Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:48:34 (4501)

1998-03-09 18:48:34# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér kemur verulega á óvart yfirlýsing forseta úr ræðustól þar sem forseti segir að halda skuli áfram fundi til klukkan hálfátta og síðan að hefja fund að nýju klukkan hálfníu. Ég vil minna á að það komu fram óskir fyrir þremur klst. síðan um að fjmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og óskað var eftir því að fundi yrði frestað. Forseti sem þá var í forsetastóli sagði að hann mundi beita sér fyrir því að haldinn yrði fundur fyrir kvöldmatarhlé til þess að ræða óskir stjórnarandstöðunnar. Ég minni á að það liggja bæði fyrir óskir um að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur umræðuna og óskir stjórnarandstöðunnar um að fundinum verði ekki haldið áfram í kvöld. Engu að síður lýsir hæstv. forseti því yfir úr ræðustól, án þess að fundur hafi verið haldinn með forsetum til þess að fjalla um óskir stjórnarandstöðunnar, m.a. um að hafa ekki fund í kvöld og að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur, að það verði haldinn fundur klukkan hálfníu og það án þess að fundur með forsetunum hafi verið haldinn. Ég vil líka minna á að ef það er meiningin og það verður niðurstaðan að halda okkur hér á fundi langt inn í nóttina, þá er það sanngjörn krafa af okkar hálfu, sem sitjum alla þessa umræðu og höfum verið að síðan snemma í morgun, að forseti fresti nú fundi þar til fundur forseta hefur verið haldinn, þannig að við fáum a.m.k. eins og hálfs tíma matarhlé til að búa okkur undir langar umræður sem standa inn í nóttina, ef það verður ekki orðið við óskum stjórnarandstöðunnar um að það verði ekki kvöldfundur og ég tala nú ekki um óskir stjórnarandstöðunnar um að umræðunum verði ekki haldið áfram nema hæstv. fjmrh. sé viðstaddur.