Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:36:07 (4494)

1998-03-09 18:36:07# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að svara nema fáu af þeim mörgu spurningum sem hv. þm. beindi til mín. Varðandi yfirlýsingu fjmrh. sem hann vitnaði til, þá er hún trygging fyrir mig sem félmrh. og félmrh. framtíðarinnar um að fjmrh. hafi við þá samráð um breytingu vaxtabóta. Tekjuskattslögin heyra undir fjmrh. eins og hv. þingmönnum er náttúrlega kunnugt. Þetta er trygging fyrir því að fjármálaráðherrar fari ekki í framtíðinni að krukka í vaxtabæturnar nema í fullu samráði við félmrh. Þessi yfirlýsing er sett þarna að beiðni minni vegna þess að vaxtabæturnar eru ákvarðaðar í öðrum lögum sem ekki heyra undir félmrh.

Sveitarfélögin eiga varasjóðinn. Þau hafa lagt stofnfé til Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla sem rennur í varasjóðinn. Félagsaðstoðin er færð í vaxtabætur í hinu nýja kerfi. Sveitarfélögin er aldeilis ekki laus við skyldur í því kerfi. Þau eru ekki fríuð með þessari lagabreytingu. Þau eiga að leggja 5% af verði hverrar íbúðar í varasjóð og fá aukna skyldu til að uppfylla leiguíbúðaþörfina.

Varðandi stöðu félagslega eignaríbúðakerfisins, samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnum á minnisblaði, dagsettu í desember 1997, hafði ekki tekist að selja 450 félagslegar eignar\-íbúðir. Alls voru 333 félagslegar eignaríbúðir í leigu í desember sl. en 117 stóðu auðar. Þar af hefur 51 verið auð í 2--6 mánuði, 36 íbúðir í 6--12 mánuði og 30 íbúðir höfðu staðið auðar lengur en eitt ár.