Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:29:18 (4465)

1998-03-09 16:29:18# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta ömurlega yfirklór hæstv. félmrh. varðandi samskiptin við verkalýðshreyfinguna er ekki svaravert. Það liggur bara fyrir að ekkert samráð var haft við verkalýðshreyfinguna um undirbúning þessa frv. Henni er enginn hlutur ætlaður í framkvæmd húsnæðismála í landinu ef þessi ósköp verða að lögum. Þar með er lokið áratuga- og í raun og veru næstum aldarlöngu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og stjórnvalda um þessi mál. Og það er nákvæmlega það sem hæstv. félmrh. er hér að leggja til.

[16:30]

Að öðru leyti, herra forseti, er erindi mitt í þennan ræðustól þetta: Ég skora á hæstv. félmrh. að biðja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur afsökunar. Ummæli hans voru fyrir neðan allar hellur. Það er í sjálfu sér í góðu lagi mín vegna að hæstv. félmrh. lýsi yfir rökþroti sínu, að hann hafi ekki annað málefnalegra fram að færa til umræðna um húsnæðismál en að vísa til útlits þingmanna. Ég er persónulega ekki uppnæmur fyrir því og allt í góðu lagi með það. Og ég get rætt við hæstv. félmrh. Pál Pétursson um það hvor okkar er meiri stofuprýði. En þessi ummæli um hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur voru ekki makleg. Þau voru fyrir neðan allar hellur og ég trúi því ekki að hæstv. félmrh. ætli að láta þau standa án þess að biðjast velvirðingar á þeim og vera þá maður að meiri en megi skömm hans vera lengi uppi ef hann gerir það ekki.