Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:10:46 (4484)

1998-03-09 17:10:46# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að þingmaðurinn vill ekki að það sé jafnað of mikið niður á við og það á ekki að hugsa um alla þjóðina aðeins vegna þess að kerfi sjái um sig þar sem það hefur 1. veðrétt. Ég sagði frá því í ræðu minni áðan að í sveitarfélagi ekki langt frá höfuðborginni hefðu fimm íbúðir í félagslega kerfinu staðið auðar. Á sama tíma átti sparisjóðurinn á staðnum 100 íbúðir sem hann hafði innleyst.

Virðulegi forseti. Af 600 sem höfðu fengið 100% lán í félagslega kerfinu til að fá íbúð sem þeir gátu sagt að væri eignin sín og haldið í þá tilfinningu og sjálfsvirðingu sem fæst við að eiga eigin íbúð, eigin heimili, eins og þingmaðurinn var að lýsa hér áðan, voru bara 17% vanskil, af þessum stóra hópi. Og stór hópur þessara hafði aðeins 60 þúsund í mánaðarlaun. En með jafnlánagreiðslur til yfir 40 ára þá getur þetta fólk eignast íbúð á þessum tíma.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn þekkir fólk sem býr í félagslegri íbúð. Það er venjulegt fólk alveg eins og ég og hann. Ég þekki marga. En ég þekki engan sem býr í félagslegri eignaríbúð og finnst ekki að það sé íbúðin sín og virðir ekki eignina sína og heimilið sitt alveg eins og ég og væntanlega hann. Það kemur mér á óvart að heyra þessar lýsingar og þessa flokkun á viðhorfi til eignar og tilfinningarinnar fyrir eign. Það veldur mér vonbrigðum.

En númer eitt, tvö og þrjú er það athyglisvert fyrir Framsfl. sem núna undir þessari ræðu er horfinn úr salnum, að sá sem er kannski mesti frjálshyggjumaðurinn hvað fjármagn varðar og peningamál og hefur sérstaka skoðun á því, hann fagnar þessu frv. svo mikið að þá fyrst skín sól í heiði þegar mælt er fyrir því.