Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:26:52 (4464)

1998-03-09 16:26:52# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get einnig greint frá því að mér finnst mikil stofuprýði að hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann er í ræðustólnum, sem iðulega kemur fyrir.

Ég hef ekki hunsað ASÍ, það er síður en svo. Ég hef reynt að eiga gott samstarf við ASÍ og ég vonast a.m.k. eftir því að þeir greini mér sjálfir frá því sem þeim þykir að frv. þessu ef þeir hafa alvarlegar athugasemdir við það.

Ég lagði til grundvallar samþykkt sambandsstjórnarfundarins og hef talið mig uppfylla hana. Ég ætla að lesa upp úr samþykktinni galla sem þeir fundu á félagslega kerfinu. Þeir segja kaupskyldu sveitarfélaga á félagslegum eignaríbúðum víða illframkvæmanlega. Þeir töluðu um að umhendis væri að hafa fastar reiknireglur við mat á söluverðmæti íbúðanna. Síðan segir, með leyfi herra forseta: ,,Á undanförnum árum koma sífellt greinilegar í ljós þeir annmarkar sem eru á félagslega eignaríbúðakerfinu, sem lausn fyrir þá tekju- og eignaminnstu í samfélaginu. Félagslega íbúðakerfið hefur ekki þær lausnir sem duga. Fjölda fólks tekst ekki að halda sínum félagslegu eignaríbúðum þrátt fyrir verulega hagstæð kjör og aðrir fá ekki félagslegar eignaríbúðir keyptar af fjárhagsástæðum. Þetta fólk hefur í fá hús að venda. Lagt er til að félagslegum leiguíbúðum verði fjölgað verulega til ráðstöfunar fyrir þá eigna- og tekjuminnstu. Þá verða allir landsmenn að eiga kost á húsaleigubótum án tillits til hver eigi leiguíbúðirnar.``

Þetta er allt að komast í framkvæmd. ,,Með þessum hætti verður hægt að aðstoða þá sem fá ekki inni í félagslegum eignaríbúðum vegna lánareglna. Sá vandi sem er víða vegna ónotaðra félagslegra eignaríbúða mætti minnka með því að breyta viðkomandi íbúðum í félagslegar leiguíbúðir til þeirra sem þess þurfa. Þeim íbúðum sem koma til innlausnar verði breytt í félagslegar íbúðir.`` Allt þetta erum við að gera.