður komi til, að ríkið fari að leggja til fé til félagslegra húsnæðismála eins og gert hefur verið um áratuga skeið.

Eins og ég skil þetta frv. og hægt er að lesa í greinargerðinni, þá er í fyrsta lagi verið að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins og sjóðirnir tveir, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna eru sameinaðir. Það þýðir að þegar þessir tveir sjóðir eru lagðir saman, þá gjörbreytist staðan því að Byggingarsjóður ríkisins stendur vel að vígi. Það streymir fyrst og fremst inn í þann sjóð meðan hallinn á Byggingarsjóði verkamanna er mjög mikill og eins og fram hefur komið hjá Ríkisendurskoðun, þá stefndi hann í algjört óefni.

Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að nýi byggingarsjóðurinn mundi eiga 26 milljarða eigið fé og ég skil það svo að menn muni halda áfram við að innheimta þau lán sem eru útistandandi hvort sem það eru lán tekin hjá Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og smátt og smátt gera upp þetta dæmi og að þessi sjóður sé eins konar trygging fyrir aðra fjáröflun, þ.e. sölu eða útboð á húsnæðisbréfum, þeirri fjármögnun sem þarf að eiga sér stað til að veita viðbótarlánin. Ég sé að hæstv. félmrh. kinkar kolli. Ég skil það svo að þetta sé rétt skilið. En nú kemur að því að lán bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna verði greidd upp þó það sé býsna langt í það og sé kannski ekki ástæða til að spyrja hvað megi búast við að þetta fyrirkomulag standi þá lengi. Er reiknað með því að þessi sjóður verði með miklar eignir á næstu áratugum og að þær eignir séu þá fyrst og fremst baktrygging fyrir þessa fjáröflun? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig menn hugsa þetta dæmi.

Síðan er það þriðja meginbreytingin. Í fyrsta lagi er Húsnæðisstofnun sem slík lögð niður. Í öðru lagi eru sjóðirnir sameinaðir og í þriðja lagi er gerð grundvallarbreyting á félagslega húsnæðiskerfinu. Ég spyr eins og aðrir: Hvaða áhrif mun þetta hafa á sveitarfélögin og stöðu þeirra varðandi húsnæðismál? Og hins vegar og ekki síst, og af því hef ég langmestar áhyggjur: Hver eru áhrifin á stöðu láglaunafólks og möguleika láglaunafólks til þess að afla sér húsnæðis?

Eins og kerfið mun líta út, þá verður það í fyrsta lagi húsbréfakerfið fyrir þá sem eru fyrir ofan ákveðin tekjumörk. Síðan er þar dregin einhver lína og einhverjum ákveðnum hópi býðst að fá viðbótarlán að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, greiðslumati og slíku, en síðan er það hópurinn sem lendir þarna fyrir neðan. Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af þeim hópi vegna þess að a.m.k. hingað til hafa sveitarfélögin engan veginn staðið sig í því að útvega leiguhúsnæði, hvort sem um hefur verið að ræða að byggja eða kaupa húsnæði fyrir leiguíbúðir. Og ég get ekki séð að í þessu frv. sé verið að leggja neina skyldu á sveitarfélögin. Það er ekki verið að leggja neina skyldu á þau í þessum efnum. Þau geta breytt þeim íbúðum sem koma inn í kerfið í leiguíbúðir en að mínum dómi dugar alls ekki að vísa í lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæði sem þar er að finna þar sem segir, ef ég man rétt, að sveitarfélög skuli eftir því sem kostur er og þörf er á útvega húsnæði til leigu. Að mínum dómi er þetta ákaflega veikt ákvæði þannig ég fæ ekki séð að verið sé að tryggja neitt varðandi þennan hóp sem núna verður skorið á.

Þess eru dæmi eins og fram kemur í gögnum að ýmsir í þeim hóp sem hingað til hefur fengið 100% lán hafi lent í vandræðum og það er staðreynd að fólk hefur beitt ýmsum brögðum til þess að komast inn í félagslega húsnæðiskerfið. Það er alveg ljóst. Og síðan kemur í ljós að tekjurnar eru einfaldlega ekki nægilegar til þess að standa undir þessu. Þegar hæstv. félmrh. tók dæmi um einstætt foreldri með 80 þús. kr. laun og hugsanlega fleiri en eitt barn á framfæri, þá varð mér hugsað til þess að það er ekkert grín að reka heimili og vera að kaupa íbúð í félagslega húsnæðiskerfinu þó að greiðslan sé kannski ekki nema 12 þús. kr. á mánuði. Þetta finnst okkur kannski ekki há upphæð en þegar launin eru svona lág þá er þetta erfitt mál við að eiga. Áhyggjur mínar snúast þess vegna mjög að því hvað verður um þennan hóp og jafnframt hver áhrifin verða við þessa breytingu sem kannski er erfitt um að segja. Nú kemur nýr hópur út á hinn almenna markað. Mun þetta valda hækkun á fasteignaverði? Væntanlega eykst eftirspurnin. Á það hefur verið bent að það leggst ýmiss konar kostnaður við hjá því fólki sem fer út á almenna markaðinn þó að auðvitað hafi verið ákveðinn kostnaður hingað til við félagslega kerfið og ákveðið tap í því o.s.frv. En þetta er kostnaður sem einstaklingarnir munu þurfa að greiða til fasteignasala og hugsanlega fleira sem mun bætast þarna við og maður talar nú ekki um ef hækkun verður á fasteignaverði. Þar á móti kemur að eftir því sem íbúðirnar skila sér inn í félagslega kerfið og þær verða settar á almennan markað, þá kannski verður það til að draga úr á móti. Það er því mjög erfitt að átta sig á því hver áhrifin munu verða.

