Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:55:33 (4493)

1998-03-09 17:55:33# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Því er ekki að neita að það frv. sem hér er til meðferðar er stórmál. Það er ekki hægt að neita því. Það er leitt til þess að vita hvernig staðið er að framlagningu málsins, hvað það kemur t.d. seint fram. Það er leiðinlegt úr því að ríkisstjórnin virðist ætla sér að reyna að gera þetta að lögum, þá skuli málið ekki koma fram fyrr en núna seint á þinginu þannig að það bendir allt til þess að núna eigi að fara að taka upp gömlu vinnubrögðin þar sem menn þyrftu helst að beita ákvæðum vökulaganna til að koma við eðlilegum vinnubrögðum. Okkur hefur tekist á þinginu í vetur að skipuleggja okkar verk þannig þrátt fyrir mörg stór mál sem hafa verið til meðferðar að ekki hefur komið til kvöldfunda eða næturfunda hvað eftir annað. Ég veit að ég og hæstv. félmrh. erum sammála um að það eru ekki heppileg vinnubrögð og ekki skynsamleg eins og var á síðasta kjörtímabili þar sem næturfundir voru til kl. 5 á morgnana hvern einasta dag eina vikuna fyrir áramót. Það er alvarlegt umhugsunarefni að ráðuneytið skuli koma þessum málum svona seint frá sér burt séð frá efni málsins.

Þar af leiðandi, herra forseti, hefði ég talið að ráðuneytið ætti að semja um að málið yrði tekið upp aftur í haust og það yrði skoðað betur í sumar í samvinnu við alla aðila. Ég hef engin rök heyrt fyrir því að málið er rekið áfram af þessu offorsi. Og ég vil byrja á að spyrja hæstv. félmrh. hver rökin séu fyrir því að málinu þurfi endilega að ljúka á þeim fáu dögum til 22. apríl þegar gert er ráð fyrir að þinginu ljúki í vor. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá svar við því vegna þess að það offors sem hér er um að ræða núna er algerlega óeðlilegt og er ekki í þágu málsins. Vitaskuld má segja að stjórnarflokkarnir ráði, þeir eru hér með meiri hluta og við getum í raun engum vörnum við komið nema kannski þegar um það er að ræða að koma eigi í gegn stórmálum með afbrigðum eins og átti að gera í sambandi við sjómannaverkfallið og menn voru með hugmyndir um að banna það með lögum en trylltust síðan þegar stjórnarandstaðan leyfði sér að nota þær heimildir sem eru í þingsköpum til að greiða atkvæði gegn þeim afbrigðum. En það er bersýnilega ætlun hæstv. ríkisstjórnar að kýla þetta mál í gegn þó að mikil andstaða sé við það og líka hitt sem er kannski enn þá verra, og það er, herra forseti, að menn þekkja málið ekki nógu vel. Ég heyri það á umræðunum að menn þekkja málið ekki nægilega vel. Það er alveg bersýnilegt að menn hafa ekki fengið eðlilegan tíma til að lesa málið. Ég heyri það meira að segja á því hvernig hæstv. félmrh. hagar orðum sínum í sambandi svör við einstökum atriðum að ég tel að hann sé ekki nægilega vel undirbúinn undir þessa umræðu eins og ráðherra þyrfti í rauninni að vera, enda er hann með í hliðarsal, á fullu kaupi væntanlega, þrjá embættismenn sólarhringana út til að framleiða svör jafnharðan og við spyrjum spurninganna og ég óska þeim gæfu og gengis í því að framleiða þann texta.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að óeðlilegt sé að ganga svona að þinginu eins og hér er verið að gera en út af fyrir sig má líka halda því fram að það þýði ekkert að segja þetta vegna þess að greinilegt er að þessi stóri og sterki mikli meiri hluti er staðráðinn í að róta málinu í gegn hvað sem við segjum. Það er ekkert hlustað á okkur hérna. Það er alveg bersýnilegt að ekki á að gera það. Fyrir utan þau ósmekklegu fúkyrði sem hafa fallið af hálfu hæstv. félmrh. í garð hv. 13. þm. Reykv. og ég vil nota tækifærið til að taka undir mótmæli hv. 4. þm. Norðurl. e. gegn ummælum hæstv. ráðherra um hv. þm.

