Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:03:45 (4529)

1998-03-10 16:03:45# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er tilbúinn að skoða það að setja í löggjöf að starfsfólk Húsnæðisstofnunar hafi þarna ákveðinn forgang. Ég nenni ekki að elta ólar við greiðslumatið. Við hæstv. ráðherra tölum þar ekki sama tungumál en a.m.k. er hætta á því að þessi neyslustaðall sem verið er að útbúa þrengi greiðslumatið enn meira.

En ég spyr um þessi tvö atriði sem ráðherra svaraði ekki. Telur hann rétt og eðlilegt að sveitarfélög sem hafa staðið sig vel eigi með 5% framlagi í varasjóð að greiða niður skuldir sveitarfélaga sem ekki hafa staðið sig vel að því er varðar uppbyggingu félagslega kerfisins? Telur hann eðlilegt að hann geti með einu pennastriki hækkað þetta varasjóðstillegg úr 5% í eitthvað hærra í samráði við Seðlabanka Íslands? Hvað meinti ráðherrann þegar hann sagði að hann mundi gera það sem hann gæti til þess að sveitarfélögin stæðu sig við uppbyggingu félagslegra íbúða, þar með talið að beita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga?