Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:51:34 (4503)

1998-03-09 18:51:34# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:51]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta að hann kanni það hvort ekki sé skynsamlegt í nafni góðrar samvinnu að fresta þessum fundi núna til klukkan hálfníu. Ég held að það væri skynsamlegast að gera það. Ég held að það detti ekki gullhringirnir af ríkisstjórninni þó að það gerist að við hinkrum fram yfir kvöldmatinn og tökum okkur tíma til að ræða saman því að ég vek athygli á því að þetta er fyrsti þingdagurinn í vetur þar sem ekkert samkomulag er um þinghaldið. Það hefur verið samkomulag um þinghaldið í allan vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem það gerist að ekkert samkomulag sé um þinghaldið.

Það er ekkert skynsamlegt að hafa það þannig og ég segi það vegna þess að ég veit að það er hægt að ná samkomulagi um hlutina ef lögð er vinna í það. En hæstv. forseti Alþingis hefur kannað það og það hefur reynst erfitt, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin vill knýja fram sín mál en ég held að það væri skynsamlegt að menn reyndu að þróa samkomulagsniðurstöðu í þessum málum frekar en að vera að nudda þessu áfram með þurrafrekju fram eftir kvöldi algjörlega að óþörfu.