Svo er það ákvæðið um kaupskylduna. Ég var að reyna að átta mig á þessu. Ein ástæðan fyrir þessum breytingum sem hér er verið að gera er sú að ýmis sveitarfélag, sérstaklega úti á landi, hafa kvartað mjög yfir kaupskyldunni. Hér er verið að létta kaupskyldunni af sveitarfélögunum til frambúðar en það er ekki afturvirkt. Kerfið verður hreinlega að ganga úr sér á meðan íbúðirnar eru að koma inn. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. í tengslum við nákvæmlega þetta ákvæði, þ.e. það sem fram kemur á bls. 16 í ákvæði til bráðabirgða III um ráðstöfun innleystra íbúða. Ég skil þetta þannig að á meðan sveitarfélögin hafa þessa innlausnarskyldu þá geta þau bundið viðbótarlánið við það að fólk taki við íbúðum sem eru í kerfinu. Eftir því sem ég best veit þá höfðu menn einmitt miklar áhyggjur af þessu hér í Reykjavík þar sem um það er að ræða --- maður verður bara að segja það hreint út eins og það er --- að menn óttast að hefði þarna verið gefið frelsi strax og þeir sem eru í félagslegum íbúðum gætu lagt sínar íbúðir inn og farið út á hinn frjálsa markað, þá mundi það þýða að Reykjavíkurborg stæði einfaldlega uppi með hugsanlega tugi óseljanlegra íbúða, t.d. vegna staðsetningar í vissum hverfum í borginni og fólk hefur verið að reyna að koma sér í burtu úr þessum ákveðnu hverfum. Ég skil þetta ákvæði svo að þarna sé verið að koma til móts við þennan ótta, en að sama skapi er auðvitað verið að takmarka frelsið. Því spyr ég: Hvað verður þetta lengi að virka, þ.e. að fólk hafi í rauninni þetta val, ef í þessu tilviki Reykjavíkurborg getur bundið lánið við það að fólk fari í þessi tilteknu hverfi? Það er erfitt að átta sig á því hvernig þetta mun virka og jafnframt hvaða áhrif það hefur almennt á húsnæðisstefnu sveitarfélaganna.

Ég ætla þá að víkja að einstökum atriðum frv. Ég staldra fyrst við 6. gr. þar sem kveðið er á um húsnæðisnefndirnar. Hér er væntanlega verið að vísa til þess að sveitarstjórnirnar ákveði sjálfar hversu fjölmennar húsnæðisnefndirnar verða og eru hér tekin af öll tvímæli um það. Hér er það tekið út hvernig beri að skipa þessar húsnæðisnefndir. Hér er verkalýðshreyfingin og fulltrúar hennar komnir út og það kæmi mér ekki á óvart þó að verkalýðshreyfingin eigi eftir að láta í sér heyra hvað varðar þetta atriði.

[15:15]

Eins og ég segi er ástæða til að hafa áhyggjur af tengslum við veruleikann í samfélaginu. Ég hafði áður vikið að því hvernig ég skil þetta með Íbúðalánasjóðinn og hann á fyrst og fremst að vera baktrygging fyrir þá fjáröflun sem á að eiga sér stað skv. 10. gr. en þar eru nefndar tekjur af eigin fé sjóðsins og síðan sala húsnæðisbréfa. Þá vaknar sú spurning hvernig þessi bréf munu virka á markaðinn. Við erum náttúrlega með húsbréfin og það eru fleiri bréf í gangi núna. Er reiknað með að þetta verði viðbót við markaðinn eða er útlit fyrir að þetta verði nokkurn veginn í jafnvægi við það sem nú er? Búast má við fjölgun þegar kerfið er opnað, fólk getur komið og sótt um viðbótarlán og auðvitað getur viðkomandi sveitarfélag temprað fjöldann og mun væntanlega gera það. Sveitarfélögin þurfa að leggja fram 5% af þessum viðbótarlánum en hefur verið spáð í það hvernig húsnæðisbréfin munu koma inn á markaðinn? Ég átta mig ekki á því hvort þetta verður viðbót við það sem fyrir er eða hvort þetta er nokkurn veginn í jafnvægi við það sem verið hefur.

