Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 13:33:10 (4511)

1998-03-10 13:33:10# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[13:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér erum við á þriðja degi að ræða frv. félmrh. um húsnæðismál. Þessi umræða hefur verið athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Fádæma máttlaus málsvörn félmrh. hefur vakið athygli mína og fleiri þar sem honum hefur í engu tekist að hrekja gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þetta frv.

Sérstaka athygli hefur vakið innan húss og utan hið sérstaka fóstbræðralag hv. þm. Péturs Blöndals og félmrh. en eins og allir vita er Pétur Blöndal helsti markaðsvæðingar- og frjálshyggjupostuli þingsins. Brosið hefur ekki horfið af honum í þrjá daga eins og menn sjá hér enn. ,,Sólin skín, sólin skín``, segir þingmaðurinn. (Gripið fram í.) Það er sennilega frjálshyggjusólin, a.m.k. er mikil gleði í herbúðum íhaldsins.

Það hefur líka vakið athygli að framsóknarmenn læðast alltaf út úr þingsölunum, herra forseti, þegar við erum að ræða þetta frv. og hafa lítið skipt sér af þessari umræðu. Það sem vekur sérstaka athygli mína er að Guðni Ágústsson sem ég hélt að væri einn eftir í Framsfl. með einhverja félagslega hugsun, læðist nú með veggjum í þinghúsinu, sést varla í þingsalnum og felur sig eins og hræddur hvolpur í þinghúsinu. Það hefði verið fróðlegt, herra forseti, að hafa hann hér við þessa umræðu og ég leita eftir því hvort það sé ekki hægt að fá hv. þingmenn einhvers staðar úr skúmaskotunum og felum í húsinu til að vera viðstaddir þessa umræðu.

Það sem einnig hefur vakið athygli er samstaða stjórnarandstöðunnar í gagnrýni á þetta frv. Ég held að full ástæða sé til að fara frekar ofan í nokkur atriði sem hér hafa verið rædd og vil ég byrja á því að fara yfir þann þátt þessa frv. sem félmrh. beitir á fólk úti í þjóðfélaginu sem helsta aðdráttaraflinu við þetta frv. og það er að fólkið geti núna farið að velja sér íbúðir þar sem því sýnist. Auðvitað vitum við það sem höfum skoðað þetta mál vel, og ég vænti þess að félmrh. hafi líka gert það, að því eru settar mjög strangar skorður hvernig fólk getur valið sér íbúðir ef frv. þetta verður að lögum.

Við höfum tiltekið nokkur atriði, herra forseti. Enginn veit hvað þessi viðbótarlán verða mörg sem gefa rétt til þess að velja íbúðir á almenna markaðnum. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa gert sér einhverja grein fyrir því hvað hér verður um mörg viðbótarlán að ræða og ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Síðan hefur komið fram að ef sveitarfélög greiða ekki 5% framlög í varasjóð þá fá íbúar þess sveitarfélags engin viðbótarlán og ekkert val þá um félagslegar íbúðir á almennum markaði. Einnig geta sveitarfélög vísað fólki á innlausnaríbúðir sem sveitarfélögin hafa hjá sér sem þýðir það að ef einhver kemur til sveitarfélagsins og vill fá að velja sér íbúð á markaðnum og sveitarfélagið er með innlausnaríbúð hjá sér, þá getur sveitarfélagið sagt: ,,Já, þú getur fengið viðbótarlánið en þú verður að taka þessa íbúð sem við erum með.`` Þetta er allt frelsið, herra forseti. Þetta er allt valfrelsið sem verið er að bjóða. Þetta er valið sem Pétur Blöndal hf. --- hf. ætlaði ég ekki að segja en það lá á vörunum --- er að tala um fyrir fólkið í landinu. Það er auðvitað verið að taka hér upp skömmtunarkerfi nema um sé þá að ræða verulegan fjölda af viðbótarlánum. Og hvernig verður eftirlitinu háttað? Þegar þeir sem ætla að sækja um þessi viðbótarlán og fá að velja sér íbúð fara af stað og leita sér að íbúðum og sjá íbúðir sem þeir gjarnan hafa augastað á, þá sé ég ekki annað en að eitthvert eftirlit þurfi að vera með því hvernig íbúðir fólk er að kaupa, hver gæðin séu, hvernig íbúðunum er haldið við og slíkt. Það er því ekki allt sem sýnist í þessu máli og mér finnst, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé að beita nokkrum blekkingum til að fá fólk til liðs við þetta nýja kerfi. Það er verið að plata fólk, finnst mér, nema allur sannleikurinn sé sagður í þessu máli.

