Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 15:33:50 (4451)

1998-03-06 15:33:50# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[15:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á þau orðaskipti sem hér fóru fram milli síðasta ræðumanns og hv. þm. Péturs H. Blöndal. Í því sambandi má benda á að í mörgum sveitarfélögum hefur viðgengist að kaupa íbúðir hér og þar í fjölbýlishúsahverfum, einmitt ekki að vera að byggja einsleitar íbúðir eða koma á því sem hægt væri að kalla óeðlilega eða óæskilega blöndun í hverfum.

Þegar hið nýja kerfi tekur við, verði þetta frv. að lögum, geta sveitarfélög neitað um að viðbótarlán sé veitt til kaupa á íbúðum öðruvísi en að keyptar séu íbúðir sem hið sama sveitarfélag hefur innleyst. Þyki fólki óæskilegt að sveitarfélag hafi að einhverju leyti raðað íbúðum innan síns sveitarfélags er mikil hætta á að það haldi áfram enn um sinn þrátt fyrir hið nýja kerfi. Þetta má ég til með að nefna, virðulegi forseti. Það mun verða eftirsóknarvert, sérstaklega af fólki úr sumum hverfum, að íbúðin verði innleyst og það geti flutt sig yfir í hverfi sem það óskar eftir. Sveitarfélag, jafnvel þótt það hugsi sér að gera einhverjar af þessum íbúðum að leiguíbúðum, mun óska eftir að fólk sem ætlar að kaupa slíkar íbúðir og taka viðbótarlán kaupi íbúð sem sveitarfélagið situr uppi með, enda tekið mið af því í lögunum. Í umræðu um hið nýja frv. og um nýja valkosti í húsnæðismálum er nauðsynlegt að halda þessu til haga. Umræða mun leiða í ljós að hinn góði valkostur er ekki sá valkostur sem boðaður hefur verið og haldið á lofti af ráðherranum og hans fylgisveinum.

Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram gagnrýni á vinnubrögð stjórnarmeirihlutans við að taka þetta mál á dagskrá og við þetta frv. Ég leyfi mér að halda því fram að það er alveg greinilegt að mikill meiri hluti hér á Alþingi spillir þingmönnum. Það má sjá af því hvernig staðið hefur verið að viðkvæmum málum sem komið hafa inn á þingið, hvernig þau hafa verið keyrð fram, keyrð í umræðu án fyrirvara og virðingar fyrir þeim sem eiga að kynna sér málið svo hægt sé að hafa vitræna umræðu um frv., að hinn breiði stjórnarmeirihluti hugsar sem svo: Við gerum það sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist.

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg ótrúlegt að félmrh. láti sér detta í hug að leggja frv. fyrir þingið með þessu móti. Því er dreift seint á þriðjudegi og síðan pressað í umræðu á föstudegi. Sá dagur er ekki á starfsáætlun. Þingmenn hafa tekið hann frá til annarra verkefna og síðan er ætlast til að umfjöllun sé lokið og afgreiðslu nefndar á málinu. Á rúmum mánuði skal það verða að lögum, miðað við það hvernig talað er. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það að gera svo umdeild frv. að lögum án þess að gefa athugun á því nægilegan tíma er fullkomlega ábyrgðarlaust.

Á sama tíma og þetta er fyrirhugað liggja önnur stór mál fyrir félmn. sem mun fá þetta frv. til umfjöllunar. Þar bendi ég á sveitarstjórnarfrv. sem er viðamikið og mikilvægt fyrir allar sveitarstjórnir og sveitarstjórnarstigið í heild sinni. Í því frv. eru til að mynda bráðabirgðaákvæði sem varða hálendið vegna þess að þar eru mörk sveitarfélaga framlengd inn á hálendið. Það mál er líka til umfjöllunar í félmn. Miðað við þann tíma sem þingmenn hafa til umráða og nefndarstarfa er annaðhvort gert ráð fyrir að ofurfólk sé á ferð eða ekki er ætlast til að þingmenn vinni vinnuna sína.

Það er ekki sama hvernig mál er á ferðinni. Þetta frv. gjörbreytir möguleikum láglaunafólks til húsnæðisöflunar. Þetta frv. ýtir stórum hóp frá borðinu. Það er staðreynd.

