Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:44:47 (4473)

1998-03-09 16:44:47# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., forsrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Menn deila um það hvort ákvæði sem tilgreint er í ákvæði VIII hafi gildi eða umsögn fjmrn. Það liggur auðvitað í augum uppi að verði frv. þetta að lögum, þá gildir lagagreinin, ekki umsögn ráðuneytis. Það þekkjum við. Á hinn bóginn er umsögn ráðuneytisins viðmiðunarumsögn við þetta bráðabirgðaákvæði og ekki annað. Þetta ákvæði er opið. Það miðar við eins og þar segir að Alþingi skuli við fjárlög hverju sinni ákveða upphæðina, fjölda íbúða og annað þess háttar sem er til staðar. Það gefur auga leið og það sjá allir sem lesa textann að út frá slíku opnu ákvæði verður ekki gefinn fullnægjandi reikningur en til þess að upplýsa umfangið þá gerir umsögn ráðuneytisins ráð fyrir tilteknum tölum til viðmiðunar en frv. gildir.