Við getum líka rætt um forkaupsréttinn og forkaupsréttarákvæðin sem núna eru við lýði og nokkuð á að breyta. Sveitarfélag getur stytt forkaupsréttartímann hvenær sem er og sveitarfélögin geta hafnað forkaupsrétti. Þau geta það að vísu í núverandi kerfi, en í núverandi kerfi var það þó innbyggt að ef sveitarfélögin höfnuðu forkaupsrétti á íbúð þá fengu þau ekki ný lán hjá Húsnæðisstofnun fyrr en að þremur árum liðnum. Sá ventill er farinn. Nú gætu sveitarfélög úti á landsbyggðinni, þar sem markaðsverð er lágt en áhvílandi lán eru hærri, ákveðið það að hafna forkaupsréttinum á þessum íbúðum. Og hvað þýðir það? Það þýðir að fólk á þessum stöðum þar sem byggt hefur verið umfram þörf eins og hjá sumum sveitarfélögum, situr uppi með íbúðir með háum áhvílandi lánum en á lágu markaðsverði og hefur enga stöðu til að losa sig við þær.

Ég spyr varðandi sveitarfélögin: Ef þessi gulrót virkar nú og fólk sjái ekki í gegnum þessa blekkingu, þá getur vel verið að margir af þeim sem eru í félagslegum íbúðum nú sem kaupskylda hvílir á, vilji fara að velja sér íbúð á almennum markaði. Þeir fara því kannski í hópum til sveitarfélaganna og óska eftir því að sveitarfélögin standi við sína kaupskyldu og kaupi þessar íbúðir. Getur þá ekki orðið um holskeflu íbúða í núverandi kerfi að ræða sem sveitarfélögunum ber skylda að leysa til sín?

Hér er talað um að þetta kerfi sé byrði á sveitarfélögunum. Mér finnst það mjög sérstakt þegar menn eru að halda því fram að félagslega kerfið sé byrði. Maður heyrir aldrei talað um að önnur verkefni sveitarfélaga séu byrði á þeim, svo sem gatnagerð, holræsi eða hvað það nú er. Það er aldrei talað um það. En þegar kemur að félagslegri aðstoð við fólk, þá er talað um byrði. Ég spyr ráðherrann: Hefur hann hugsað út í það hvað það þýði ef fólk hleypur eftir þessari gulrót ráðherrans sem ég segi að sé sett fram með miklum blekkingum, reynir að losa sig við þessar íbúðir og óskar eftir að sveitarfélögin kaupi þær sem þeim ber að gera? Hvað þýðir það þá? Hvað þýðir það varðandi þessa svokölluðu byrði á sveitarfélögunum? (Gripið fram í.) Hv. þm. segir að fólk geti valið sér íbúðir á markaði. Hv. þm. hefur bara ekkert sýnt fram á það. Hefur hv. þm. skoðað allar þær skorður sem settar eru við því að fólk geti keypt íbúð á almennum markaði? Gerir hv. þm. sér grein fyrir því hvað verður um mörg viðbótarlán að ræða? Nei, ég held ekki. Fólkið sem ekki kemst inn í þetta nýja kerfi, ekki inn í húsbréfakerfið, ekki inn í leiguíbúðirnar vegna þess að ráðherrann ætlar sér að koma 1.200 fjölskyldum á tveimur árum inn í 50 íbúðir, er bara komið á almennan leigumarkað. Og er ekki leiga á íbúðum þar kannski 40 þús. kr. á mánuði sem er miklu meiri greiðslubyrði en er nú í félagslega kerfinu?

Ég vil líka fara inn á greiðslubyrðina. Við höfum sýnt fram á það aftur og aftur, hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum, að hæstv. ráðherra lítur fram hjá þessum nýja kostnaði sem fólk er að taka á sig. Ég skora á ráðherrann að leggja fyrir félmn. útreikning og samanburð á kostnaði fólks í nýja kerfinu við að fá íbúðina og á kostnaði fólks í núverandi kerfi. Við höfum sýnt fram á það með dæmum að beinn kostnaður sem fólk þarf að byrja á að borga þegar það flytur í þessar íbúðir getur verið tvöfalt eða þrefalt meiri en nú er, sérstaklega vegna stimpilgjalds að hluta til og hærra lántökugjalds. Og við höfum sýnt fram á það, t.d. að því er varðar einstætt foreldri með tvö börn, að fólk borgar núna 70 þús. kr. en þarf að borga 170, þ.e. 100 þús. kr. meira aðeins fyrir að komast inn í íbúðina. Síðan falla niður þessi 3,5%, óafturkræf framlög, sem sveitarfélögin hafa látið til lækkunar á íbúðaverði og fólkið tekur það sjálft á sig. Það er aukin greiðslubyrði. Síðan hefur ráðherra sjálfur sýnt fram á það í þeim fátæklegu dæmum sem hann sýnir í þessari bók sinni að greiðslubyrðin á síðari hluta lánstímans hækkar verulega. Hún getur hækkað um 100 eða 150 þús. kr. síðari hluta lánstímans. Það er því ýmislegt að skoða og er þá ótalið að það liggur fyrir að verð á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu er 10% lægra nú á félagslegum íbúðum en á almennum markaði. Verður fólk þá að fara að taka það á sig sjálft þegar það kaupir þessar nýju íbúðir? Menn verða að hafa alla heildarmyndina af þessu þegar verið er að skoða hvað þetta þýðir varðandi greiðslubyrði, aukin útgjöld og viðbótarkostnað fyrir láglaunafólk. Það er auðvitað blekking að sýna bara fram á greiðslubyrðina af lánunum vegna þess að hún segir ekki alla söguna.

Herra forseti. Ráðherrann sagði í gær að fráleitt væri að halda því fram að einhver mismunur væri á greiðslumatinu í félagslega kerfinu og í húsbréfakerfinu. Ég trúði varla mínum eigin eyrum vegna þess að auðvitað er þar mismunur, þ.e. 28% af tekjum í félagslega kerfinu en 18% af tekjum í húsbréfakerfinu og þetta er meginástæðan fyrir því að stór hluti fólks getur ekki fengið inni í þessu kerfi. Ráðherrann vísar í það að um sé að ræða 25 ára endurgreiðslutíma í húsbréfakerfinu en 40 ára endurgreiðslutíma í þessu nýja kerfi og að það eigi að tryggja að það fólk sem er núna inni í kerfinu verði ekki verr sett og hafi aðgang að þessu kerfi. Það er auðvitað fráleitt að halda því fram. Miðað við 1 millj. kr. í húsbréf er greiðslubyrðin 6 þús. kr. á mánuði miðað við 25 ára bréf, en miðað við 40 ára bréf er hún 5 þús. af hverri milljón. Af hverju hafa þá ekki allir hlaupið á þessi 40 ár bréf í húsbréfakerfinu sem hafa verið til um nokkurn tíma? Einungis 6% af heildinni hafa tekið þessi 40 ára bréf. Af hverju skyldi það vera? Vegna þess að til lengri tíma litið er þetta miklu óhagstæðara. Lítum aðeins á vaxtagreiðslurnar, herra forseti. Miðað við 3 millj. kr. fasteignabréf til 25 ára eru heildarvaxtagreiðslur allan tímann 2,3 millj. kr. En hverjar eru vaxtagreiðslurnar af 40 ára bréfi allan lánstímann? Þær eru 4 millj. kr. í staðinn fyrir 2,3 millj. af bréfum til 25 ára.

[13:45]

Þetta á fólk að taka á sig, tvöfalt meiri vaxtagreiðslur miðað við 40 ára lán sem einungis léttir greiðslubyrðina um 1.000 kr. á mánuði Ráðherrann hirðir það aftur í kostnað. Sé það borið saman mætti segja að verið sé að hrifsa meira af fólki en það fékk í kjarabætur í síðustu samningum.

Hæstv. ráðherra verður, herra forseti, að átta sig á muninum á greiðslumatinu í húsbréfakerfinu og félagslega kerfinu. Meðan hæstv. ráðherra áttar sig ekki á því, skil ég vel að hann haldi það að engum verði úthýst úr þessu kerfi. Um leið og hann áttar sig á staðreyndum málsins, sem hann hlýtur að gera fyrr en síðar, þá sér hann að málflutningur okkar varðandi þetta atriði er hárréttur. (Gripið fram í: Guðni Ágústsson er mættur.) Ég fagna því að sá sem ég hélt að væri einn eftir með félagslega hugsun í Framsfl. sé hér mættur í salinn og vænti þess að hann taki þátt í umræðunni. Hér er verið að stofna nýjan banka. Hv. þm. er kannski svo mikill áhugamaður um stofnun á nýjum bönkum að hann sjái ekkert athugavert við frv. og líti fram hjá því að fjölda fólks sé fleygt á götuna, láglaunafólki, en þingmaðurinn kvaðst í stjórnarandstöðu bera hag þess fólks fyrir brjósti. (GÁ: Og stend við það enn.)

Hv. þm. andmælti og gagnrýndi einnig húsbréfakerfið og nú eiga allir að fara þangað inn. Húsbréfakerfið leysir allra vanda. Ég fagna því að hv. þm. er kominn hingað eftir að hafa verið í felum í marga daga í þinghúsinu. (GÁ: Ég þakka af auðmýkt.)

Síðan spyr ég og það er mjög mikilvægt: Á að hætta niðurgreiðslu á lánum til leiguíbúða? Það er kjarnaatriði að hæstv. ráðherra svari því vegna þess að í 42. gr. er sagt:

,,Félagsmálaráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að mánaðarlegt leigugjald íbúða sem njóta láns til leiguíbúða úr Íbúðalánasjóði skuli miðast við afborganir og vexti af slíku láni og vaxtakostnað af framlagi eiganda íbúðar auk almenns rekstrarkostnaðar.``

Síðan segir, varðandi ákvæði til bráðabirgða VIII um fjárframlög sem við ræddum nokkuð um í gær:

,,Á árunum 1999 og 2000 er Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til leiguíbúða, sbr. VIII. kafla laga þessara, með niðurgreiddum vöxtum.``

Á næstu tveimur árum. Er þetta ekki vísbending um að hætta eigi niðurgreiðslu á öllum lánum til leiguíbúða? Er það vísbending um það? Auðvitað verður ráðherrann að svara því hvort þetta sé rétt. Hæstv. ráðherra verður að svara því hvor fer með fleipur, fjmrh. eða hann. Í fskj. frá fjmrn. er greinilegt að einungis eigi að veita lán til 50 leiguíbúða á næstu tveimur árum. Þetta er grundvallaratriði.

Ég hygg að staðreyndin sé og ég veit það af kynnum mínum við hæstv. fjmrh. frá því ég var í ríkisstjórninni að hann var ekki mikill áhugamaður um leiguíbúðir. Hann vildi alltaf negla niður hvað veita ætti lán til margra íbúða. Núv. félmrh. hefur tekist að koma þessu niður í 50 íbúðir á næstu tveimur árum þó að það sé verið að setja um 1.200 manns á götuna. Hvor fer með rétt mál? Það á greinilega að hætta niðurgreiðslum á lánum til leiguíbúða. Þá er staðan enn alvarlegri, herra forseti, en við höfum verið að tala um á undanförnum tveimur dögum. Það verður ekki síst alvarlegt fyrir ýmis félagasamtök sem stutt hafa verulega við bakið á láglaunafólki með uppbyggingu á leiguíbúðum. Það mun koma mjög hart við samtök aldraðra, fatlaðra, Búseta, sem við ræðum um hér á eftir og námsmenn.

Ráðherra ætlar sjálfur að ákveða hvernig leigugjaldið á þessu verður eins og ég las hér áðan. Ef sveitarfélögin þurfa ekki að fara alveg upp í kostnaðarleigu en vilja bara fara upp í reiknaða leigu, eiga þau þá að gera það? Leigugjald íbúa sem njóta láns til leiguíbúða úr Íbúðalánasjóði skulu miðast við afborganir og vexti af slíku láni og vaxtakostnaðarframlagi eiganda. Það getur vel verið að sveitarfélögin vilji sjálf niðurgreiða leiguíbúðirnar. Félmrh. ætlar að koma í veg fyrir það með því að setja reglugerð um að þetta skuli miðast við kostnaðarleigu. Hvað segja sveitarfélögin um þetta?

Nú er heimilt að stofna hlutafélög um leiguíbúðir. Ég spyr hvort það sé sett fram hérna vegna þess að skorið hefur verið úr um að óheimilt sé að fela félagslegum íbúðum rekstur félagslegra leiguíbúða? Gildandi lög veita ekki heimild til þess að Félagsbústöðum hf. sé falin umsjón og rekstur félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar, samkvæmt lögfræðiáliti sem liggur hér fyrir og ég hef ekki tíma til að lesa nánar. Er verið að setja lagastoð undir það að sveitarfélögin geti komið upp hlutafélögum í kringum leiguíbúðir?

Hvað með íbúðir sem nú eru í kerfinu? Ef þetta liggur fyrir sem lögfræðiálit, að miðað við núverandi lög sé ekki hægt að stofna hlutafélag um leiguíbúðir, er það þá hægt með íbúðir sem fyrir eru í kerfinu? Ég spyr um það. Þetta á að fá lagastoð hér og nú. Hvað með íbúðir sem fyrir eru í kerfinu? Geta þær fallið undir hlutafélagaform Leiguíbúða hf. sem jafnvel yrði stofnað um allt land? Það er mikilvægt að fá þetta fram.

Herra forseti. Varðandi sveitarfélögin er mikilvægt að þau geri sér grein fyrir því að þetta 5% framlag þeirra í varasjóðinn er skilyrði þess að íbúarnir fái viðbótarlán. Einnig er ljóst að þetta á að standa undir niðurgreiðslu hjá þeim sveitarfélögum sem illa hafa staðið sig, þ.e. hjá þeim er mismunur á markaðsverði og áhvílandi lánum á innlausnaríbúðum. Þá virðast öll sveitarfélögin, líka þau sem hafa staðið sig vel, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og fleiri sveitarfélög, eiga að standa undir skuldum annarra sveitarfélaga. Ef þessi 5% eru ekki nóg, þá getur ráðherrann bara hækkað þau í 7 eða 10% án þess að spyrja sveitarfélögin. Hann á að spyrja Seðlabankann samkvæmt frv. hvort breyta eigi varasjóðsframlaginu. Hann á ekki að spyrja sveitarfélögin og þau hafa ekkert um það að segja.

Sumir hafi reiknað að tvo milljarða kosti að borga mismuninn á markaðsverði og áhvílandi lánum. Seðlabankinn kann þá að segja: Það eru ekki nógir peningar þú þarft að hækka þetta framlag. Þá getur ráðherrann gert það með einu pennastriki og skikkað sveitarfélög sem hafa staðið sig vel til að borga skuldir annarra sveitarfélaga. Ég held að menn þurfi að átta sig á hvað hér er að gerast.

Síðan spyr ég, herra forseti: Er hægt að ógilda þegar gerða samninga? Mér virðist að lögfræðilegt álit þurfi á því hvort hægt sé að ógilda þegar gerða samninga. Á bls. 74 er talað um íbúðir sem eru í byggingu og þegar hafa verið gerðir samningar um en ekki verið afhentar. Mér sýnist að það sé hægt að ógilda. Hið sama á við ef fólk er í kaupleigu, þ.e. í leiguíbúð, þá verði það fyrir áramótin að tilkynna hvort það ætli að kaupa íbúðina eða ekki. Þetta eru að mínu mati afturvirk ákvæði sem þörf er á lögfræðiáliti um og ég skora á félmn. leita eftir því.

Varðandi starfsfólk Húsnæðisstofnunar, kemst ráðherrann ekki hjá því að svara því hvað gera eigi varðandi öryggi starfsfólks í Húsnæðisstofnun. Það á auðvitað að tryggja það ákvæði í lögum sem getur um forgang þessa fólks til starfa. Og ég mótmæli enn og aftur þeirri aðför sem hér er gerð að láglaunafólki og því að rústa eigi félagslegt íbúðakerfi sem við höfum búið við í 70 ár, án þess að annað komi í staðinn í þágu þeirra verst settu í þjóðfélaginu.