[18:00]

Verkamannabústaðakerfið á Íslandi varð til á kreppuárunum og það eru til lýsingar á því hvaða tíðindi það voru fyrir verkamannafjölskyldur í Reykjavík þegar fólk fluttist inn í almennilegt húsnæði. Ég vona að hæstv. félmrh. hafi haft aðstöðu til að kynna sér það. Ég man t.d. eftir að einn af þingmönnum Alþb. í Reykjavík um tveggja kjörtímabila skeið, Guðmundur J. Guðmundsson, lýsti því aftur og aftur hvaða breyting það var fyrir fjölskyldu hans þegar hún komst loksins inn í verkamannabústað. Þá var ekki um að ræða að fólk væri að flytja úr bröggum heldur úr hreinum grenjum, kjallaragrenjum hér um allan bæ, og af þeim ástæðum var reist þessi mikla stytta af Héðni Valdimarssyni vestur á Hringbraut. Í rauninni er hér frv. til laga um að taka þá styttu niður. Í raun og veru er hér tillaga um að taka niður styttuna af Héðni Valdimarssyni vegna þess að verkamannabústaðakerfið eigi að leggja niður.

Ég held að ekki sé hægt að neita því, herra forseti, að hér er um að ræða tillögu um hægri byltingu í húsnæðismálum, frá hægri. Tillögu um byltingu frá hægri. Það er verið að henda öllu þessu félagslega kerfi fyrir róða, eins og það leggur sig. Mér finnst það satt að segja hart að Framsfl. undir forustu hæstv. félmrh. Páls Péturssonar skuli beita sér fyrir þessari hægri byltingu, vegna þess að það er verið að kasta öllu fyrir borð og hér er um að ræða óvenjugrófa atlögu að kerfinu.

Ég minnist þess að 1974 voru gerðir kjarasamningar sem kallaðir voru sólstöðusamningar --- þeir voru reyndar síðar. Kjarasamningarnir 1974 voru ekki kallaðir sólstöðusamningar heldur kjarasamningarnir 1977 en látum það vera --- þá samdi verkalýðshreyfingin um að þriðjungur íbúðarhúsnæðis skyldi vera á félagslegum grundvelli og ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sem þá sat, 1974--1978, gerði ekkert í því máli. Það var ekki fyrr en vinstri stjórnin kom til valda haustið 1978 og 1980 sem ákvarðanir voru teknar um að efna þessi loforð við verkalýðshreyfinguna með því að sett voru ný húsnæðislög sem gerðu ráð fyrir að þriðjungur íbúðarhúsnæðis eða svo sem byggður yrði í landinu, yrði á svokölluðum félagslegum grundvelli. Um þetta varð mjög víðtæk samstaða og ég man eftir því þegar þessi lög voru sett 1980, undirbúin bæði af mér sem þáv. félmrh. og einnig af forvera mínum, þáv. hæstv. félmrh., Magnúsi H. Magnússyni, að þá lögðu menn mjög mikla áherslu á samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Af hverju var það? Það var vegna þess að launafólk fjármagnaði þessar breytingar sjálft. Verkamannabústaðakerfið og Byggingarsjóður ríkisins eins og hann var var fjármagnað með því að menn sömdu um lægra kaup en ella hefði verið. Í raun og veru var það því þannig að fólkið var sjálft að borga fyrir þessi húsnæðiskerfi með lægra kaupi en það hefði annars haft. Og því var það sem samið var við verkalýðshreyfinguna um þessa hluti í einstökum atriðum, svo að segja setningu fyrir setningu í þessum frv. Nú er verið að henda þessu öllu fyrir borð. Og það er dálítið sláandi þegar hv. þm. Pétur Blöndal flytur þessa fagnaðarræðu. Mér finnst það segja eiginlega allt sem þarf að segja um þetta frv. þegar hv. þm. Pétur Blöndal, á miðri góunni þegar hún er hvað köldust, sá hér sól þegar þetta frv. kom hingað inn. Hv. þm. Pétur Blöndal sem er einhver alharðasti talsmaður peningasjónarmiðanna og einkahyggjunnar hér í þessari virðulegu stofnun. Mér finnst að það mætti verða hæstv. félmrh. til nokkurrar umhugsunar þegar slíkur postuli hægri stefnunnar á Íslandi gengur fram harðar en nokkur annar maður til að fagna þessu frv. eins og það lítur út.

