Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:09:10 (4483)

1998-03-09 17:09:10# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það atriði hvort ég sé hrifinn af ,,félagslegu`` þá er það rétt að ég set alltaf mikið spurningarmerki við ,,félagslegt`` vegna þess að í því felst alls konar stýring og stjórnun á einstaklingnum. (SvG: Fátækt fólk.) Nei. Ég hef mikinn skilning á kjörum fátæks fólks, hv. þm., og það getur enginn sagt að ég hafi ekki skilning á því. En ég er á móti því að hjálpa allri þjóðinni og að einhverjir aðilar taki að sér að stjórna því og stýra hvar fólk býr og hvernig það býr, í hvað stórum íbúðum o.s.frv. Ég er á móti því. Það getur enginn sagt að ég hafi mælt á móti því að bæta kjör þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. En þeir eru bara ekki öll þjóðin sem betur fer.

Varðandi útlánatöpin þá --- það var nú ekkert andsvar við mína ræðu því að ég talaði ekkert um þau --- eru að sjálfsögðu lítil útlánatöp í kerfi sem setur sig á fyrsta veðrétt og passar sig og gætir í alla enda. Það er engin áhætta tekin neins staðar. Þetta er opinbert kerfi þannig að það verða mjög lítil töp þar sem betur fer. Þannig að ég ætla ekkert að svara því neitt frekar.

En ég hlýt að taka það sérstaklega fram að ég hef mikinn skilning á þeim sem eru minni máttar í þjóðfélaginu og ég tel að svona 10--15, jafnvel 20% af þjóðinni séu í þeim hópi en ekki meira. Ekki öll þjóðin eins og vaxtabæturnar gefa í skyn þar sem 50 þúsund manns fá vaxtabætur. Þeir eiga örugglega ekki allir bágt.