Í 14. gr. er kveðið á um verkefni húsnæðisnefnda og þar er þetta atriði, í fyrsta lagi að gera árlega áætlanir fyrir sveitarfélögin um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Þetta ákvæði er búið að vera býsna lengi í lögum en mér vitanlega hefur þetta alls ekki virkað og það var alltaf sagt hjá verkamannabústöðunum í Reykjavík og síðan hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur að fjöldi umsókna væri það sem sýndi þörfina. Aldrei voru gerðar þessar árlegu áætlanir fyrir sveitarfélagið, hvað þá að hún væri flokkuð niður í leigu\-íbúðir og aðrar íbúðir. Ég held því fram að í raun og veru skorti á upplýsingar um raunverulega þörf fyrir félagslega aðstoð í húsnæðismálum og þá annars vegar til eignaríbúða og hins vegar til leiguíbúða. Hæstv. félmrh. leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál en ég kannast a.m.k. ekki við að neinar slíkar kannanir séu til, þótt það hafi einstaka sinnum verið gert á undanförnum áratugum en árleg könnun hefur ekki verið gerð. Þessu hefur alltaf verið borið við að umsóknirnar sýni hver þörfin er. Það eru auðvitað alltaf ákveðnir hópar sem vita að ekkert þýðir að sækja um og ég veit því ekki hvað er eiginlega hægt að gera til að tryggja að þessu verði framfylgt að menn hafi raunverulegar tölur sem sýni þörfina og við erum náttúrlega líka að tala um íbúðir fyrir námsmenn og fleiri aðila.

Í 5. lið er vikið sérstaklega að aðstoð við aldraða og samtök þeirra og þá varð mér hugsað til fatlaðra. Er ekki ástæða til að þeir séu inni í þessu dæmi þótt þeir hafi sín samtök, þeir hafa staðið fyrir miklum íbúðarkaupum. Ég þekki ekki þann rekstur nægilega vel en þarna er um að ræða hóp með sérstakar þarfir sem þarf að skoða.

Þá ætla ég aðeins að nefna 21. gr. og það varðar lánstíma og lánskjör og þar segir: ,,Hámarkslánstími á fasteignaveðbréfum er húsbréfadeild kaupir skal vera 40 ár.`` Ef ég man rétt þegar húsbréfanefndin var að störfum var sett hin almenna regla að lánstíminn skyldi vera 25 ár. Reglan var 25 ár, síðan er búið að gera breytingar, taka upp aðra lánaflokka og ég spyr mig að því: Þýðir þetta ekki í raun að ákveðin hætta sé á því að reglan verði 40 ár? Þá vil ég spyrja hæstv. félmrh. hver reynslan sé af þeirri breytingu sem gerð var þegar hinir nýju lánaflokkar voru teknir upp, bæði 40 ára lánin og 15 ára lán ef ég man rétt. Þetta var mjög úthugsað og útreiknað á sínum tíma að 25 ára regla væri hið æskilega, það væri ekki æskilegra að þessi lánstími yrði lengri og ég spyr hvort ekki sé hætta á að þetta þróist yfir í að verða 40 ára regla. Það er kannski allt í lagi ef það er stefnan. Það léttir auðvitað greiðslubyrðina en breytir svolítið hugsuninni í kerfinu.

Þá kem ég að 31. gr. sem fjallar um viðbótarlánin og þar segir í byrjun, með leyfi forseta:

,,Að beiðni húsnæðisnefndar sveitarfélags veitir Íbúðalánasjóður einstaklingum sem rétt eiga á almennu láni til kaupa á eigin íbúð viðbótarlán sem nema má allt að 25% af matsverði íbúðar.``

Af þessu að dæma eru það húsnæðisnefndirnar sem senda beiðni til Íbúðalánasjóðs um einhvern tiltekinn fjölda lána en hvernig kemur lántakandinn að þessu? Er hugsunin sú að auglýst verði eftir lántökum? Eða þurfa einstaklingarnir einfaldlega að leita eftir því að fá þessi lán og hver er skylda húsnæðisnefndanna í málinu? Í 14. gr. segir að húsnæðisnefndirnar eigi að leggja mat á þörf einstaklinga sem búa við erfiðar aðstæður á viðbótarláni en spurningin er í raun og veru hver er réttur einstaklinganna? Hingað til hefur verið auglýst eftir umsóknum um félagslegar íbúðir. Þær eru þarna til staðar og það er auglýst en hvernig koma einstaklingarnir að þessu núna og hverjar eru skyldur sveitarfélaganna til að aðstoða fólk í þessum efnum og kalla eftir þessum umsóknum? Mér finnst það mjög óskýrt í þessum lögum. Síðan setur ráðherra að vísu skilyrði um reglur lánveitinga o.s.frv. og þar kemur greiðslumatið væntanlega inn í og ýmislegt fleira.

