Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:23:25 (4462)

1998-03-09 16:23:25# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í höndum samþykkt sambandsstjórnar ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996. Sambandsstjórnarfundurinn leggur til eftirfarandi breytingar á félagslegum íbúðalánum:

Veitt verði sérstök lán til þeirra sem uppfylla skilyrði Byggingarsjóðs verkamanna um lán úr sjóðnum.

Lánin verði með jöfnum afborgunum eða jafngreiðslu til allt að 43 ára.

Lán verði að hámarki 90% af kaupverði.

Vextir hækki og lækki eftir tekjum og verði að öðru leyti svipaðir og verið hefur.

Lántaki velji sér íbúð sem uppfylli lágmarksskilyrði lánveitanda um gæði íbúðar.

Ekki verði gert út um kaup nema lánveitandi samþykki veðhæfi.

Lántaki beri sömu ábyrgð og skyldur og sá sem er á almennum markaði.

Eins og lántaki velur sér íbúð velur hann sér kaupanda þegar hann selur fasteignina, enda er ekki kaupskylda sveitarfélaga.

Lántaki flytji lán sitt á aðra viðurkennda íbúð eða greiði það upp við sölu fasteignar.

Þetta er nákvæmlega það sem við fórum eftir. Þetta er nákvæmlega það sem sambandsstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum 20. nóv. 1996.