Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:41:14 (4522)

1998-03-10 15:41:14# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Alltaf er heimilislegt þegar hinn glæsilegi og flugmælski 4. þm. Norðurl. e. er að skamma mann. (Gripið fram í: Stofuprýðin.) Einhvern veginn er það þannig eins og ég er viðkvæm sál og tek voðalega nærri mér þegar ég er skammaður af alvörumönnum að það fær ekkert á mig ef hv. 4. þm. Norðurl. e. skammar mig.

Ég þakka hv. þm. að rifja upp myndarlega löggjöf sem ég hef átt þátt í að setja og staðið fyrir á Alþingi á kjörtímabilinu. Vinnulöggjöfin er miklu betri en hún var. Það hafa verið gerðir kjarasamningar eftir vinnulöggjöfinni í fyrsta sinni og þeir eru miklu betri en hafa verið gerðir áður og farsælli fyrir þjóðfélagið. Þeir eru lengri en áður, það er veruleg hækkun lágmarkslauna, úr 43 þús. á mánuði upp í 70 þús. og það er 25% kaupmáttaraukning sem á að verða frá 1995--2000. Vinnuveitendur hefðu komið fram verkbanni eftir gömlu aðferðinni en Félagsdómur áttaði sig á því að sjálfsögðu að verkbannið var ekki löglega boðað samkvæmt þeirri löggjöf sem er í gildi í landinu. Ég tel að lög um vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysistryggingar hafi verið stórt framfaraspor og miklu betra skipulag og gefur atvinnulausum miklu meiri hjálp til að finna vinnuna.

Hann kvartaði yfir því að það væri ekki niðurfelling skulda. Það er nú aldeilis niðurfelling skulda. Við erum búnir að breyta lögunum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Nú er meira að segja hægt að fella niður höfuðstól af barnsmeðlögum í óskilum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skattar eru orðnir umsemjanlegir, aðrir en vörsluskattar, og réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga. En það var ekki erindi mitt að fara að ræða um fortíðina heldur ætla ég að reyna að svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint. Ég er reyndar búinn að svara eða koma inn á flest þau atriði sem ég hef verið spurður að í dag fyrr í máli mínu og verð því miður að vísa til þess því að ég á ekki langan ræðutíma eftir við umræðuna.

Mismunandi greiðslumat verður í félagslega kerfinu og í almenna kerfinu. Ekki er búið að útfæra það nákvæmlega, nefnd er nýbúin að skila áliti og ekki er búið að ganga frá því hvernig greiðslumatið verður í smáatriðum en ég get sagt það í stórum dráttum að í almenna kerfinu er miðað við endurgreiðslu lána á 25 árum. Í félagslega kerfinu verður miðað við endurgreiðslu á 40 árum og það hefur strax veruleg áhrif á greiðslubyrðina.

[15:45]

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvað skýrði hækkandi kostnað ríkisins í kostnaðarumsögninni. Ég held að meginskýringarnar séu tvær. Fyrirframgreiðsla vaxtabóta. Allir þeir sem taka ný lán frá 1999 fara á fyrirframgreiddar bætur og það tekur nokkurn tíma þar til allir eru komnir inn á fyrirframgreiddar bætur, og þeir sem koma nýir inn í félagslega kerfið bætast við í vaxtabótakerfinu. Eins og ég hef sagt áður hef ég ekki trú á því og tel að það séu óraunhæfar vonir að búast við því að ríkissjóður spari á þessari breytingu. Það held ég að sé ekki rétt, enda er meiningin að halda þeirri félagslegu aðstoð sem við höfum haft og rýra hana ekki.