Í fyrravor, nánar tiltekið þann 13. maí 1997, samþykkti Alþingi tillögu um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Í það skipti stóðum við jafnaðarmenn að tillögu félmrh. og ég fagnaði því sérstaklega að niðurstaða ráðherrans væri að flytja tillögu okkar jafnaðarmanna svo til óbreytta, þvert á fyrri yfirlýsingar varðandi tillögu að fjölskyldustefnu. Síðan þá hef ég beðið eftir að ráðherrann útfærði tillöguna sem svo víðtækan stuðning fékk hér á Alþingi. Á þeirri framkvæmd hefur staðið og engar útfærslur á henni hafa enn séð dagsins ljós. Eitt af ákvæðum fjölskyldustefnunnar er að efnahagslegt grundvallaröryggi fjölskyldunnar sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Forseti, ég endurtek: Ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Ég dreg þetta fram vegna þess að í allri umfjöllun um þetta frv. mun koma í ljós að öryggi þeirra sem félagslega húsnæðiskerfið hefur tekið til breytist.

Þetta ákvæði í fjölskyldustefnunni er þýðingarmikil yfirlýsing og sterk. Ráðherrann framkvæmir það á undarlegan hátt. Í þessu frv. sést hvernig athafnir fylgja orðum framsóknarráðherrans. Frv. sem hann flytur hér er útfærsla á stefnu íhaldsins frá því fyrir síðustu kosningar. Öll félagsleg lánastarfsemi til húsnæðismála er markaðsvædd. Möguleikar láglaunafólks eru þrengdir. Þetta frv. er bylting, með neikvæðum formerkjum. Mikilvægur félagslegur þáttur í okkar þjóðlífi er aflagður með lögum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þótt ákvæði sé að finna sem hægt sé að taka undir í frv. og ég mun vera ófeimin við að nefna það þar sem svo ber undir þá hefði verið hægt að nýta sér þær breytingar undir merkjum félagslega kerfisins með úrbótum á því. Frv. leysir vanda byggingarsjóðanna. Frv. leysir vanda nokkurra sveitarfélaga en vandi einstaklinga sem hafa lent utan kerfisins stendur eftir. Þeim hópum mun fjölga með samþykkt þessa frv. Eins og þegar hefur komið fram í umræðunni er óljóst um skyldur sveitarfélaganna til að veita fólki þak yfir höfuðið eða finna því skjól. Með þessu frv. er mönnum í stórum stíl vísað á leigumarkað sem ekki er fyrir hendi. Átakið um leiguíbúðir, byggingu leiguíbúða sem talað er um í frv. er 50 íbúðir á tveimur árum --- lesist: 25 íbúðir á ári á landsvísu. Ég minni á að þegar verkalýðshreyfingin gerði samkomulag við stjórnvöld á sínum tíma, sennilega á áttunda áratugnum, var átakið um 1.000 íbúðir aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það er mjög erfitt að sjá framkvæmd heimildar í leiguíbúðakaflanum, um lán til félagasamtaka. Ég minni á, af því það hefur ekki þegar komið nægilega fram í umræðunni hér í dag, hve mikið af íbúðamálum landsmanna er í höndum félagasamtaka, námsmannasamtaka sem byggja námsmannaíbúðir, samtök fatlaðra sem byggja íbúðir fyrir fatlaða. Samtök fatlaðra hafa t.d. gjörbreytt umhverfi fjölskyldna þar sem fatlaðir eru og þurfa t.d. sérhannað húsnæði. Þau hafa yfirleitt séð til þess að fatlaðir geti búið sómasamlega í eigin húsnæði en ekki inni á stofnunum, sambýlum eða öðru slíku. Ýmis önnur félagasamtök hafa staðið fyrir byggingum íbúða. Erfitt er að sjá hvernig þessum þætti verður fyrirkomið að settum hinum nýju lögum. Eins er erfitt að sjá þessa opnun í leiguíbúðakaflanum og hvort Íbúðalánasjóðurinn á að lána og þá eftir hvaða ákvæðum og hvernig á að standa að því.

Ég gagnrýndi hvernig þetta frv. var lagt hér fram. Ég ætla jafnframt að gagnrýna vinnubrögðin við samningu frv. Þrátt fyrir að einhverjir hafi komið að skýrslunni sem unnin var í fyrra og skilað hingað inn, þá er þetta frv. allt annars eðlis. Það er unnið í kyrrþey, eiginlega af lítilli klíku, og verkalýðshreyfingin fær hvergi að koma að því. Húsnæðisstofnun sem sennilega hefur mestu fagþekkingu húsnæðismála samankomna á einum stað var hvergi höfð með í ráðum. Að sjálfsögðu er þetta pólitískt viðhorf ráðherra sem menn hljóta að lesa úr hver fyrir sig. Fyrir mér er þetta athyglisvert en alvarlegt.

