Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:12:28 (4517)

1998-03-10 15:12:28# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér skilst að búið sé að semja um lok þessarar umræðu hér um fjögurleytið og ég skal að sjálfsögðu taka tillit til þess. Ég mun ekki spilla því að það samkomulag haldist. Ég setti mig á mælendaskrá í gær, löngu áður en þau tíðindi urðu að menn sömdu um tilhögun umræðunnar. Ég vildi koma inn á nokkur atriði og ræða við hæstv. félmrh. eða hæstv. jafnréttismálaráðherra eins og ágætt er að menn muni. Hann fer með þann málaflokk einnig innan ríkisstjórnarinnar með miklum glæsibrag eins og kunnugt er.

Herra forseti. Undir umræðunum í gær fór ég að hugleiða, ekki síst var það ræða hv. þm. Péturs Blöndals sem kom mér á það spor, hvaða mynd væri að koma á hæstv. félmrh. og Framsfl. í þessari ríkisstjórn þegar velferðarmálalöggjöf landsmanna á í hlut. Það er umhugsunarvert að þetta er þriðja grundvallarlöggjöfin á sviði velferðarmála sem hæstv. félmrh. leikur og vinnur svo sem raun ber vitni.

Þessi ferill Framsfl. og félmrh. er athyglisverður þegar hann er settur í samhengi. Það var auðvitað tímanna tákn þegar hv. þm. Pétur Blöndal kom hérna og lýsti þessu sem einum af sólskinsdögunum á sinni pólitísku ævi. Hann gladdist yfir þessu frv. þar sem draumar Sjálfstfl. væru að verða að veruleika. Hvað er það þá sem hæstv. félmrh. hefur ort? Hvert er starf hans í ríkisstjórninni orðið í þessum efnum? Jú, það byrjaði með vinnulöggjöfinni. Það byrjaði með þeim stórtíðindum að ráðherra Framsfl. beitti sér fyrir breytingum á vinnulöggjöfinni, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, í algerri andstöðu við verkalýðshreyfinguna, og rauf það samstarf sem verið hafði um áratuga skeið og þann frið sem ríkt hafði um grundvallarþættina í skipulagi þeirra mála allt frá 1938.

[15:15]

Þetta var fyrsta stóra verkefnið sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson tók sér fyrir hendur hvað varðaði grundvallarlöggjöf um velferðarmál í landinu. (VS: Hefur vinnulöggjöfin orðið til einhverra vandræða?) Svo spyr hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir að því hvort hún hafi orðið til mikilla vandræða. Það hefur nú lítið reynt á það enn sem komið er því miður. En já, ég tel það, að það litla sem er þá hafi það allt orðið heldur til bölvunar og það hafi spillt andrúmsloftinu í samskiptum þessara aðila, sem þarf að vera gott, það hafi allt heldur til vansa og óþurftar. Ég t.d. hef spurt menn að því hvort þær reglur séu mjög þjálar sem núna ríkja og sjómannasamtökin þurfa að fara eftir í sínum viðræðum. Og svarið er nei. Þeir telja að eitt af því sem setji pressu á samskipti aðila núna og hafi valdið erfiðleikum séu einmitt hinar flóknu aðferðafræðilegu þvælur sem settar voru inn í löggjöfina með viðræðuáætlunum og öllu tilheyrandi og reglur um boðun aðgerða og aflýsingu aðgerða sem eru miklu óþjálli fyrir verkalýðshreyfinguna og í raun og veru fyrir alla aðila heldur en áður var. Þær geta m.a. orðið til þess að menn aflýsi ekki verkföllum eða fresti ekki verkföllum sem þeir hefðu hugsanlega gert ella samkvæmt gamla skipulaginu þegar auðveldara var að hefja aðgerðir á nýjan leik ef svo bar undir.

Þetta var það fyrsta, herra forseti, svo aðeins sé nú farið yfir feril hæstv. félmrh. í þessum efnum og vinnubrögð hæstv. ráðherra. Það er alveg sama hvað hver segir hér, það hefur verið brotið í blað í þessum samskiptum af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Númer tvö voru atvinnuleysisbæturnar, löggjöfin um atvinnuleysistryggingar. Það kostaði verkalýðshreyfinguna harða baráttu að fá þær hér inn í löggjöf og réttinn um miðja öldina og menn kunna þá sögu einhverjir. Þar hefur hæstv. félmrh. beitt sér fyrir skemmdarverkum og stórskemmt þá löggjöf. Fyrir nú utan að framkvæmdin var þar með þvílíkum endemum að leitun er að öðru eins. Hæstv. ráðherra leyndi hér upplýsingum eða greindi ekki frá því hverjar yrðu afleiðingarnar af lagabreytingu sem hann stóð hér fyrir. Þegar það kom svo í ljós að með breyttum skilgreiningum hafði réttur þeirra sem voru atvinnulausir að hluta til verið stórkostlega skertur þá kom hæstv. ráðherra og sagðist ætla að lagfæra það með breytingum á reglugerð, en síðan var það allt í skötulíki. Þessi þáttur var með endemum og eftir stendur að hæstv. ráðherra vann þarna annað skemmdarverkið í röð á meiri háttar grundvallarlöggjöf á sviði velferðarmála.

