Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:01:35 (4528)

1998-03-10 16:01:35# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Þetta er nú þýðingarlítið, herra forseti. Greiðslumat í húsbréfakerfinu er miðað við 25 ára endurgreiðslutíma, jafnt hvort menn ætla að taka 40 ára húsbréf eða 25 ára. Í nýju félagslegu kerfi verður endurgreiðslutíminn 40 ár og greiðslumat miðað við það. Reyndar er rétt að geta þess líka að vaxtabæturnar eiga að bera uppi þessa vexti í félagslega kerfinu að langmestu leyti.

Samkvæmt frv. á það síðan að vera verkefni stjórnar Íbúðalánasjóðs að gera tillögur um nýtt greiðslumat. Það liggur að vísu fyrir niðurstaða nefndar en ekki er búið að ganga frá því og endanlega er ekki hægt að ganga frá því fyrr en stjórn nýs Íbúðalánasjóðs hefur gert tillögur um nýtt greiðslumat.

Hv. þm. spurði hvort ég væri tilbúinn að taka inn í frv. ákvæði um starfsmannamál. Ég er það sannarlega ef hægt er að finna form á því sem er framkvæmanlegt og praktískt. Ég er ekki tilbúinn að taka það inn að allir starfsmenn Húsnæðisstofnunar skuli skilyrðislaust fá starf hjá Íbúðalánasjóði enda verður umfang Íbúðalánasjóðs miklu minna. Hugmyndin er að spara í rekstrinum og þessari umsýslu og það þarf ekki eins margt fólk og vinnur hjá Húsnæðisstofnun. Við ætlum að komast af með minni peninga en þennan hálfa milljarð á ári sem Húsnæðisstofnun kostar.