Þá ætla ég aðeins að víkja að 47. gr. sem er þetta 5% framlag og þarna er hugsunin að búinn verði til ákveðinn varasjóður, sem mæti tjónum og afföllum sem verða, og jafnframt verði tryggingasjóður vegna byggingargalla lagður niður og það er m.a. að tillögu sveitarfélaganna. Í gögnum þeirra hefur komið fram að þeir álíti að þarna hafi verið um eins konar skattheimtu að ræða sem ekki hafi verið nein þörf fyrir. En hvað verður um sjóðinn? Það eru einhverjir tugir milljóna í þessum sjóði. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað verður um sjóðinn? Rennur hann inn í Íbúðalánasjóðinn? (Félmrh.: Varasjóð.) Hann rennur inn í varasjóðinn. Hann verður þá sem sé eins konar stofnframlag í varasjóðinn. Þetta var mér ekki ljóst.

Ég held ég sé búin að koma inn á flest þau atriði sem ég vil spyrja um í sambandi við frv. til að leita eftir skýringum á því hvað hér er verið að gera. Það er býsna margt sem erfitt er að gera sér grein fyrir hvað þýðir og hvaða afleiðingar muni hafa eins og ég hef komið að í máli mínu en eins og ég sagði upphaflega er verið að gera miklar grundvallarbreytingar. Í sjálfu sér er ég ekkert á móti því að menn skoði stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins og rekstur hennar og það hvernig sú stofnun hefur virkað að því gefnu að menn komi fram af fullri kurteisi við starfsfólk og tryggi réttindi þess. Ég held líka að það að sameina byggingarsjóðina sé ein þeirra leiða sem koma fyllilega til greina til að bjarga Byggingarsjóði verkamanna. Hins vegar hef ég mikla fyrirvara varðandi breytingarnar á félagslega kerfinu og þarf að átta mig miklu betur á því hvað einstakir þættir þar þýða, áhrifin á sveitarfélögin og ekki síst á það fólk sem lendir þarna utan dyra. Auðvitað þarf að fara miklu betur ofan í það hver greiðslubyrðin verður. Hér er að finna ýmis dæmi um greiðslubyrði fólks en það verður auðvitað annar kostnaður sem bætist þarna við og jafnframt spurningar um það eins og ég nefndi áðan, hver áhrifin verða á húsnæðismarkaðinn í heild.

Hér er gríðarlega margt að skoða og það verður mikil vinna að skoða málið allt saman og fara í gegnum það og átta sig á þessum breytingum. Ég ítreka að lokum, hæstv. forseti, að ég hef mikla fyrirvara varðandi það að verið er að taka út það sem við höfum hingað til kallað félagslega aðstoð, það að félagsleg aðstoð væri tryggð. Ég sé ekkert, hvorki í þessu frv. né í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem tryggir láglaunafólki þann rétt að það geti aflað sér húsnæðis sem laun þess leyfa að standa undir. Ég minni sérstaklega á það í þessu sambandi, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að í þeim hópi sem þarf á félagslegri aðstoð að halda eru margar einstæðar konur með börn. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, nefndin sem kannar framkvæmd bæði barnasáttmálans og reyndar sáttmálans um afnám alls misréttis gegn konum hefur bent sérstaklega á stöðu einstæðra foreldra hér á landi og hve slæm staða og léleg kjör mismuni börnum. Við þurfum því svo sannarlega að athuga mjög rækilega hvað við erum að gera með þessum breytingum og það dugir hvorki að vísa á lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga eða nýsett lög um húsaleigubætur því að við eigum algerlega eftir að sjá það enn þá hvernig þetta kemur út í Reykjavík, sem er langsamlega stærsta sveitarfélagið og þar sem þörfin fyrir félagslega aðstoð er langmest.

[15:30]

Hér er því margt að skoða og ég spyr hvort menn séu reiðubúnir að tryggja skyldur sveitarfélaganna betur, annaðhvort í þessum lögum eða í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég held að þær skyldur eigi heima hér í lögunum og ljóst eigi að vera að sveitarfélögin hafi skyldur gagnvart þeim sem verst standa. Mér finnst þetta frv., eins og það er úr garði gert, alls ekki tryggja þann rétt.