Og nú, svo farið sé hratt yfir sögu, er hér komið að þriðja meiri háttar málinu sem er húsnæðislöggjöfin. Þar er sömuleiðis sama upp á teningnum. Hæstv. ráðherra veður í þetta eða öllu heldur setur aðstoðarmenn sína og fjmrh. í þetta. Þetta unnið í einhverjum bakherbergjum án samráðs við nokkurn mann, án samráðs við verkalýðshreyfinguna eða félagasamtök eða aðra þá sem venjan er að hafa samráð við um þessa hluti. Svo er komið með málin hér inn í þingið seint og illa þegar komið er fram undir vor og skammt er til stefnu til fyrirhugaðra þingloka og að sjálfsögðu á að lemja þetta allt í gegn. Þetta er nákvæmlega sama formúlan og þegar vinnulöggjöfin kom hér inn á svipuðum tíma og með svipuðum aðförum. Þetta eru alveg hneykslanleg vinnubrögð. Það er sama hvað hæstv. félmrh. segir, þessari sögu verður ekki snúið á haus. Þarna hefur verið hafnað því hefðbundna samstarfi og þátttöku þessara aðila, verkalýðshreyfingarinnar og félagsmálasamtaka, sem mjög löng hefð er fyrir að viðhafa í þessum málum. Menn geta svo haft það sjónarmið, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom með hér inn í umræðuna, að það væri nánast bannað og það ætti yfirleitt aldrei að hafa samráð við nokkurn aðila af því tagi. Hv. þm. hélt því fram að það væri ólýðræðislegt ef ekki bara andþingræðislegt að hlusta á verkalýðshreyfinguna, þrýstihópa eins og hv. þm. hefur stundum kallað það. Það er nærtækt að spyrja hæstv. félmrh.: Er ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra hefur hafnað öllu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og félagsmálasamtök sú að hæstv. ráðherra er sammála hv. þm. Pétri Blöndal?

Það er ekki bara þannig, herra forseti, að löng hefð sé fyrir samstarfi og samráði við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál, það er líka mjög löng hefð fyrir því á Íslandi að ýmis félagasamtök hafa verið beinir þátttakendur og gerendur í þróun húsnæðismála og sérstaklega hins félagslega hluta um áratuga skeið. Þannig hafa félagasamtök lyft grettistaki í þágu sinna félagsmanna og umbjóðenda og nægir þar að nefna félagasamtök eins og Öryrkjabandalagið, Búseta, búsetuhreyfinguna, Leigjendasamtökin og nú á síðari árum einnig Samtök aldraðra, sem hafa farið að beita sér í vaxandi mæli í þágu félagsmanna sinna og umbjóðenda. Allt samráð við öll þessi samtök er hunsað í aðdraganda þessa máls. Það er a.m.k. alveg ljóst að búsetuhreyfingin sendi frá sér skilaboð þessa dagana þar sem þeir segja ósköp einfaldlega að ekkert samband hafi verið haft við búsetuhreyfinguna um undirbúning þessa máls. Fara þeir rangt með þar eða hvað? Nei, ætli það sé nú ekki staðreynd mála að það hefur ekki verið haft samband við þessa aðila frekar en aðra. Og er það ekki dálítið umhent og öfugsnúið í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem aðilar eins og Öryrkjabandalagið og búsetuhreyfingin hafa haft í húsnæðismálum fyrir sína félagsmenn, að vinna svona að hlutunum? Hvaða tilgangi þjónar það? Hvaða skynsemi er í því? Ekki nein. Auðvitað er alveg fráleitt að vinna svona að hlutunum í ljósi þess hvernig samstarf aðila í þjóðfélaginu hefur verið um þessi mál á löngu árabili og ég mótmæli því mjög harðlega.

