Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:33:08 (4518)

1998-03-10 15:33:08# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:33]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar ef ég er að taka tímann frá stjórnarandstöðunni í umræðunni en ég afþakka umhyggju hv. þm. fyrir Framsfl. sem kom fram í ræðu hans og kemur reyndar oft fram hjá hv. þm. Alþb. því þeir bera enga ábyrgð á störfum okkar og það skiptir þá eiginlega voða litlu máli að við skulum hafa aðra stefnu en þeir. Það er bara þannig. að Framsfl. er frjálslyndur miðjuflokkur og þess vegna er hann öðruvísi flokkur en Alþb. Það er alltaf þessi tilhneiging að Framsfl. eigi endilega að vera eins og Alþb. sem skín í gegnum umræður hjá hv. þm. og fleiri þingmönnum Alþb. Sú ríkisstjórn sem situr er ríkisstjórn sem lætur verkin tala, ekki ríkisstjórn stöðnunar eins og ég veit að hv. þm. stjórnarandstöðunnar áttu von á og töluðu um þegar ríkisstjórnin var mynduð. Það hefur sýnt sig í mjög mörgum gjörðum ríkisstjórnarinnar að hún hefur látið verkin tala og hefur tekið á ótal mörgum málaflokkum sem aðrar ríkisstjórnir hafa ekki treyst sér til að gera, m.a. er það sú löggjöf sem hér er meiningin að taka á og setja ný lög um húsnæðismál.

Ég afþakka þessa umhyggju, hv. þm., og ítreka að hv. þm. má hafa allt aðra skoðun á málinu en framsóknarmenn en engu að síður gæti það farið svo að málið yrði að lögum.