[15:45]

Það er reyndar svo að hvert málið á fætur öðru hefur fæðst hjá þessari ríkisstjórn sem sýnir hug hennar til réttinda launafólks. Ég minni á vinnulöggjöfina sem var sett hér með miklum hávaða og látum, og hefur reyndar komið í ljós að á henni eru þeir gallar sem við bentum á. Meira að segja uppgötvaði VSÍ að hún væri ekki eingöngu til hagsbóta fyrir þá hlið vinnumarkaðarins og hefur gagnrýnt galla sem er að finna í þeirri fínu löggjöf. Ég minni á atvinnuleysistryggingar og ég minni á frv. um lífeyrissjóði. Öll komu þessi mál inn í miklu uppnámi. Það tókst reyndar að afstýra stórslysi í sumum tilvikum og það er vel, en það breytir því ekki hvert hugarfar þessarar ríkisstjórnar gagnvart fólkinu í landinu er og hvernig það hugarfar speglast í frv. sem hér hafa komið fram. Fyrir mér endurspeglar þetta mikið virðingarleysi fyrir almenningi og þeim þýðingarmiklu málum sem gjörbreytt hefur verið með miklum bægslagangi og lítilli skoðun --- af því að ekki þarf að hlusta á sjónarmið annarra.

Það hefur þegar komið fram í umræðunni að þó að ekkert samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna um þetta frv. þá hefur hún alltaf komið að breytingum á húsnæðislöggjöfinni fram að þessu, og hefur innan sinna vébanda mikla þekkingu sem vert er að hlusta á. Ég minni t.d. á það að verkalýðshreyfingin hefur viljað skoða bein lán til einstaklinga en að vísu hentar það ekki þeim sem sömdu þetta frv. vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur viljað hafa þau beinu lán innan vébanda þess kerfis sem hún þekkir og ber traust til. Það er öryggisventillinn sem þeir sem hafa unnið að húsnæðismálum á vegum verkalýðshreyfingar sjá í málinu. Verkalýðshreyfingin þekkir þetta kerfi og veit hvaða öryggi það veitir þeim sem hafa fengið þar skjól, og hefur viljað skoða beinu lánin á þeim grundvelli. Við höfum líka verið tilbúin til þess að skoða með hvaða hætti bein lán gætu komið til greina og hvort þau gætu verið betri kostur eða jafngóður kostur við einhverjar tilteknar aðstæður. Við höfum verið að skoða þá leið sem Alþýðusambandið var að vinna að, en við viljum ekki ljá máls á nýjum banka sem verður svo einkavæddur þegar haldið verður áfram með stefnu íhaldsins frá því fyrir síðustu kosningar því við skulum ekki gleyma því að það stendur svart á hvítu í kosningastefnuskrá þeirra að steypa skuli saman Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna í einn Íbúðalánasjóð sem síðan skuli einkavæddur árið 2000. Það er svolítið gaman að sjá hverjir það eru sem eru fótgönguliðar íhaldsins í að koma þessu stóra máli að. Þegar ég las þetta ákvæði á sínum tíma hvarflaði ekki að mér að íhaldið fengi nokkurn einasta flokk með sér í þessa píslargöngu, en þar skjátlaðist mér.

Það hefur reyndar staðið styr um félagslega húsnæðislánakerfið alveg síðan þessi ráðherra kom í félmrn. og þá er ég, virðulegi forseti, að tala um hæstv. félmrh. Hann hefur gert kerfið tortryggilegt. Hann hefur linnulaust haldið því fram að íbúðir í félagslega kerfinu væru dýrari en á almennum markaði. Það var reyndar dyggilega hrakið með útreikningum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kallaði eftir á sínum tíma. Þar kom vel í ljós að íbúðir t.d. á höfuðborgarsvæðinu voru 10% ódýrari en íbúðir á almennum markaði. En líka hefur verið bent á að íbúðirnar hafi verið að hluta til niðurgreiddar með 3,5% framlagi sveitarstjórna sem hefur gengið beint inn í verð íbúðanna.

