Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:13:15 (4485)

1998-03-09 17:13:15# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:13]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að ekki skyldi verða orðið við tilmælum fjölmargra þingmanna um að reyna að koma á sáttum um það hvernig menn vilja afgreiða þetta mál. Ég heyrði reyndar skýringu hæstv. forseta um það hvenær frv. um vaxtabætur yrði tekið til umræðu en ég tel að ræða hefði mátt málin út frá þeim orðum sem hér féllu og mér þótti mjög miður að menn sögðu.

Hæstv. félmrh. sagði að stefnu Sjálfstfl. væri hafnað. Annað kemur í ljós þegar skoðuð er stefna og ályktun landsfundar Sjálfstfl. um húsnæðismál þar sem sagt er að Húsnæðisstofnun skuli lögð niður í núverandi mynd. Reyndar er sagt í þeirri ályktun að hin nýja lánastofnun verði einkavædd fyrir aldamót. Gæti það verið, herra forseti, að það sé það sem er í gangi? Mér sýnist á mörgu að verið sé að fara þá leið. Og í ályktun Sjálfstfl. segir að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði sameinaðir í eina lánastofnun. Hvað er verið að gera núna? Það er verið að fara algjörlega að stefnu Sjálfstfl.

[17:15]

Frumvarpið er sagt vera vandlega og eðlilega unnið. Það má vel vera að þeir sem unnu að lagabreytingunum hafi talið sig vinna vel og vandlega en þarna vantar fjölmörg sjónarmið. Sjónarmið stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar vantar að verulegu leyti. Ég byggi það á því að ég hef fengið þær upplýsingar frá verkalýðshreyfingunni að ekki hafi verið haft samráð.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að gera að umræðuefni viðhorf hv. þm. Péturs Blöndals sem telur það heilbrigða skynsemi hjá sér og hæstv. félmrh. að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég hef miklar efasemdir um að hér sé um heilbrigða skynsemi að ræða. Hún er fremur gölluð og götótt. Hvers vegna? Ég sé ekki betur en þeir sem lakar eru settir hafi dottið úr kerfinu. Ég velti því fyrir mér hver staðan er hjá þeim sem eru á lægstu launum. Þeim sem eru á umsömdum lágmarkslaunum. Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. um það og biðja hann að koma inn á það í einhverri ræðu sinni: Hver er staða þeirra sem hafa umsamin lágmarkslaun? Eiga þeir möguleika á að verða metnir inn í húsbréfakerfið? Eiga þeir möguleika einhvers staðar í kerfinu eftir þær breytingar sem nú á að gera? Ég ætla ekki að dæma fyrir fram. Ég spyr aðeins: Hverjir eru möguleikar fatlaðra? Hverjir eru möguleikar aldraðra? Hverjir eru möguleikar námsmanna? Síðast en ekki síst: Hverjir eru möguleikar þeirra fjölmörgu sem á undanförnum árum, vegna þess hvernig hag okkar Íslendinga hefur verið komið, hafa orðið gjaldþrota á undanförnum árum? Þeir eru fjölmargir. Hvað er gert fyrir þá aðila? Aðila sem lögfræðingar hafa hundelt árum saman. Þeir eiga ekki möguleika á að komast út úr gjaldþrotinu sem þeir hafa lent í. Fyrirtækin eru laus eftir fimm ár en einstaklingurinn er aftur á móti óendanlega gjaldþrota. Það er hægt að elta hann uppi ef hann einhvers staðar nær að rétta sig af. Mig langar að ræða um þetta, hæstv. félmrh., og biðja um svör við þessu. Mér finnst þetta mjög alvarlegt.

Ég sé ástæðu til þess að velta því fyrir mér hvers vegna þetta frv. til laga um húsnæðismál er komið fram. Hvers vegna er þetta mál sem við erum nú með til umræðu, 507. mál á 122. löggjafarþingi? Hugsunin hlýtur að vera að bæta stöðu viðskiptavina kerfisins. Ég held að menn hafi ætlað sér að bæta þá stöðu. Þetta mun örugglega létta kvöðum af einstaklingum, kannski einhverjum samvinnufélögum og kannski sveitarfélögunum. Mér finnst eðlilegt að draga þá ályktun að ætlunin sé að stokka upp í kerfinu, jafnvel að leggja stofnunina niður vegna þess að skipta þurfi um starfsfólk. Ég veit ekki um hvað er að ræða.

Miðað við drög að ályktunum síðasta landsfundar sjálfstæðismanna sem ég fór yfir áðan, þá finnst mér töluvert farið inn á þær brautir, hvort sem hæstv. félmrh. hefur kynnt sér þá ályktun eða ekki. Mér virðist þetta hægri bylting í húsnæðismálum að hluta til en ég fagna því að húsbréfakerfinu, í þeirri mynd sem það var komið, er viðhaldið og metið sem eðlilegt inn í þetta kerfi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lagt sé út í þessa byltingu af einhverri mannvonsku. Ég held að menn hafi ætlað að gera vel og ætli að gera vel. Það kann að vera unnt að gera breytingar á frv. því sem hér liggur fyrir. Hæstv. félmrh. nefndi áðan að ástæða væri til að skoða ákveðnar greinar og auðvitað fagna ég því. Ég sé ekki fram á annað en að einhverri lendingu verði að ná með mál sem eru komin svo langt að búið er að samþykkja þau af stjórnarflokkunum. Ég velti fyrir mér hvernig eigi að ná fram þeim leiðréttingum sem ég og margir aðrir telja að þurfi að gera. Mál mitt lýtur fyrst og fremst að þeim sem ég tel vera lakast setta og ég nefndi hér áður.

Ég held að þetta mál muni taka lengri tíma, herra forseti, en vikurnar til þingloka nema mér skjátlist um að ekki sé búið að ræða við aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að þær viðræður muni taka nokkuð langan tíma. Þar er t.d. um það að ræða að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna. Hvernig var hann byggður upp? Í samningaferli stéttarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins, grein fyrir grein, nánast frá orði til orðs. Ef ég skil það rétt, þá á að slá þetta af. Nú er ætlunin að slá Byggingarsjóð verkamanna af. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef tel ég að ekki hafi verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna. Ég byggi það á þeim viðtölum sem ég lýsti hér áðan og ég hef leitað eftir upplýsingum. Hjá verkalýðshreyfingunni er ætlunin að taka afstöðu til þessa frv. á fundi sem væntanlega verður á miðvikudaginn. Eins og ég sé þetta, þá ætla menn að jafna þann þátt sem Byggingarsjóður verkamanna hefur haft með viðbótarlánum. Það getur verið að auðvelt sé að gera þetta á þann veg, en ég á eftir að sjá það ganga eftir.

Ég hef mestar áhyggjur af því að verið sé að afskrifa möguleika þeirra sem lakast eru settir til að eignast þak yfir höfuðið. Ég hef efasemdir um að fólk með lágmarkslaun sé betur sett í leiguíbúðum, að það geti frekar staðið undir leigu en því að félagslega kerfið komi því til hjálpar við að eignast íbúð.

Ég ítreka spurninguna um það hvernig menn ætli að mæta þörfum fatlaðra, aldraðra, námsmanna, einstæðra foreldra og þeirra sem eru með of lágar tekjur til að standast greiðslumat. Ef ég skil þetta rétt þá eru þeir sem hafa lágmarkslaun með of lágar tekjur til að standast greiðslumat. Hvernig á að mæta þörfum þeirra sem hafa notið og þurfa að njóta félagslegra íbúða?

Í mínum huga hefur fiskveiðistjórnarkerfið og þau mál sem tengjast því misrétti verið stærstu mál þingsins. Ég er ekki að líkja þessum málum saman á neinn hátt en ég taldi fiskveiðistjórnarkerfið vera það sem við þyrftum að gera mestar bætur á til þess að jafna stöðu almennings í landinu. Þó hygg ég að það mál sem hér er til umræðu geti sennilega orðið stærsta mál þessa þings. Ég held því fram að eignaupptaka hafi átt sér stað hjá ýmsum sem unnið hafa eftir fiskveiðistjórnarkerfinu og happafengur hjá öðrum. Ég vona að varðandi þetta mál komi það ekki til með að verða lán einhvers að sumir eru illa staddir.

Við erum með stórpólitískt mál sem er grundvallaratriði hvað varðar jafnrétti íslenskra þjóðfélagsþegna. Þess vegna ræði ég mál þessara hópa sem kannski, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi, eru ekki nema 15 þúsund manns. 15 þúsund manns eru stór hópur og við þurfum að mæta þeirra þörfum. Hvernig eigum við að gera það? Er það gert í þessu frv.? Ég sé það ekki og ég vona að hæstv. félmrh. fari yfir það mál fyrir mig. Það er ekki hægt að afgreiða svona mál á jafnstuttum tíma og er til þingloka nema þessum spurningum verði svarað.

Svo ég vitni í samþykktir eins og hæstv. félmrh. gerði þá segir í þingtíðindum 38. þings Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

,,Öryggi í húsnæðismálum og lágur húsnæðiskostnaður eru mikilvægar forsendur fyrir velferð hverrar fjölskyldu. Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á að fljótt eftir stofnun heimilis eigi fjölskyldur og einstaklingar kost á því að búa í vönduðu eigin húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Skapa verður ungu og eignalausu fólki möguleika á að geta keypt íbúð m.a. með sparnaði sem njóti sérstaks skattafsláttar. Tryggt leiguhúsnæði er valkostur sem er mikilvægur og þarf að efla.

Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á góða lánafyrirgreiðslu sem byggist á lánum til langs tíma á sem lægstum vöxtum til þeirra sem vilja eignast íbúðarhúsnæði. Til að tryggja þessa fyrirgreiðslu er eðlilegt, eftirleiðis sem hingað til, að ríkið leggi fram fjármagn og tryggingar svo vextir af húsnæðislánum geti verið sem lægstir.``

Hæstv. félmrh. sagði að samráð hafi verið haft. Ég dreg það í efa vegna þess að ég sé ekki að þetta sé inni. Ég sé ekki að það sem hæstv. félmrh. nefndi úr þessari samþykkt varðandi það að lán verði með jöfnum afborgunum, lánin verða að hámarki 90%. Að einhverju leyti fer þetta saman við frv. en ég held að ekki hafi verið haft samráð að öðru leyti en að litið hafi verið á þau plögg sem liggja fyrir, samþykktir 38. þings ASÍ og sambandsstjórnarinnar.

Í þessum samþykktum er einnig sagt, með leyfi forseta, um félagslega húsnæðiskerfið:

,,38. þing ASÍ felur húsnæðisnefnd ASÍ og fjórum öðrum fulltrúum sem þingið velur að gangast fyrir umræðufundum með félögum ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið og skila síðan tillögum um breytingar og bætur á því fyrir næsta fund sambandsstjórnar ASÍ.``

Þessar samþykktir, herra forseti, held ég að liggi ekki fyrir. Ég hef ekki séð þær og hef ekki getað fengið þær í hendur. Þær geta vel verið til einhvers staðar en ég finn þær ekki í þessu frv. eða að vitnað sé til þeirra samþykkta.

Ég kom að því áðan, herra forseti, að það var með samningaferli milli aðila vinnumarkaðarins sem Byggingarsjóði verkamanna var komið á. Þess vegna tel ég að það hefði átt að hafa meira samráð en aðeins við einstaka fulltrúa sem Framsfl. hefur skipað við samningu þessa frv.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í skýrslu forseta þings Alþýðusambands Íslands 1997. Þar segir:

,,Á undanförnum tveimur árum hefur félagslega íbúðakerfið verið til mikillar umræðu hjá húsnæðisnefnd Alþýðusambandsins. Nefndin ræddi ítarlega stöðu félagslega íbúðakerfisins og þau atriði sem þyrfti að bæta í kerfinu.``

Þrátt fyrir þessa umræðu og fjölda ábendinga um úrbætur voru nefndarmenn samt ekki sáttir við þær lausnir. Hér er því mikið vandamál á ferðinni. Menn náðu ekki samkomulagi um hvernig fara ætti með þessi mál. Þar kom að lokum að rætt var hvort ekki væri rétt að endurmeta félagslega íbúðakerfið í heild og koma með nýjar lausnir.

[17:30]

Ef til vill eru þetta lausnir í áttina að því sem þarna er verið að ræða um sem felst í þessu frv. Ég get ekki metið að svo sé, en þess vegna er nauðsynlegt að fá fram viðbrögð stéttarfélaganna um einmitt þetta atriði og þau viðbrögð munu koma. Þau munu væntanlega koma eftir næsta miðvikudag, og það verður fróðlegt að sjá hversu vel þetta fer saman, sú aðgerð sem þetta frv. er og það sem þeir vænta af þessum breytingum.

Það á, herra forseti, að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins. Íbúðalánasjóður á að taka við, eins og kom fram áðan, með sameiningu Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Það er verið að taka upp ýmis ákvæði hlutafélagalaga um starfrækslu þessa sjóðs. Hæstv. félmrh. á nú einn að skipa fimm manna stjórn Íbúðalánasjóðs sem á að velja sér framkvæmdastjóra. Kjaradómur á ekki lengur að ákveða laun forstjóra, heldur stjórn, rétt eins og hjá hlutafélögum. Ég er ekki að segja að þetta sé neitt alslæmt, heldur er ég bara að fara yfir þær breytingar sem er verið að ræða um. Ég sé ekki betur en hér sé um að ræða aðra bankastofnun, eða nýja bankastofnun á einhvern hátt, með þeim breytingum sem er verið að gera. Það sem gerist er að öllu starfsfólki Húsnæðisstofnunar ríkisins verður trúlega sagt upp og ég sé ekki og finn ekki ákvæði um forgang til starfa. Það getur verið að það sé viljandi gert, það getur líka verið að það eigi eftir að koma frekar fram, og ég vildi biðja hæstv. félmrh. að gera örlitla grein fyrir því hvað er hugsað varðandi starfsmenn stofnunarinnar.

Mér sýnist að frv. sé kannski frekar sniðið að þörfum einstakra sveitarfélaga en allra, og ég horfi þannig á að það sé verið að loka félagslega eignaríbúðakerfinu og að verið sé að taka beinar lánveitingar til einstaklinga úr nýjum sjóði en ég geri ekki alvarlegar athugasemdir við það. Eins og ég er búinn að ítreka tvisvar áður hef ég áhyggjur af þeim sem eru lakast settir og ég vona að hæstv. félmrh. leiði hugann að þeim einstaklingum. Ég trúi því. Um leið og við afgreiðum þetta frv., hvenær sem það verður, hvort sem það verður á þessum vetri eða næsta vetri, þá verðum við að vera búin að setja öryggisnet fyrir þá sem lakast eru settir.

Það er ákveðið orðið að öll félagsleg aðstoð í stað niðurgreiddra vaxta verði í gegnum vaxtabótakerfið og það er hugsað þannig að greiða eigi vaxtabætur út á þriggja mánaða fresti. Getið er um að framlag sveitarfélaganna verði um 5% af viðbótarláni sem á að fara í varasjóð til að mæta útlánatöpum. Þá velti ég fyrir mér hvað gerist ef sveitarfélögin neita, sem ég held að þau geti, þau geta neitað að greiða þessi 5% en auðvitað leiðir það til þess að þá vill sennilega enginn flytja í það sveitarfélag.

Það er verið að heimila stofnun hlutafélags um rekstur leiguíbúða. Þarna fer þetta mál alveg saman við ályktun frá landsþingi Sjálfstfl. þannig að þótt hæstv. félmrh. hafi ekki verið kunnugt um þær ályktanir þá eru mörg atriði sem falla þar alveg saman.

Gert er ráð fyrir að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar fari út úr húsnæðisnefndum og þær verði pólitískt skipaðar. Ég hygg að það sé gott að hafa fulltrúa verkalýðsfélaganna í þessum nefndum. Það hefur reynst vel upp á sátt og samkomulag.

Það eru mörg atriði sem hægt er að nefna til viðbótar um þetta mál, en ég hef að nokkru leyti farið yfir helstu atriði sem eru gagnrýniverð. Ég get lesið út sem niðurstöðu að vissulega hafi þurft að fara í ákveðnar aðgerðir. Ef til vill má að gefnu tilefni ræða um breytingu á búskaparháttum. Ef ég velti því fyrir mér hver sá er ábyrgur fyrir málinu þá er verið að breyta búskaparháttum. En mér finnst að afgreiða eigi málið í það miklu snatri að það gangi ekki. Ég tel að ekki sé hægt að afgreiða svona veigamikið mál á fimm til sex vikum sem eftir lifa af þessu þingi. Ég spyr eins og ég hef gert áður: Til hvaða lagalegra eða félagslegra aðgerða ætlar hæstv. ráðherra að grípa vegna þeirra lakar settu? Ég minni aftur á stöðu þeirra sem hafa lent í gjaldþrotum, fólksins sem hefur verið hundelt árum saman. Ef það hefur einhvern tímann komist til þess að fara að rétta sinn hlut upp á nýtt, þá er það elt uppi af lögfræðingum og meira að segja er þekkt dæmi af því að farið hafi verið inn á Landsbókasafn til að finna mál sem menn hafa jafnvel talið að væru fyrnd í kerfinu og það er slæmt.

Ég vil að lokum fagna því að hæstv. ráðherra sagði í upphafi þessarar umræðu í dag að hann sæi ástæðu til að gera brtt. við þetta mál, jafnvel strax í upphafi, og þá er bara að sjá hvað það er sem um er að ræða. Ég held að það sem helst vanti í frv., og mætti kannski velta fyrir sér tillögum um breytingar, sé að kaupendur þurfi að hafa val um leigu eða kaup fyrstu fimm árin. Það gæti orðið til sátta. Sem sagt að afborgunarhlutinn í húseign eða í húsaleigu gæti nýst leigjanda sem greiðsla ef leiga breyttist í kaup. Það væri fimm ára aðlögunartími að þessu máli. Ég hef velt fyrir mér hugmyndum í þessa átt. Það má líka velta fyrir sér hvort íbúðarkaupendum verði gert kleift á einhvern hátt að leggja fram eigið vinnuframlag sem nemur allt að 5% af byggingarkostnaði, til lækkunar á framlagi vegna íbúðarkaupa. Af hverju er ég að velta þessu fyrir mér, herra forseti? Vegna þess að sá sem hér stendur hefur notið þess að vera í húsnæðiskerfinu og gat sjálfur nýtt sér þá stöðu að byggja hús sitt upp nánast með eigin höndum. Annars væri sá sem hér stendur örugglega ekki kominn í það að klára sig frá þeim málum. Ég efast a.m.k. um það miðað við þær tekjur sem undirritaður hafði á þeim árum þegar harðast var. (Gripið fram í: Og hefur nú.) Það er unnt að komast af á þeim tekjum sem undirritaður hefur nú, þótt sumir telji þær ekki nægar fyrir saltinu í grautinn, svo ég vitni nú í orð hv. þm. sem sögð voru einhvern tímann í gríni. En ég tel að ríkisvaldið í samráði við sveitarfélög, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði þurfi að ráðast í sérstakt átak til að fjölga leiguíbúðum og efla leigumarkað og það þurfi að byggja allt að 500 íbúðir á ári í því skyni á næstu árum. Vegna hvers? Vegna þess að í Reykjavík eru a.m.k. þúsund manns á biðlista eftir leiguíbúðum ef ég hef réttar upplýsingar. Þess vegna tel ég að þarna þurfi að taka á. Þetta gæti verið eitt af þeim atriðum sem yrðu til samkomulags.

Ég tel að það þurfi að gera, herra forseti, úttekt á orsökum og áhrifum fyrir þau sveitarfélög sem ekki hefur tekist að selja félagslegar íbúðir. Menn vita, herra forseti, hvernig staða þeirra sveitarfélaga er sem sitja núna uppi með félagslegar íbúðir sem eru langtum hærri í verði en almennt gengur og gerist á fasteignamarkaðnum. Þetta er sannarlega vandi sem er fyrir hendi og spurning hvort hægt sé að breyta þeim íbúðum í leiguíbúðir og þær verði hluti átaks sem ég nefndi áðan í fyrri tillögu minni sem ég gerði grein fyrir.

Herra forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni í bili um þetta mál og ætla að sjá til hvað verður af svörum og það fer eftir þeim svörum hvernig ég bregst við í framhaldinu.