Herra forseti. Auðvitað hefur verið tiltölulega auðvelt eins og gengur að finna margvíslega galla á þessu félagslega kerfi. Auðvitað hefur kaupskyldan verið flókin fyrir ýmis sveitarfélög. Auðvitað þekkjum við mjög marga einstaklinga sem hafa kvartað undan því að eignamyndunin væri hæg. Auðvitað þekkjum við dæmi um einstaklinga sem hafa sagt sem svo: Endurreikningsreglurnar við sölu á verkamannabústöðum eru ósanngjarnar. Við þekkjum hundruð svona dæma en þá gleymist það í leiðinni að um það er að ræða að verulegur fjöldi alþýðufjölskyldna í landinu hefur með þessu félagslega íbúðakerfi komist inn í sæmilega öruggt húsnæði, íbúð sem skiptir ekki litlu máli á okkar kalda landi. Að vera í íbúð. (RG: Og á hana.) Og á hana. Þannig að þegar hæstv. félmrh. ræðst svona harkalega að þessum félagslegu sjónarmiðum, þá finnst mér engin samlíking betri en sú sem ágætur kunningi minn sem er vel kunnugur í Norðurlandi vestra sagði: Hæstv. félmrh. gengur í þetta verk eins og hver annar bóndi sem sér eina riðuveika á í sinni hjörð. Hann sér hjörðina alla. Það er í raun og veru það sem hér er á ferðinni. Hæstv. félmrh. hefur orðið var við að það er einn og einn galli á kerfinu og í staðinn fyrir að fara í að leysa málið umgengst hann málið eins og hér sé um smitsjúkdóm að ræða og þess vegna þurfi að skera alla hjörðina niður eins og hún leggur sig og eyðileggja félagslega íbúðarbyggingakerfið. Það er ekkert hægt að neita því. Hvað er félagslegt eftir í þessu frv.? Það er önnur spurning mín til félmrh. Hvað er félagslegt eftir í þessu frv.? Hvað er það sem láglaunafólk í landinu getur reitt sig á í sambandi við húsnæðismál eftir að þetta yrði að lögum? Ég held að það sé ákaflega fátt.

Það er ekki gott þegar hæstv. félmrh., í svo að segja hverri einustu ræðu sem hann flytur um verkamannabústaðakerfið, félagslega íbúðarbyggingakerfið, talar illa um það. Það er eins og þetta hafi aldrei haft neina kosti. Ég leyfi mér þó að minna á að Framsfl. hefur mjög oft átt aðild að því að byggja upp þetta kerfi. Ég leyfi mér að halda hér á lofti merki manns eins og Alexanders Stefánssonar, sem var félmrh. í fjögur ár. Ég man ekki betur en Framsfl. væri með félmrh. t.d. á árunum í kringum 1950 þegar gert var gríðarlegt átak í þessum efnum. Og ég man ekki betur en að Framsfl. hafi einmitt verið með forsrh., sjálfan Hermann Jónasson, þegar húsnæðisstofnunarlögin voru sett, árið 1954, ef ég man rétt, þegar Hannibal Valdimarsson var félmrh. Það er því kostulegt að sjá hæstv. félmrh., þennan mæta mann, félagslega sinnaðan, vinstri sinnaðan mann, að hann er allt í einu orðinn eins og kórdrengur hjá hv. þm. Pétri Blöndal þegar kemur að þessu máli. Það er mjög sérkennilegt og ég segi alveg eins og er að á dauða mínum átti ég von en ekki því að sjá þennan ágæta ráðherra í þeim hræðilega söfnuði sem hann finnur sig nú í.

Hv. þm. Pétur Blöndal flutti hér nokkra ræðu um þessi mál sem ég ætla aðeins að víkja að, af því að það er svo dæmigert fyrir klisjurnar í málinu, og eins hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson. Allt í einu fann hann sig knúinn til að hjóla í hv. þm. Gísla Einarsson í andsvari út af þessu máli og sagði: Þetta er fínt frv. Af hverju? Af því það þýðir frelsi fyrir fólk. Nú getur fólk valið um hvar það á að búa. En það er ekki þannig vegna þess að í fyrsta lagi er fólk eins og alltaf hefur verið, bundið af sinni eigin fjárhagslegu stöðu, atvinnu og öðru, en í öðru lagi eru í frv. nokkur atriði í sambandi við þetta félagslega kerfi sem eru þannig að fólk er áfram bundið á höndum og fótum vegna þess að skilyrðin í sambandi við viðbótarlánin eru það ströng að það eru bersýnilega bara sumir en ekki allir sem geta fært sig til í þessum efnum, eins og ég kem að á eftir. Það er því rangt og það er blekking og ég mótmæli þeirri blekkingu hæstv. félmrh. alveg sérstaklega og þeirra félaga, hv. þm. Péturs Blöndals og hans, að hér sé um það að ræða að verið sé að losa um allt skriffinnskukerfið eins og það er kallað. Það er hrein blekking að verið sé að tryggja það að fólk í félagslega íbúðakerfinu geti valið um hvað sem er. Það er ekki svo. Og það er beinlínis rangt að hér sé verið að létta af einhverju skipulagi í þeim efnum, því stjórnvöld munu, eins og ég kem að síðar, geta haft áhrif á það að binda fólk við tilteknar íbúðir. Það liggur þannig og má finna fyrir því rök sem ég mun koma aðeins að á eftir.