Hæstv. félmrh. hefur líka sífellt bent á vanda sveitarfélaga þar sem íbúðir hafa ekki selst en hann hefur aldrei talað um félagslegt húsnæði sem góðan kost fyrir launafólk með lág tekjumörk og öryggið sem þetta kerfi hefur veitt fjölda fjölskyldna í áratugi. Það er reyndar fróðlegt að skoða af hverju þessi umræða er um að félagslegar íbúðir séu dýrari. Það hefur líka komið fram í máli fleiri stjórnarliða. Skoðum það. Eru þær byggðar dýrari? Er t.d. íbúð sem byggð er í fjölbýlishúsi í Kópavogi og á að vera í félagslega kerfinu dýrari af því að hún er félagsleg eða getur það verið að hún sé á nákvæmlega sama verði í byggingu og tilsvarandi íbúð í öðru fjölbýlishúsi sem ekki er í félagslega kerfinu og er líka í Kópavogi? Ég held því fram. Er íbúð sem keypt er inn í félagslega kerfið á almennum markaði, hvort heldur er í Kópavogi eða einhvers staðar úti á landi, dýrari heldur en ef einhver annar hefði keypt hana á almennum markaði í sveitarfélaginu? Ég segi nei.

Hins vegar getur það alveg verið að íbúðir hafi verið byggðar dýrari einhvers staðar, að þær hafi verið byggðar á óheppilegum lóðum, þær hafi verið óheppilegar í hönnun, stofnað hafi verið um íbúðirnar byggingarfélag sem ekki stóð sig, verktaki hafi farið á hausinn, og allt þetta hafi lent á nákvæmlega sama húsinu af því að það var í félagslega kerfinu og þar axlar maður alla ábyrgð. Það er hugsanlegt.

En af hverju eru íbúðir í félagslega kerfinu dýrari í sölu? Veltum því fyrir okkur. Á þeim hvíla ýmist 90% eða 100% lán. Að mestu hafa lágar greiðslur íbúa þeirra húsa fyrstu árin farið til greiðslu vaxta, ég tala nú ekki um ef veitt hefur verið 10% viðbótarlán þannig að einstaklingur sem á þurfti að halda hafi fengið 100% lán. Þá má segja að megnið af greiðslunni, sem viðkomandi greiðir fyrstu árin, fari til greiðslu vaxta. Það þýðir að há lán, næstum því öll íbúðin á lánum, standa á íbúðinni. Það er ekki byrjað að greiða þau niður strax. Þetta er í raun og veru eðli jafngreiðslulána hvort sem þau eru tekin til þess að standa undir félagslegu húsnæði eða einhverju öðru. Taki maður lán, ég tala nú ekki um til 40 ára, og það lán eigi að deilast þannig niður að maður greiði lága fjárhæð mánaðarlega öll þessi ár, þá er það eðli þeirra lána að maður borgar mjög lítið niður fyrst, það verður ekki fyrr en síðast.

Þegar hins vegar sá sem hefur búið í félagslegri íbúð óskar eftir innlausn og fer út úr henni, þá er það þannig að hann fær það sem hann hefur lagt í íbúðina hafi hann verið búinn að vera í henni þann tíma að hann sé farinn að greiða hana niður, að vísu að teknu tilliti til fyrningar sem menn hafa verið að burðast við að lækka og hefur kannski enn þá verið of há, þá fær hann það sem hann hefur lagt í íbúðina miðað við verðið sem hún stendur í og óháð markaðsverði á staðnum. Í þeim tilfellum er það eitthvað sem kemur eigandanum til góða. Eigi hann lítið í íbúðinni fær hann a.m.k. nokkurn veginn það sem hann á miðað við það verðgildi sem íbúðin stendur í. En íbúð eða hús á sama stað, sem ber lægra markaðsverð þýðir oftast nær, þegar hún er seld langt undir kostnaðarverði, að eigendur slíkrar íbúðar eða slíks húss hafa tapað fé sem í eignina var lagt.

