Atvinnusjóður kvenna

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 18:16:34 (4553)

1998-03-10 18:16:34# 122. lþ. 83.9 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[18:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað sjá að við værum fremur að fjalla um frv. til laga um atvinnusjóð kvenna þar sem skilgreind verkefni þess sjóðs og markmið kæmu fram. Í því frv. væri þeim sjóði jafnframt tryggð örugg lagastoð að því er varðar fjármagn. Ég held að það séu allir sammála um að þessi sjóður sem starfað hefur frá 1991, hefur gengið mjög vel. Framlagið til hans hefur vissulega skilað tilgangi sínum. Fjármagnið hefur runnið til verkefna sem hafa um margt verið athyglisverð og styrkt starfsemi þeirra kvenna sem ráðist hafa í að stofna fyrirtæki.

Einnig hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með þeim verkefnum sem konurnar hafa ráðist í og hafa gengið mjög vel. Framlögin hafa runnið til þess að aðstoða konur varðandi markaðssetningu og fleiri þætti.

Það sem raunverulega hefur vantað er öruggt fjármagn sem rynni í þennan sjóð. Eins þyrfti að opna meira fyrir og víkka þau verkefni sem veita má fjármagn til. Lengst af hefur þetta framlag haft stoð í fjárlögum. Þó það sé ekki fullkomið þá er það þó lagastoð. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur því verið kippt úr fjárlögunum. Nú er þetta fjármagn falið einhvers staðar í Atvinnuleysistryggingasjóði og ég veit ekki hvort þess er nokkurs staðar getið. Þetta er styrkur, veittur í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

Í fyrsta lagi er það rangt. Þetta rennur ekki til kvenna sem eru atvinnulausar. Sjóðurinn á ekki heima þar. Í öðru lagi finnst mér að því framtaki sem unnið hefur verið af konum með tilstyrk þessa framlags eigi að sýna þá virðingu að gefa sjóðnum stoð í lögum. Það þyrfti að gera í frv. sem skilgreinir markmið, hvað við viljum sjá, hvað við viljum styrkja, hver verkefnin eigi að vera og hvernig tryggja eigi sjóðnum fjármagn. Það er ekki útilokað og ég býst við að því verði fylgt eftir í þinginu þegar niðurstaða þessarar nefndar liggur fyrir. Ég vona að þeir sem nefndina skipa skoði hvort ein af tillögum nefndarinnar verði ekki að tryggja þessum sjóði lagastoð eitthvað fram í tímann.

Við í stjórnarandstöðunni sem höfum ávallt í tíð þessarar ríkisstjórnar fylgt því fast eftir við fjárlagagerðina að þessi sjóður fái fjármagn og munum auðvitað fylgjast mjög grannt með starfi nefndarinnar og því að hún skili fljótt og vel af sér. Því verður fylgt eftir hér á þinginu.

Herra forseti. Á þessu þingi og jafnvel á undanförnum missirum hefur allt of lítið verið fjallað almennt um stöðuna í atvinnumálum kvenna. Við höfum gert það nokkrum sinnum í vetur og tillögur um úrbætur liggja fyrir frá stjórnarandstöðunni í því efni. Atvinnuleysi kvenna, svo sérkennilegt sem það er í þessu góðæri sem við búum við, hefur sjaldan verið meira, herra forseti. Þessi tillaga sem þó er góðra gjalda verð og ég styð, bætir þar litlu úr.

Það vakti vissulega mikil vonbrigði hjá mér þegar við ræddum um stöðuna í atvinnumálum kvenna hér á þingi fyrir nokkrum vikum. Félmrh. tók þátt í þeirri umræðu þar sem beint var til hans fyrirspurn þar að lútandi. Hæstv. ráðherra taldi enga sérstaka ástæðu, jafnvel þó atvinnuleysi kvenna væri tvöfalt meira en hjá karlmönnum og atvinnuleysi kvenna væri meira en á árinu 1993 þegar ríkisstjórnin þá greip til sérstakra aðgerða til að draga úr atvinnuleysi kvenna, að grípa til einhverra sértækra aðgerða til þess að draga úr atvinnuleysi kvenna. Það var svo merkilegt, herra forseti. Hann vísaði á þennan sjóð sem við erum hér að fjalla um. Sá hefur um 20 millj. til ráðstöfunar ef stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þóknast að láta hann hafa allar þær millj. allar vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur það í hendi sér að leggja þar minna til.