Hv. þm. Pétur Blöndal, sem ég má til með að nefna hér aðeins, kom í raun líka upp um framhaldið, því þetta er bara fyrsta vers hjá íhaldinu. Fyrst er að eyðileggja félagslega kerfið, svo á að eyðileggja vaxtabótakerfið sem er hin hliðin á málinu, og það athyglisverða sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði var: Vaxtabætur eru óalandi og óferjandi. Hann var að gefa stefnuyfirlýsingu fyrir Sjálfstfl. um að það akkeri sem í öðru orðinu er sagt að sé í þessu máli yrði tekið í burtu.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að þeir kostir sem hafa verið raktir í sambandi við þetta mál eru meira og minna allir saman blekking. Eitt af því er t.d. að íbúðaverð um allt land lækki með þessum ákvörðunum. Það er ekki rétt. Annað er að það er notað sem rök í málinu að nú verði hætt að nota peninga skattborgara og almennings til að byggja flottræfilshúsnæði. Svona er talað. Er það húsnæði sem byggt er uppi í Bláhömrum í Reykjavík eða hérna handan við Fossvoginn í Kópavogi eitthvert flottræfilshúsnæði? Hvaða tal er þetta? Og af hverju á það húsnæði sem þetta fólk er í að vera verra en annað húsnæði ef fólk getur borgað fyrir það á annað borð eftir þeim reglum sem settar eru? Og svo er alltaf verið að tala um auðar íbúðir, að fleiri íbúðir séu auðar í þessu félagslega kerfi en í öðru íbúðakerfi í landinu. Svo er ekki. Ég skora á hæstv. félmrh. að láta fara fram talningu á því, vegna þess að ég held að menn muni komast að þeirri niðurstöðu að því fer víðs fjarri að svo sé.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að hér er verið að eyðileggja félagslega íbúðakerfið. Það er að fara. Það er verið að vísa fólki á vaxtabæturnar einar og þau kaflaskil eru að verða á þessu kjörtímabili, herra forseti, að verið er að setja öll félagsleg réttindakerfi í þá stöðu að fólk hafi ekki neitt nema ákvörðun meiri hluta Alþingis hverju sinni varðandi framlög úr ríkissjóði. Það er verið að breyta ellilífeyriskerfinu. Það er verið að gera ellilífeyriskerfið háðara ákvörðunum Alþingis hverju sinni en það hefur verið. Það er verið að breyta húsnæðiskerfinu þannig að í góðæri getur þetta út af fyrir sig allt saman gengið nokkuð vel, en ef yrði hrun, segjum í loðnustofninum eða einhverju slíku, þá er bersýnilegt að allir þeir sem eiga afkomu sína undir velferðarkerfinu eru á vonarvöl, af því að það er búið að sneiða í burtu alla almenna velferðarlöggjöf og vísa öllu á almenn framlög úr ríkissjóði. Og það er Framsfl. sem tekur þátt í því að eyðileggja þennan þátt í velferðarkerfinu og það er harmsefni að svo skuli vera.

Herra forseti. Ég ætla því næst að víkja að nokkrum efnisatriðum í þessu máli og í fyrsta lagi að því að ég sé ekki betur en hér sé verið að gera afar vel við sveitarfélögin. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. sem er þriðja spurning mín til hans: Hvað græða sveitarfélögin á þessum breytingum? Vegna þess að hér er um það að ræða að kaupskyldan fellur niður, 3,5% falla niður og þátttaka sveitarfélaganna í vaxtaniðurgreiðslum fellur niður. Hér er um að ræða gríðarlegan ávinning fyrir sveitarfélögin, ef ég les þetta rétt --- og nú áskil ég mér út af fyrir sig rétt til að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki eins glöggt lesið af minni hálfu og það ætti að vera, en þá spyr ég: Hver eru rökin fyrir því að sveitarfélögin fá þessa meðferð? Er ekki allt í lagi að þau séu höfð með í þessum málum með skipulegum hætti? Mér sýnist að þarna sé verið að láta þau sleppa allt of vel.