Virðulegi forseti. Það gleymist að tala um þetta. Það gleymist að tala um hvað er að baki markaðsverðs. Ef raðhús byggt í Reykjavík stendur í 14 millj. og við getum gefið okkur að 3 millj. af því sé e.t.v. lóðarkostnaður og sams konar raðhús er byggt úti á landi og þar er kannski lægri lóðakostnaður --- við skulum gefa okkur að það sé ekki nema 500 þús. eða milljón --- stendur húsið samt sem áður í 11--12 millj. Sé þetta hús selt nokkrum árum síðar fyrir 5 eða 6 millj. en eigi að standa í 11--12 millj. er eigandinn að sjálfsögðu að tapa því fé sem hann lagði í íbúðina. Munum þetta. Gleymum þessu ekki þegar við komum að þætti fólksins sem á að fá félagsleg lán í nýja fína kerfinu, þegar það ætlar að fara að innleysa íbúðirnar sínar og fara út á markaðinn í sveitarfélagi þar sem íbúð getur staðið í 8, 9 eða 10 millj. --- ég tala nú ekki um ef illa hefur til tekist eins og í einu sveitarfélagi þar sem ég þekki til og rúmlega þriggja herbergja íbúð stendur í yfir 11 millj., það er ekki eðli félagslega kerfisins, það er stórslys á staðnum sem veldur því. Gefum okkur að einhver sem búinn er að búa í slíkri íbúð í 10 ár biðji um innlausn á íbúðinni og kaupskylda ekki lengur fyrir hendi en forkaupsréttur og sveitarfélagið segir nei, ég ætla ekki að neyta forkaupsréttar. Á hvaða verði selur þessi einstaklingur íbúðina? (Gripið fram í: Á markaðsverði.) Á markaðsverði sem getur verið bara þriðjungurinn af þessu? Hvaða fólk er í íbúðinni? Var það einhver sem hafði efni á, virðulegi forseti, að byggja einbýlishús? Nei, nei. Var það einhver sem átti stórfé? Nei, nei. Það var einhver sem þurfti a.m.k. 90% lán til að fara inn í þessa íbúð eða jafnvel 100% lán. Munum þetta þegar við ætlum að fara að tala um markaðsverðið, þegar við ætlum að tala um að við höfum leyst vanda nokkurra sveitarfélaga sem hafa setið uppi með dýrar íbúðir sem seljast ekki. Vegna þess að hætta er á því að vandinn verði fluttur yfir á einstaklinga sem ekki geta fengið íbúðina sína innleysta, eiga að selja hana á markaðsverði og borga lánin. Munum þetta. Hugsum hvað liggur að baki markaðsverði þegar við erum að tala um það. Tölum ekki eins og það sé þannig að markaðsverð hvar sem er á landinu sé kostnaðarverð íbúða og verð á félagslegri íbúð sem er dýrari sé eitthvað uppsprengt verð sem búið var til af vondu fólki suður í Reykjavík og hefur gert það að verkum að einhverjir einstaklingar séu fjötraðir af kerfi sem eigi að leggja af. Virðulegi forseti. Munum þetta í umræðunni sem á eftir að standa hér næstu daga.

Hv. 5. þm. Austurl. nefndi það í ræðu sinni að það væri betra fyrir fólk á staðnum að eignast íbúð á markaðsverði. Það væri lægra. Ég ætla að minna á það af því að ég hef átt sæti í húsnæðisstjórn og ég hef átt sæti í sveitarstjórn og ég hef komið að málum í félmrn. og ég hef setið í nefndum sem hafa smíðað húsnæðiskerfi bæði félagslegt og annað, að í hverri einustu úthlutun nú í 10 ár hafa fylgt þau skilaboð til sveitarstjórna að þess sé óskað, sé eitthvað um það að laust íbúðarhúsnæði sé á staðnum, að keyptar séu notaðar íbúðir á markaðsverði inn í kerfið en ekki byggt til viðbótar við það sem laust er á staðnum. Munum þetta líka í umræðunni sem mun standa hér næstu daga, virðulegi forseti.

Ég sagði að búið væri að búa í haginn fyrir þetta frv. með endalausri gagnrýni á félagslega húsnæðiskerfð af hálfu félmrh. og valkosturinn sem er gulrót á fólkið í landinu sem heyrir að nú verði það ekki bundið í viðjar einhvers kerfis heldur muni það eiga valkost og geta valið sér íbúð hvar sem er.

