Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:38:36 (4495)

1998-03-09 18:38:36# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:38]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru alveg ótrúleg tíðindi sem ráðherrann flytur um að 51 íbúð hafi staðið auð. Það er ekkert annað. Af hve mörgum? Vill ráðherrann upplýsa það? Hve mörg prósent? Hve mörg prómill? (Gripið fram í.) Þetta er bara áframhaldandi rógsverksmiðja um félagslega íbúðakerfið sem sjálfvirkt er sett á fullt um leið og hæstv. ráðherra reynir að svara hv. þingmönnum. Auðvitað er honum, miðað við sinn pólitíska bakgrunn, nokkur vorkunn að framkvæma pólitíska stefnu Sjálfstfl. í þessum málum. Hann þarf að grípa til óyndisúrræða, liggur mér við að segja, við að reyna að verja frv. með því að rægja núverandi kerfi.

Síðan bítur hann auðvitað höfuðið af skömminni með því að halda því fram að þessi gæðastimpill fjmrn. sé settur að hans beiðni. Það er nýtt ef menn eru þannig á sig komnir í félmrn. að þeir biðji um vöndinn úr fjmrn. Auðvitað er bersýnilegt að fjmrn. stendur á bak við þetta. En að menn biðji um að verða rassskelltir af fjmrn. er alger nýjung í sögu félmrn., það fullyrði ég.