Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:55:46 (4525)

1998-03-10 15:55:46# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Bætt ytri skilyrði og almennt batnandi efnahagur Íslendinga vegna þess að afurðir okkar seljast betur og ýmis skilyrði sem hafa verið hagstæð hafa valdið því að kaupmáttur kauptaxta hefur vaxið. Það hefur ekki gerst vegna löggjafar hæstv. félmrh. Páls Péturssonar um að þrengja lýðræðisleg réttindi launafólks. Það er mikill misskilningur.

Hvað varðar atvinnulausa, þá hafa þessir bættu möguleikar, sem hann kveðst hafa smíðað með lögum sínum fyrir atvinnulausa að fá vinnu, ekki skilað sér enn þá. Atvinnuleysi hefur minnkað en það er af allt öðrum ástæðum. Það sem er jákvætt í þeirri lagasmíð --- það eru vissir þættir mjög jákvæðir þar en þeir hafa ekki skilað sér enn þá vegna þess að kerfið er enn í smíðum og reyndar í skötulíki enn sem komið er, enda var varað við því á þingi og í þjóðfélaginu almennt að farin yrði sú leið sem hæstv. ráðherra knúði í gegn.

Ég sakna þess að hæstv. ráðherra skyldi ekki gera að umtalsefni í ræðu sinni þá hugmynd sem ég varpaði fram fyrr í dag að hann sýndi í verki vilja sinn til samráðs um breytingar á löggjöf um húsnæðismál við samtök launafólks og við alla þá aðila í þjóðfélaginu sem láta sig þessi mál skipta og sýndi í verki þann vilja sinn að hann vildi raunverulegt samráð með því að draga þetta frv. til baka, efna til raunverulegs samráðs á næstu mánuðum og taka málið upp að nýju í haust.