[16:00]

Er nokkur hissa á því þó að einstæð móðir, við skulum segja uppi í Grafarvogi, sem ekki hefur bifreið til afnota, sem hefur óskað eftir endursöluíbúð niðri í bæ nálægt vinnustaðnum sínum en ekki fengið, þó að hún verði glöð þegar hún heyrir í fréttunum að nú eigi að leggja niður kerfið sem stýrði því að hún fór í hverfi sem hún kannski óskaði ekki eftir af því að hún vill miklu heldur vera niðri í bæ, og að hún geti núna selt íbúðina sína og fengið nýtt félagslegt lán, 90%, og farið niður í bæ, farið niður í Hlíðar eða eitthvað svoleiðis eða í Vesturbæinn? Er nokkur hissa á því þó að manneskjur sem hlusta á svona boðskap hugsi: ,,Þetta er bara gott.``

Hér í húsinu var sagt í dag: ,,Það er allt í lagi þó að stjórnarandstaðan sé eitthvað að ybba sig. Það er nefnilega þannig að það hefur náð í gegn til fólksins í landinu að þetta sé góður kostur, þessi beinu lán séu góður kostur.`` Já, þetta hefur að sjálfsögðu náð til fólks sem er í dýrum íbúðum með erfiða greiðslubyrði. Það hugsar: Nú fer ég bara út úr þessu. En þetta er ekki svona einfalt vegna þess að sveitarfélagið ræður, það ræður hvort einstæð móðir í Grafarvogi geti fengið íbúðina sína innleysta og staðið uppi með eitthvað það sem hún heldur að dugi til þess að kaupa niðri í bæ. Sveitarfélagið ræður þessu. Ef allir í nokkrum stórum blokkum í ákveðnu hverfi í Reykjavík sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi í ræðu sinni óska eftir innlausn af því að þeir ætla að fara annað, jafnvel bara til Kópavogs, dettur þá einhverjum í hug (Gripið fram í: Til íhaldsins þar.) eftir kosningar, að Reykjavík hafi bolmagn til þess að innleysa allar þessar íbúðir? Nei. (Gripið fram í: Er svona slæmt að búa í þeim?) Ég er að fara í gegnum það sem var nefnt í ræðum fyrr í dag að hér á höfuðborgarsvæðinu er líka ákveðið vandamál uppi og það er annars eðlis og ég er að draga fram að valkosturinn sem hefur verið gefinn sem gulrót stenst ekki, hann er ekki þessi gulrót, vegna þess að eftir sem áður ræður sveitarfélagið. Sveitarfélagið getur synjað um innlausn ef fólkið hefur búið í íbúðinni lengur en tíu ár. Þá getur það sagt: ,,Ég ætla ekki að kaupa þessa íbúð. Farðu með hana út á markað og ef þú ert með erfiða íbúð í illa seljanlegu hverfi eða blokk, þá selst hún ekkert einn, tveir og þrír.`` Sveitarfélagið ræður líka hversu mörg viðbótarlán það kýs að taka þátt í að fari út úr Íbúðalánasjóðnum og hversu margir geta farið út á markaðinn og keypt sér íbúð. Og sveitarfélagið getur krafist þess að sá sem ætlar að kaupa sér íbúð úti á markaði kaupi íbúð sem sveitarfélagið hefur innleyst og situr uppi með.

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki orðið kvöldsett en þannig háttar til að það var vilji forseta, sem náði ekki samkomulagi um þinghald á þessum föstudegi var og tilkynnt, formlega vegna atburðar sem á að vera á vegum þingsins í kvöld að þetta þinghald stæði til kl. 16.00 í dag. Ég vek athygli á því að klukkan er orðin fimm mínútur yfir fjögur og ég er ekki nema um það bil hálfnuð í ræðu minni þannig að ef forseti hyggst halda áfram þá held ég að við verðum að taka það upp hvort þinghaldi verður haldið áfram til kl. hálffimm Ég hef boðað til mín fólk upp úr klukkan fjögur af því að ég tók mark á þessari tilkynningu forseta.

(Forseti (GÁ): Forseti vekur athygli hv. þm. á því að níu mínútur eru eftir af ræðutímanum og spyr hvort hún hyggist ljúka ræðu sinni eða sé að ýja að því að hún vilji fresta henni.)

Ég vil gjarnan fresta ræðu minni, virðulegi forseti, og hefja hana að nýju á mánudaginn með frísk eyru viðstaddra hér til að taka við þeim boðskap.

(Forseti (GÁ): Forseti verður við þessari beiðni og gefur hv. þm. kost á að fresta ræðunni.)

Ég þakka forseta kærlega fyrir.