Hv. þm. spurði um hvað væri tiltekinn hluti af innlausnaríbúðum. Þetta ákvæði var sett inn að beiðni fulltrúa sveitarfélaganna sem unnu að lokagerð frv., og þar á meðal var formaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, vegna þess að þeir töldu að það gæti komið svo mikið af innlausnaríbúðum að sveitarfélögin gætu lent gersamlega í þroti en reiknað er með að þetta séu undantekningartilvik en ekki regla að sveitarfélögin geti haft þessa smugu til að koma íbúðunum út. En ég bendi á að ef einhver er ófús að fara í félagslega íbúð eða innlausnaríbúð, ef einhver sem sættir sig ekki við það eða er ófús, þá getur hann leitað til kærunefndarinnar því að við höfum kærunefndina einmitt til að taka á svona málum til þess að einstaklingar geti leitað til kærunefndarinnar og fengið leiðréttingu sinna mála ef þeir fá ekki viðunandi meðhöndlun hjá húsnæðisnefndum eða stjórn Íbúðalánasjóðs.

Hv. þm. spurði um hvernig menn sæktu um viðbótarlán. Frá því hefur ekki verið gengið með neinum skýrum hætti. Ég geri ráð fyrir að húsnæðisnefndirnar fái nokkuð um það að segja. Mér þykir ekki ósennilegt að þær haldi svipuðu verklagi og verið hefur, þ.e. að auglýsa. Hitt getur líka vel komið til greina að þeir sem óska eftir að komast í þetta, eiga aðgang að húsnæðisnefndunum og geta gefið sig þar fram og óskað eftir þeirra atbeina, t.d. ef þeir hafa farið í greiðslumat í almenna kerfinu eða hafa verið að hugsa um að fara í greiðslumat í almenna kerfinu og sjá að þeir muni ekki standast það, þá er ekki óeðlilegt að þeir gefi sig fram við húsnæðisnefnd.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson saknaði þess mikið að 100% lán væru afnumin. Ég vil benda á að það var eitt af atriðunum í húsnæðisyfirlýsingu sambandsstjórnar ASÍ að hverfa frá 100% lánum. Þeir beinlínis lögðu til að farið yrði í 90% lán og eins og margoft hefur verið sagt höfum við byggt öllu öðru fremur á þeirri yfirlýsingu ASÍ um húsnæðismál. 100% lánin hafa því miður gefist illa. Það getur verið að þau hafi reddað einhverjum en þau hafa gefist illa. Fólk með lágar tekjur og engar eignir hefur átt erfitt með að standa í skilum ef það hefur þurft að ráðstafa kannski 28%, einu sinni var það 32% tekna til húsnæðislána. 72% af lægstu tekjum er bara of lítið. Það dugir tæpast til sómasamlegrar framfærslu eftir að 28% eru gengin til húsnæðislána. Til dæmis var þriðjungurinn af nauðungarsöluíbúðunum árið 1996 íbúðir sem voru með 100% lánum.

Ég hef verið þýfgaður um kostnaðartölur í nýju kerfi og samanburð á kostnaðartölum í nýju kerfi og gamla kerfinu. Menn hafa verið veifandi kostnaðartölum sem eru alls ekki réttar. Ég hef leitað eftir því að fá nákvæma útreikninga. Ég er ekki búinn að fá þá, því miður, en nákvæmur samanburður verður lagður fram hjá hv. félmn.

Að sjálfsögðu verður að líta svo á að um þak á húsaleigunni sé að ræða. Sveitarfélag má að sjálfsögðu niðurgreiða húsaleiguna ef það sér sér fært eða kýs. Það er einungis öryggisákvæði að hún geti ekki farið upp fyrir eitthvert ákveðið mark, einhverja ákveðna prósentu af íbúðarverðinu. Sveitarfélög geta samkvæmt þessum lögum stofnað hlutafélag um íbúðir sem þegar eru í kerfinu. Ég er búinn að svara um starfsfólkið. Ég mun beina því til stjórnar Íbúðalánasjóðs að láta þá sem vinna í Húsnæðisstofnun hafa algeran forgang við störf hjá Íbúðalánasjóði en því miður verður ekki hægt að skaffa öllum vinnu því að verið er að skera niður umfang stofnunarinnar. Þeir sem ekki fá vinnu munu að sjálfsögðu njóta réttar síns til biðlauna.