Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:39:01 (4470)

1998-03-09 16:39:01# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál. Það eru fyrir löngu komin þau ákvæði inn í þingvinnuna að umsögn eigi að koma um frumvörp frá fjmrn. Í frv. á bls. 102 stendur í c-lið:

,,Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII er Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til leiguíbúða með niðurgreiddum vöxtum á árunum 1999--2000. Fjöldi og upphæð lána skulu taka mið af framlagi ríkissjóðs í fjárlögum og áætluðum kostnaði vegna niðurgreiðslu vaxta. Miðað er við að veitt verði lán til allt að 50 leiguíbúða til 50 ára. Núvirtar vaxtaniðurgreiðslur miðað við 5,7 millj. kr. meðallán á íbúð gætu þannig numið allt að 75 millj. kr. á ári.``

Og nú er spurningin: Á að taka mið af einhverjum frumvarpstexta sem ráðherrann vísar til eða umsögn fjmrn.? Um það er spurt hér. Í þessu máli getur ráðherrann ekki skýlt sér á bak við fyrirrennara sína á ráðherrastóli. Nú verður hann að leysa úr þessu sjálfur.

Virðulegi forseti. Við erum að ræða það að fara úr félagslegu kerfi með niðurgreiddum vöxtum á félagslegar íbúðir yfir í bein venjuleg markaðslán eins og eru á húsbréfunum og að niðurgreiðslan komi í gegnum vaxtabætur og að ætla sér að taka alla þessa umræðu án þess að fjmrh. sem hefur allt um það að segja hvernig farið verður með vaxtabæturnar, sé nálægur og komi neitt að þessari umræðu er í raun alveg ótrúlegt. Og að ætla sér að keyra vinnuna við þetta mál í félmn. meðan við vitum ekki einu sinni hvernig hugsunin er á bak við vaxtabæturnar nema eins og frv. birtist okkur eru alveg ótrúleg vinnubrögð af ríkisstjórnarinnar hálfu.