Í annan stað, varðandi almennar athugasemdir mínar ætla ég að endurtaka spurningu mína um það hvað er eftir af félagslega kerfinu. Hvað er eftir? Og þegar ég spyr þessarar spurningar læt ég fylgja með fullyrðingu sem er þessi: Það er ekkert eftir af félagslega kerfinu. Og hvað hef ég fyrir mér í því? Ég hef fyrir mér tvo þingmenn. Í fyrsta lagi hef ég fyrir mér í því ummæli hv. 5. þm. Austurl., Arnbjargar Sveinsdóttur, sem sagði hér um daginn, með leyfi forseta: Í raun verður ekki um félagslega aðstoð að ræða eftir þessar breytingar, nema auðvitað í vaxtabótakerfinu en ekki í húsnæðiskerfinu. Og hinn þingmaðurinn sem ég ber fyrir mig í þessu efni er hæstv. fjmrh. en hann segir hér í þessu skjali á bls. 101:

,,Frumvarp til laga um húsnæðismál gerir ráð fyrir að horfið verði frá félagslegri fjárhagsaðstoð vegna íbúðarhúsnæðis í formi lána með niðurgreiddum vöxtum.`` Það er algjörlega klárt að þessir þingmenn eru báðir þeirrar skoðunar að það sé verið að hverfa frá þessu kerfi. Þá sést náttúrlega það vel af hverju Sjálfstfl. samþykkti þetta frv. á augnabliki. Það er af því hann er að fá allt.

[18:15]

Hin gegndarlausu fagnaðarlæti hv. þm. Péturs Blöndals sönnuðu auðvitað það sem sanna þarf. En að öðru leyti er náttúrlega alveg greinilegt að Sjálfstfl. er að fá allt í þessu efni. Hann er að fá öll ákvæði sinnar kosningastefnuskrár eins og lesið var upp úr henni hér af hv. þm. Gísla S. Einarssyni.

Í þriðja lagi í almennum athugasemdum mínum um þetta frv. spyr ég hæstv. félmrh.: Er það ekki augljóst mál að kostnaður fólks við að fara inn í íbúðir og út úr íbúðum er að hækka samkvæmt frv.? Mín rök eru þessi: Ég tek dæmi af lítilli íbúð sem kostar t.d. 5,5 millj. kr. eða svo. Mér sýnist að kostnaðurinn við að flytja í slíka íbúð í dag sé 57 þús. kr. en verði 135 þús. kr. og að kostnaðurinn við að flytja úr þeirri íbúð sé í dag 27.500 kr. en verði 110.000 kr.

Hæstv. félmrh. rakti nokkur dæmi um allt annað hér áðan þegar hann dró inn alls konar aðrar þætti sem ég sá ekki að kæmu málinu við. Og hæstv. félmrh. gekk svo ótrúlega langt að hann sagði: ,,Það þarf að borga 0,5% þegar flutt er í búðina og 0,5% þegar flutt er úr henni, og gaf í skyn að það væri í raun og veru samtals 1% sem menn væru þá að borga fyrir það að flytja í íbúðina og úr henni. Veruleikinn er þó annar og ég skora á hæstv. félmrh. að sanna það eða afsanna að það sé rétt sem ég fer hér með vegna þess að það verður að vera alveg skýrt. Ég sé ekki betur en að verið sé að stórhækka kostnað fólks sem fer inn í kerfið og líka þess fólks sem er að fara út úr kerfinu eins og reyndar hv. 13. þm. Reykv. hefur margsýnt fram á.

Í fjórða lagi ætlaði ég að nefna frelsið. Ég ætla að víkja fyrst að 31. gr. frv. sem takmarkar frelsið. Þar er farið yfir viðbótarlánin. Ég ætla að lesa upp úr greinargerðinni því að það er enn þá skýrara, með leyfi forseta:

,,Greiðsla viðbótarláns er síðan skilyrt því að húsnæðisnefnd greiði framlag sitt í varasjóð.``

Þegar um það er að ræða að sveitarstjórn greiðir ekki framlag sitt í varasjóð þá er það í raun svo að fólk á ekki rétt á þessum viðbótarlánum. Þau eru skilyrt. Þetta er frelsið.

Það er því rangt sem hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson segir og það er rangt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir, að um það sé að ræða að menn geti valið sér íbúð hvar sem er og notað til þess þetta viðbótarlán. Það er rangt. Það er blekking og ég skora á hæstv. félmrh. að svara því hvort þetta er ekki nákvæmlega rétt skilið hjá mér eins og ég hef hér rakið það.

Hitt sem mér sýnist að takmarki frelsið líka eru ákvæði frv. um að ef mjög margar íbúðir koma til innlausnar og fleiri en sveitarfélagið með góðu móti ræður við þá geti það vísað þeim sem sækir um viðbótarlán á íbúð sem sveitarfélagið svo að segja situr uppi með vegna þess að það er verið að innleysa svo margar íbúðir.

