Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:22:40 (4538)

1998-03-10 17:22:40# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef skilning á því að ráðherrann þurfi að kynna sér málið varðandi tryggingarsjóðinn og hlut Búseta að því er varðar eign í þeim sjóði, sem á nú að færast yfir í varasjóðinn, þannig að hann þurfi að kynna sér úrskurð félmrn. Ég fagna því líka ef hæstv. ráðherra segir að ekki sé verið að slá af búseturéttinn. Ef ráðherrann telur það svo vera þá þarf þó að tryggja einhvers staðar búseturéttinn og á hverju hann byggir í lögunum sem við erum að fjalla um.

Ég sé hvergi stoð í frv. fyrir því að verið sé að tryggja búseturéttinn. Getur ráðherrann ekki verið sammála mér um það að ákvæði til bráðabirgða II, sem ráðherrann las hér upp, gildi um búseturéttaríbúðir sem eru fyrir í kerfinu? Ef ráðherrann er sammála því, hvaða ákvæði í frv., þessu eða hinu, tryggir að búseturétturinn verði óbreyttur frá því sem nú er? Ef hann er óbreyttur frá því sem nú er þá minni ég á það að búseturétturinn hefur byggst á ákvæðum sem eru í lögum um almennar kaupleiguíbúðir og félagslegar kaupleiguíbúðir þannig að búseturétturinn og hlutareignin hefur verið frá 10--30%.

Ég spyr ráðherrann: Verður það óbreytt áfram? Geta búseturéttarfélagar fengið 10--35% sem búseturétturinn og hlutareignin byggir á eins og var áður? Hvar getur hann vísað mér á stoð í frv. sem verður væntanlega lagastoð fyrir skilgreiningu á búseturétti? Ég fullyrði, herra forseti, að 18. gr., þar sem er talað um búseturétt í þessu frv., nægir þar hvergi.