Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:34:48 (4519)

1998-03-10 15:34:48# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja fyrst að mér finnst óskaplegur skaði að stjórnarflokkarnir og meiri hlutinn og alveg sérstaklega Framsfl. skuli þurfa að halda aftur af sér í umræðunni. Ég held að það sé alveg ástæðulaust og þarf ekkert að líta á það þannig að tekið sé af kvóta okkar í stjórnarandstöðunni. Það er ósköp einfaldlega málfrelsi og allir geta nýtt sér þann rétt sem þeir hafa við 1. umr. mála og hér var óskað eftir tvöföldum ræðutíma þannig að það var nóg pláss og nógur tími til umræðu. Það er á misskilningi byggt hjá hv. þm. að nokkur ástæða sé til þess að Framsfl. haldi aftur af sér í umræðunni, þ.e. ef hann hefur eitthvað til umræðunnar að leggja. Hins vegar vakna þær spurningar auðvitað að ástæðan fyrir því að Framsfl. geri sig ekki mikið gildandi sé að það sé ekkert óskaplega mikið þar á ferðinni umfram það sem hæstv. félmrh. hefur séð um, þ.e. að færa fram rökin fyrir húsnæðisstefnu Sjálfstfl.

Svo kom þetta með að umhyggjan er afþökkuð og það er í rauninni ekkert að afþakka því þetta er ekki umhyggja fyrir Framsfl. sem slíkum enda ekki mitt hlutverk að hafa hana, þ.e. farið hefur fé betra. Það er ekki af þeim ástæðum sem ég fór yfir hina pólitísku stöðu eins og ég les hana út úr þessu máli heldur vegna þess að pólitíkin sem slík skiptir máli í þessum hlutum og á ekki að gleymast á bak við tæknileg smáatriði. Ég tel að frv. sanni reyndar að Framsfl. sé ekki það sem hann þykist vera, frjálslyndur miðjuflokkur. Enginn miðjuflokkur beitir sér fyrir breytingum á húsnæðislöggjöf af þessu tagi. Þetta er hægri flokkur. Hér er verið að markaðsvæða 100% öll lán til íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Þetta er hægri bylting í húsnæðismálum og varla væri ástæða til þess fyrir frjálslyndan miðjuflokk að fara að standa í slíku. Það væri varla ástæða til þess fyrir frjálslyndan miðjuflokk að fara að framkvæma breytingar í húsnæðismálum sem gera einn helsta talsmann frjálshyggjunnar á Alþingi og í landinu, Pétur H. Blöndal, svona yfir sig sælan. Er líklegt að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði verið svona glaður yfir breytingum sem menn hefðu talið vera frjálslynda miðjustefnu? Ég held ekki. Ég held því að framsóknarmenn þurfi að líta aðeins á áttavitann hjá sér.