Reykvíkingarnir sem hafa hlustað á ræður hæstv. félmrh. að undanförnu hafa margir upplifað þetta þannig, m.a. einn sem hafði samband við mig og sagði: ,,Já, nú er það þannig að nú get ég flutt úr íbúðinni í Bláhömrunum og farið í íbúð í Stórholtinu. Nú get ég valið um.``

Veruleikinn er ekki svona. Veruleikinn er sá að vegna þess að verulegt flóð verður af innlausnarbeiðnum til að byrja með þá verður fólki áfram auðvitað vísað á verkamannabústaðakerfið eins og það hefur verið. Þarna er heldur ekki frelsi. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum, herra forseti: Tilraunir félmrh. og skósveina hans til að láta líta þannig út að hér sé um að ræða frelsi, það er blekking. Það stenst ekki af því að það ,,frelsi`` er skilyrt með þessum tveimur þáttum og fleirum.

Í fimmta lagi varðandi almennar athugasemdir mínar, herra forseti, ætla ég aðeins að víkja að varasjóðnum. Í 45. gr. er gert ráð fyrir að myndaður verði varasjóður sem hafi það hlutverk að bæta tjón sem Íbúðalánasjóður verður fyrir vegna útlánatapa á viðbótarlánum og vegna kostnaðar við uppboðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hver á varasjóðinn? Af hverju spyr ég að því? Ég spyr að því vegna þess að gert er ráð fyrir að þessi varasjóður eignist tryggingarsjóð sem hefur starfað til þess að svara ákveðnum vanda sem húsnæðiskerfið gæti lent í. Af hverju er ég að nefna þetta? Er þetta stórmál? Menn geta sagt sem svo að þetta sé ekki stórmál en ég segi: Þetta er dæmi um fljótfærnislegan frágang á frv. vegna þess að ekki eru tekin af öll tvímæli um hvernig með þetta mál skuli farið.

Með tilliti til þess að tíminn er því miður stuttur þá ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þetta en víkja í sjötta lagi að hinu mikla valdi ráðherrans. Það er alveg ótrúlegt. Hafa hv. þm. gert sér grein fyrir því hvílíkt vald er sett í hendur ráðherrans? Gert er ráð fyrir því að hann geti skipað stjórn Íbúðalánasjóðsins, fimm aðalmenn og fimm varamenn. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að hann skipi einn og eigin hendi líka undirbúningsnefndina, þrjá menn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að hann skipi einn og eigin hendi matsnefndina, þriggja manna. Og í fjórða og síðasta lagi er gert ráð fyrir því að hann skipi líka eigin hendi og án tilnefninga stjórn varasjóðsins. Hann er því þarna allt í kringum borðið. Ég geri ráð fyrir því að hann muni reyna að svara þessu þannig að þetta sé sniðið eftir bankafrv., ég ímynda mér það. Og þá verð ég að segja alveg eins og er að það er enn ein staðfestingin á því að allt félagslegt er rifið út úr þessu kerfi vegna þess að ef þetta er sniðið eftir einkabankafrumvörpunum þá eru menn hér með tillögu um að stofna einkabanka. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann gengur svona langt í því að þjappa valdi saman á eigin hendi? Ég gæti reyndar nefnt fleiri dæmi um þetta í frv., þar sem reglugerðarvaldið er ótrúlega víðtækt. Það gæti ég sýnt fram á ef ég hefði til þess almennilegan tíma.

Ég vil í sjöunda lagi varðandi almenn atriði víkja að því sem lýtur að verkalýðshreyfingunni á nýjan leik. Sérstaklega að því að hún er tekin út úr húsnæðisnefndunum. Sveitarstjórn skipar húsnæðisnefnd að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Nefndina skipa þrír til fimm menn og jafnmargir til vara. Formaður skal kjörinn af sveitarstjórn en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum.

Hér er um ákaflega merkilegt atriði að ræða. Kannski er það ekkert nýtt að Framsfl. hefur aldrei sýnt verkalýðshreyfingunni neina sérstaka tillitssemi. Það hefur auðvitað oft komið honum í koll eins og t.d. vorið 1978. Það þurfa því engir að vera hissa á því að verið er að henda verkalýðshreyfingunni út eins og hér er gert ráð fyrir. En uppsetningin á málinu er auk þess ákaflega sérkennileg. Hér er gert ráð fyrir því að nefndina skipi þrír til fimm menn. Ef um er að ræða þrjá menn þá er líka gert ráð fyrir því að formaðurinn verði kjörinn af sveitarstjórn en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Ég vil því gjarnan bera fram þessa spurningu til hæstv. ráðherra: Sér hann það þannig fyrir sér að sveitarstjórnin kjósi í fyrsta lagi einn mann formann en í öðru lagi tvo menn í viðkomandi nefnd? Vald meiri hluta er því alveg óvenjulega mikið eins og það er sett fram hér í 13. gr.

