Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:18:35 (4537)

1998-03-10 17:18:35# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrst um 19. og 20. gr. 19. gr. er óbreytt frá gildandi lögum. Ef ég man rétt mun hún hafa verið 95. gr. gildandi laga. Ég hef ekkert á móti því ef hv. félmn. sýnist svo að þrengja þær reglugerðarheimildir sem þar eru lagðar til og binda fastar í lagagreinar.

Varðandi athugasemdina um húsnæðisnefndir sveitarfélaga, hvort þær þyrftu að koma að þessu máli, er rétt að taka fram að reglugerðarvaldið er að sjálfsögðu í ráðuneytinu. En húsnæðisnefndir þurfa að fylgjast með og þeim er lögð sú skylda á herðar að þær eiga að fylgjast með íbúðaþörf í sveitarfélaginu. Þetta er haft til þess að húsnæðisnefndirnar hafi yfirsýn yfir hvað er að gerast í sveitarfélaginu.

36. gr. í frv. um húsnæðismál á ekki við í þessu efni, hv. 5. þm. Vestf. Hér er um að ræða frjáls félagasamtök og þau eru óháð sveitarfélögunum og Búseta er síður en svo bannað að leita eftir lánsfé annars staðar en í Íbúðalánasjóði ef hann kýs svo. Ef hann á kost á betri lánum eða vill sækja þau einhvers staðar annars staðar sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu.

Það er náttúrlega rétt að geta þess og halda því til haga að vaxtabæturnar eru félagsleg aðstoð. Vaxtabætur eru félagsleg aðstoð til fólks sem er að afla sér húsnæðis.

Hv. 13. þm. Reykv. spurði mig um úrskurð félmrn. eða álit á úrskurði félmrn. frá 1992. Nú tek ég fram að ég hef hið mesta traust á úrskurðum félmrn. En áður en ég svara hefði ég kosið að fá að lesa þennan úrskurð. Ég geri ráð fyrir því að hann sé vandlega unninn en þori ekki annað en hafa smáfyrirvara af því að ég óska eftir að fá að lesa hann áður en ég lýsi yfir stuðningi við hann.

Það er alls ekki verið að slá af búsetukerfið með frumvarpaflutninginum, síður en svo. Það er ekki hugmyndin að koma í veg fyrir að fleiri íbúðir með búseturétti verði byggðar.

Að endingu þakka ég svo, herra forseti, fyrir umræðuna.