Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:41:41 (4486)

1998-03-09 17:41:41# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:41]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli Einarsson, sem eins og svo margir landsbyggðarþingmenn hefur hjartað á réttum stað, hafði áhyggjur af því að verið væri að minnka möguleika þeirra sem tekjulægstir eru í þjóðfélaginu til að eignast eigin íbúð. Ég held þvert á móti að verið sé að stórauka og bæta hag þeirra sem tekjulægstir eru. Það er grundvallaratriði í mínum huga eins og hjá hv. þm. Gísla Einarssyni að þeir tekjulægstu geti eignast eigin íbúð og eigi sama val og aðrir um hvar sú íbúð sé. Í dag er þetta þannig eins og við vitum að menn eiga ekki val. Menn þurfa bara að sæta því hvar hið opinbera hefur ákveðið að byggja yfir þá og eftir teikningum sem yfirleitt eru gerðar hjá Húsnæðisstofnun, þannig að menn hafa ekki það val sem ég vil sjá að fólk eigi og það mun koma verði þetta frv. að lögum. Ég held að ekki sé hagur í því að halda lengur í gamalt, skandinavískt húsnæðiskerfi þar sem fólki er skipað á bás eftir tekjum og afkomu í þjóðfélaginu, þar sem menn eru settir í sömu blokk, allir sem hafa lágar tekjur. Það er þetta kerfi sem menn ætla að breyta. Menn ætla að gefa fólki val um hvar það sest að og jafnframt sömu fyrirgreiðslu til þess að kaupa þær íbúðir. Þá geta þeir einstaklingar sem þannig er ástatt um með frjálsari hætti tekið þátt í að móta og klára þá íbúð sem þeir eru að kaupa, rétt eins og hv. þm. ræddi um áðan að hann hefði gert sjálfur og sér hefði nýst vel.