Ég ætla að fjalla næst um 19. gr. og 30. gr., til að flýta fyrir. Í 19. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Skipta má fasteignaveðbréfi og húsbréfum fyrir fjárhæð sem nemur allt að 70% af matsverði íbúðar, ef umsækjandi er að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð, en annars allt að 65% af matsverði íbúðar. Taka ber tillit til áhvílandi veðskulda þannig að fasteignaveðbréfið sé innan þessara marka. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið hámarksfjárhæð fasteignaveðbréfa sem húsbréfadeild kaupir vegna hverrar fasteignar.``

Hvað þýðir ,,vegna hverrar fasteignar``? Hvað þýðir það, herra forseti og hæstv. ráðherra? Hvernig er þessi takmörkun sem þarna er gert ráð fyrir?

Ég spyr líka um 30. gr. frv. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra getur sett frekari fyrirmæli í reglugerð um fyrirkomulag og tilhögun húsbréfaviðskipta, þar á meðal um skyldur fasteignasala til þess að veita upplýsingar um gengi húsbréfa.``

Ég spyr: Hversu langt getur hæstv. ráðherra gengið í setningu þessarar reglugerðar um tiltölulega viðkvæma pappíra sem eru á markaði á hverjum tíma? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá upplýsingar um það vegna þess að reglugerðarvald sem hæstv. ráðherra fær samkvæmt frv. er óvenjulega víðtækt.

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þingmenn hafi lesið fskj. II á bls. 92 í frv., en þar er yfirlit yfir þau lög sem munu halda gildi sínu áfram þrátt fyrir ákvæði þessa frv. Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju er þetta ekki sýnt hér í einni samfellu? Það er mjög óvenjulegt fúsk í uppsetningu mála sem fram kemur á bls. 92 og áfram í þessu frv.

Ég vil að síðustu að því er varðar almennar athugasemdir mínar, herra forseti, spyrja: Hvað þýðir yfirlýsing hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, í frv. á bls 101? Hvað þýðir hún? Hvað þýðir þessi yfirlýsing, herra forseti og hæstv. ráðherra, sem þar er á ferðinni? Ég spyr af því að ég þykist muna það sæmilega vel að þessi yfirlýsing er algjörlega einstök. Í öllum frv. eru kostnaðaráætlanir fjmrn. hafðar með. Þetta er ekki þannig. Þessi yfirlýsing er svo ótrúlega að hún á skilið að verða lesin. Hún er ekki löng. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Yfirlýsing fjármálaráðherra um samráð við félagsmálaráðherra um ákvarðanir er snerta vaxtabætur og fjárhæð þeirra.

Frumvarp til laga um húsnæðismál gerir ráð fyrir að horfið verði frá félagslegri fjárhagsaðstoð vegna íbúðarhúsnæðis í formi lána með niðurgreiddum vöxtum. Þess í stað verði farvegur fjárhagsaðstoðarinnar húsaleigubætur, sbr. ný lög frá því í desember sl., og vaxtabætur skattkerfisins, sbr. fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga.

Um leið og félagsleg fjárhagsaðstoð hins opinbera verður markvissari en áður er mikilvægt að tryggja að fyllsta samræmis verði gætt við allar ákvarðanir sem lúta að vaxtabótum og annarri húsnæðisaðstoð. Hlutaðeigandi ráðuneyti munu því verða að hafa náið samstarf`` --- sín á milli --- ,,um mögulegar breytingar á aðstoðinni í framtíðinni og fjármálaráðherra fullt samráð við félagsmálaráðherra um meðferð og ákvörðun vaxtabóta.``

Undir þetta skrifa Friðrik Sophusson og ráðuneytisstjórinn í fjmrn., Magnús Pétursson.

[18:30]

Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hvað þessi yfirlýsing þýði. Er þetta ekki beint vantraust á félmrh. af hendi fjmrn.? Væri ekki eðlilegt að draga þá ályktun af þessu skjali að fjmrn. treysti ekki félmrn. til að fara með þessi mál og þurfi að lýsa því yfir í frv. sem hæstv. félmrh. flytur að honum sé ekki treystandi. Það er nauðsynlegt, herra forseti, að skýra þetta og reyndar einnig að þessi umræða haldi ekki áfram án þess að fjmrh. leggi sitt til hennar. Hér er auðvitað um býsna mikil tíðindi að ræða þegar félmrh. telur sig nauðbeygðan til að taka inn sérstakan stimpil frá fjmrn. eins og ráð er fyrir gert í frv. Ég held því að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, áður en lengra er haldið, að hæstv. félmrh. svari skýrt spurningunni: Hvað á þetta að þýða? Af hverju er fjmrh. að lítillækka félmrh. með því að heimta að setja inn ákvæði af þessu tagi? Það er alveg óhjákvæmilegt að fá svör við því.