Einn þátt enn, herra forseti, vil ég gera að umtalsefni sem mér gafst ekki tími til að taka fyrir í fyrri ræðu minni við þessa umræðu og það er framkoman í garð starfsfólks Húsnæðisstofnunar. Þetta stjfrv. hæstv. félmrh., sem er ráðherra vinnumarkaðsmála ekki síður en jafnréttismála, brýtur í blað. Það brýtur í blað og er þá langt til jafnað hvað varðar framkomu hæstv. ríkisstjórnar í garð starfsmanna þeirra opinberu stofnana eða fyrirtækja sem verið er að breyta. Það er nöturlegt að það skuli vera hæstv. félmrh. sem leggur fram fyrsta einkavæðingarfrv. ríkisstjórnarinnar þar sem réttindi starfsfólks eru ekki nefnd á nafn. Þau eru bara alls ekkert á blaði. Menn hafa haft illan bifur á hæstv. fjmrh. eða hæstv. iðnrh. en það verður þó að segjast eins og er að þau frv. sem hafa verið að koma frá öðrum hæstv. ráðherrum, bæði í þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórn undanfarin ár, hafa þó verið skárri en þetta vegna þess að til málamynda a.m.k. hafa einhver ákvæði verið um réttindi starfsfólks. Nægir þar t.d. að nefna öll frv. um einkavæðingu bankanna og fjármálastofnananna sem eru auðvitað að mörgu leyti sambærileg við þetta, a.m.k. hvað það snertir að hér á að setja á fót fjármögnunarsjóð sem við tekur af ríkissjóðum sem áður voru og er að því leyti til ekkert óskyldur t.d. Fjárfestingarbankanum eða Lánasjóði landbúnaðarins eða einhverju slíku. Og hvernig var gengið frá málefnum starfsfólks t.d. í þeim tilvikum? Það var gengið frá því í lögunum að starfsfólkið allt, nema yfirmennirnir í tilviki bankanna, þ.e. bankastjórarnir, átti skýlausan rétt á sömu störfum í hinum breyttu stofnunum. Það var meira að segja útfært þannig að þeir sem ekki áttu kost á því að fá sömu störf í Fjárfestingarbankanum höfðu þá forgang að störfum hjá Nýsköpunarsjóðnum --- eða var það öfugt? Það var sem sagt gengið alveg þannig frá því að öll störf í hinum nýju sjóðum yrðu skipuð þeim starfsmönnum sem vildu fá störf hjá nýju aðilunum. Þetta voru ekki bara einhver heimildarákvæði eða fyrirheit. Nei, þetta var skýlaus, lögbundinn réttur starfsmannanna.

Kemur svo ekki hæstv. félmrh., ráðherra vinnumarkaðsmála sem vinnulöggjöfin heyrir undir, réttindi og skyldur starfsmanna á almennum vinnumarkaði, og jafnframt ráðherra jafnréttismála eins og kunnugt er og leggur fram frv. um að breyta Húsnæðisstofnun ríkisins í lánasjóð. Ekki er minnst einu orði á það hvað verða eigi um 60 starfsmenn stofnunarinnar. Engin ákvæði tryggja rétt þeirra. Er þetta ekki skondið? Er það ekki dálítið sérstakt að það skuli vera hæstv. félmrh. sem svona gengur fram?

Það er von að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé glaður og að nú skuli vera sólskinsdagar í lífi hans hvað það snertir að fylgjast með framgöngu hæstv. félmrh. hér og frumvörpum því auðvitað er það í anda frjálshyggjunnar að binda ekki hinum nýja og fína sjóði einhverjar klyfjar með því að hugsa um starfsfólkið, að réttindi, atvinnuöryggi og velferð þess skipti þarna einhverju máli. Nei, það er aldeilis ekki upp á teningnum.

Herra forseti. Þetta segir allt sína sögu um það hverra erinda hæstv. félmrh. Páll Pétursson gengur í þessum efnum. Það segir allt sína sögu um það, innihald þessara frv., samskiptin við aðila úti í þjóðfélaginu og undirtektir aðila og gleði frjálshyggjumannanna í Sjálfstfl. Það er þá orðið þannig, herra forseti, að kosningaloforð Framsfl. um fólk í fyrirrúmi er eiginlega orðið að því að það er stefna Sjálfstfl. sem er í fyrirrúmi. Ég óska Sjálfstfl. til hamingju og fulltrúa hans hér í þingsalnum, hv. þm. Árna Johnsen, sem getur tekið við þeim hamingjuóskum. Ég óska Sjálfstfl. til hamingju með hversu vel Sjálfstfl. tekst að láta hæstv. félmrh. Pál Pétursson plægja fyrir sig akurinn, sá í hann og uppskera líka.

Einhverjir kunna að spyrja sig að því hvort þetta endurspegli nokkuð sérstaklega aðstæður í stjórnarherbúðunum, þ.e. hvort þetta sé til marks um að Framsfl. sé svo gjörsamlega undir í öllum tilvikum að hann verði bara að taka stefnu Sjálfstfl. hvort heldur sem er í húsnæðismálum eða gagnvart réttindum og skyldum verkalýðshreyfingarinnar í vinnulöggjöfinni og taka hana hráa inn í þingið í formi frumvarpa, og hvort þetta sé þá ekki Framsfl. þvert um geð og hvort framsóknarmenn hljóti þá ekki að vera með böggum hildar yfir þessu.

En staðreyndin er sú að svo virðist ekki vera og það litla sem heyrist frá þingmönnum Framsfl. er í raun til þess að skrifa upp á þetta eins og við heyrðum hér frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur formanni þingflokksins. Þó í litlu væri var það þó til þess að skrifa upp á það að allur þingflokkur Framsfl. væri á bak við félmrh. í þessu máli, að allur þingflokkur Framsfl. styddi félmrh. í því að lögfesta húsnæðisstefnu Sjálfstfl. og fara hér í enn eina grundvallarlöggjöfina á sviði velferðarmála þar sem frjálshyggjan er gleypt hrá í formi breytinga á lögum.

Þá spyrjum við okkur í framhaldinu: En er þetta ekki fyrst og fremst til marks um það hvernig Framsfl. er orðinn og fyrir hvað hann stendur í íslenskum stjórnmálum? Svarið er auðvitað: Jú. Við skulum ekkert ætla annað en að Framsfl. meini það sem hann leggur hérna til. Og það er staðfest. Þetta er stefnan sem Framsfl. vill og hæstv. félmrh. Páll Pétursson líka.

Vangaveltur voru uppi um það þegar hæstv. félmrh. hlaut ráðherrastól sinn við myndun þessarar ríkisstjórnar hvað formanni flokksins gengi til að gera um það tillögu að hæstv. félmrh. yrði félmrh. og fengi sæti í ríkisstjórn. Og fram kom sú skemmtilega kenning að þetta væru klókindi af hálfu formanns Framsfl., hæstv. utanrrh., vegna þess að stundum hafði borið á tilburðum hæstv. félmrh. Páli Péturssyni til andófs innan þingflokks Framsfl. og hæstv. núv. félmrh. hafði stundum reynt að gera sig gildandi sem ákveðinn fulltrúa félagslegra viðhorfa og vinstra kantsins í Framsfl. Þess vegna hefðu það verið klókindi af hæstv. utanrrh. að þagga niður í allri hugsanlegri gagnrýni fyrir fram. Það hefðu verið fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart kjörtímabilinu sem í hönd fór í samstarfi með Sjálfstfl. að gera hæstv. félmrh. að félmrh., þ.e. hæstv. núv. ráðherra, Pál Pétursson.

[15:30]

Hafi þetta verið hugsun hæstv. utanrrh. hefur það heldur betur gengið upp og rúmlega það. Hæstv. félmrh. hefur brugðist svo vel við þessu að hann hefur í raun og veru gengið út í hinar öfgarnar. Hann hefur verið einna verkadrýgstur allra ráðherra Framsfl. í því að hreyfa hlutunum til hægri og eiginlega meira til marks um það en nokkuð annað, maðurinn sem stundum var gælt við að væri einhvers konar fulltrúi andófs og vinstri sjónarmiða, félagslegra sjónarmiða að svo miklu leyti sem þau fyrirfyndust enn þá í Framsfl. Ef þetta er sá fulltrúi sem stendur fyrir hlutum eins og eru hér á dagskrá þá vitum við hvað má segja um restina. Þá er þetta auðvitað til marks um það og ekkert annað, að Framsfl. er kominn svo langt til hægri í þessum efnum að Sjálfstfl. má fara að vara sig. Og auðvitað er von að helstu átrúnaðargoð og andlegir leiðtogar þingmanna á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli vera orðnir ráðherrar Framsfl. Er það ekki lýsandi fyrir þá stöðu sem er komin upp? Þetta hlýtur þá líka, herra forseti, að vita á að hjónaband Framsfl. með íhaldinu er mjög traust og er tekið undir það af hv. þm. sem eru til staðar úr röðum framsóknarmanna og það er mjög gott að þessir hlutir liggi skýrt fyrir, herra forseti, ef svo er. Að Framsfl. sé m.a. með þessu að undirstrika vilja sinn til þess að halda áfram í ríkisstjórn með Sjálfstfl. og í hjónabandi við hann og ef verkin sýna merkin hljótum við að draga þær ályktanir af þessu að þetta sé að verða mjög traust og grunnmúrað hjónaband sem þarna er á ferðinni. Ástæða er til þess, herra forseti, við lok umræðunnar að draga þessa hluti saman og hafa þá í huga því að þetta er pólitík sem er á dagskrá umfram allt annað og ástæðulaust er að týna sér um of í tæknilegum smáatriðum í umræðum um þessi mál. Það er líka nauðsynlegt að reyna að greina stóru pólitísku drættina eins og ég tel mig hafa verið að gera hér.