Síðan vildi ég, herra forseti, víkja aftur að 31. gr. frv. og benda á að tekjuviðmiðanir, eins og t.d. hafa verið í verkamannabústaðalögunum, hafa verið tiltölulega skýrar í lögunum. Menn geta sagt sem svo að það hafi verið vitlaust, flókið og erfitt. Það fyrirkomulag var auðvitað barn síns tíma og óhjákvæmilegt að hafa það eins og það var. Hér er gert ráð fyrir því að félmrh. setji reglugerð um öll skilyrðin. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig verður reglugerðin? Er hann tilbúinn til að sýna reglugerðardrög um 31. gr., en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Að fengnum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga setur ráðherra nánari fyrirmæli í reglugerð um skilyrði lánveitinga skv. 1. mgr. Við veitingu viðbótarlána skal höfð hliðsjón af fjölskyldustærð, eignum, tekjum, íbúðarstærð og gerð húsnæðis.``

Ráðherrann getur sem sagt einn ákveðið þessar viðmiðanir, þ.e. eignir, tekjur, fjölskyldustærð, íbúðastærð og gerð húsnæðis. Er þetta ekki óvenjulegt, herra forseti? Hefur það ekki verið þannig að um þetta hafi verið einhver lagafyrirmæli? Þannig var það a.m.k. þann tíma sem ég kunni þessi húsnæðislög nokkuð vel. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann sýna félmn. drög að reglugerðum um þetta frumvarp? Hér er auðvitað gert ráð fyrir þvílíku reglugerðarvaldi að það er engu lagi líkt. Það er skýrt aðeins nánar í greinargerð með 31. gr. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tekið er fram að við setningu slíkrar reglugerðar skuli höfð hliðsjón af fjölskyldustærð, eignum, tekjum og íbúðarstærð.`` Í raun og veru er þetta algerlega opið fyrir ráðherrann. Hann getur sett reglugerð og haft í henni hvaða viðmiðanir sem er, varðandi tekjur og eignastöðu þeirra heimila sem hér væri um að ræða og óskuðu eftir þessum svokölluðum viðbótarlánum. Það eru svo sem ekki mikil tíðindi vegna þess að þau eru þrengd svo mikið og lækkuð frá því sem menn hafa þó getað fengið í hinu félagslega íbúðakerfi.

Ég vil, herra forseti, nota þetta tækifæri til að mótmæla róginum um félagslega íbúðakerfið sem hér hefur verið í gangi. Það er óþolandi rógur. Menn hafa verið að halda hér endalausar ræður um að þetta sé flottræfilsháttur, dýrar íbúðir og svo flókið og mikið vesen að komast út úr þessu, allt sé niðurreiknað með frádráttum og fyrningarprósentum og guð veit hvað. Ráðherrann sjálfur segir helst aldrei annað en einmitt þetta um kerfið. Ég get alveg sagt það hér úr þessum ræðustól, herra forseti, þó að mér sé málið pínulítið skylt. Ég veit um fjölda fólks á Íslandi sem hefur átt ágætt líf í félagslegum íbúðum. Fjölmargir hafa átt betra líf í félagslegum íbúðum um áratuga skeið en þeir hefðu annars átt kost á. Ég veit að margir verða sviptir þeim möguleika, þeirri vonarglætu sem þrátt fyrir allt hefur verið til í hinu félagslega íbúðakerfi miðað við þær breytingar sem hér eru gerðar tillögur um.

Að lokum, herra forseti, skora ég á forsætisnefnd Alþingis að hafa samlestur á 51. gr. frv. og einkum greinargerðinni með því, bls. 70. Hæstv. forseti Alþingis gæti lesið greinina fyrir og hinir hlýtt á því að þar eru rakin ein 20--30 atriði sem á að setja reglugerðir um og hæstv. ráðherra getur haft eins og honum sýnist samkvæmt þeim texta sem þar liggur fyrir. Ég spyr löggjafarvaldið, forsetann og forsætisnefndina: Finnst mönnum svona vinnubrögð til fyrirmyndar? Hv. þm. Páli Péturssyni hefði ekki þótt það til fyrirmyndar áður en hann spilltist þarna uppi í Stjórnarráði.