Ráðherrann taldi ekki ástæðu til þess að gera neitt að því er varðar atvinnuleysi kvenna. Mér fannst nokkuð merkilegt að hann hafði ekki einu sinni gert tilraun til þess að ræða málið í ríkisstjórninni og hvort ekki ætti að grípa til sérstakra aðgerða í því máli. Það var þó gert á sínum tíma árið 1993. Þá átti að veita mikið fjármagn út af atvinnuleysi vegna kreppu- og samdráttartíma. Það fjármagn átti þó eins og vanalega að renna til alls konar verkefna sem fremur fóru í það að styrkja stöðu karla og draga úr atvinnuleysi þeirra. Auðvitað er það sjálfsagt en við megum ekki gleyma konunum. Gegnum árin hefur mest farið til vega- og viðhaldsframkvæmda, í sértækum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til.

Þá beitti ég mér fyrir því í ríkisstjórninni að samþykkt yrði 60 millj. kr. framlag sérstaklega ætlað til þess að draga úr atvinnuleysi kvenna. Ég held að það hafi verið til fyrirmyndar hvernig unnið var úr því. Sérstök nefnd var skipuð til að skoða hvernig þetta nýttist konum. Hundruð kvenna fengu vinnu, ýmist í skemmri eða lengri tíma. Sumar fengu vinnu til frambúðar vegna þess fjármagns sem þarna var látið í, litlar 60 millj. á móti mörg hundruð milljónum sem á þeim tíma var varið til vega- og viðhaldsframkvæmda. (KÁ: 920 millj. á móti 80.) 920 á móti 60, já og með þessum 20. Ég hefði talið, herra forseti, að einmitt nú við þessar aðstæður ætti að grípa til svipaðra aðgerða. Við erum ekkert að tala um stórar fjárhæðir, 60--80 millj., herra forseti. Það má gera samanburð á því við ýmsa sóun í þjóðfélaginu og lítið er með gert.

Það er nefnilega svo, sem líka er mjög alvarlegt og mikið umhugsunarefni, að á þessum tímum þenslu í atvinnulífinu eykst atvinnuleysi kvenna. Og hvar er þenslan? Hún er aðallega í stóriðjuframkvæmdum og mannvirkjagerð sem er meira atvinnuskapandi fyrir karla en konur. Á sama tíma er samdráttur í ýmsum hefðbundnum atvinnugreinum kvenna. Við getum nefnt ýmiss konar hagræðingu í heilbrigðisgeiranum, hagræðingu í bankastarfsemi. Bankastarfsmönnum hefur fækkað verulega. Þetta hefur miklu meira bitnað á konum en nokkurn tíma körlum. Ég hef nokkrar áhyggjur af því, herra forseti, að menn hugleiði raunverulega ekki hvað hér er á ferðinni og hvort það sé svo að við séum að sigla inn í það að hagræðing í atvinnulífinu og tækniþróun alls konar bitni fremur á kvennastörfum en karlastörfum án þess að nokkuð sé að gert. Við sjáum ekki að verið sé að auka framlag í starfsmenntasjóð sem fyrst og fremst á að tryggja stöðu ófaglærðra. Honum er fleygt inn í Atvinnuleysistryggingasjóð sem hann á ekkert erindi í frekar en atvinnusjóður kvenna. Er að koma upp ný staða á vinnumarkaðnum sem bitnar sérstaklega á konum. (Gripið fram í: Það bendir allt til þess.) Það bendir allt til þess og það er ekkert að gert. Við bara siglum áfram inn í nýja stöðu sem bitnar sérstaklega á konum og nú er svo komið, herra forseti, að þegar konur eru svona 45--50 ára --- ég tala nú ekki um 50 ára og þar yfir --- eru þær kannski sumar hverjar ekki gjaldgengar lengur á vinnumarkaði. Hvað er gert í þessu máli, í þessari nýju stöðu sem hér er komin upp í atvinnumunstrinu og atvinnulífinu? Ég veit ekki til þess að ríkisstjórnin sé að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég held að stjórnarandstaðan verði að taka þessi mál einhvern veginn í sínar hendur og ræða þessa alvarlegu stöðu sem er komin upp á vinnumarkaðnum.

Það alvarlega í þessu líka er að þetta snýr ekki bara að konum. Atvinnuleysi er meira en atvinnuleysistölurnar segja til um. Hvaða hópar eru það, herra forseti? Það eru fatlaðir. Fatlaðir sem ekki fá atvinnu á vinnumarkaðinum vegna þeirra breytinga sem þar eru koma ekki fram í atvinnuleysistölum. Við sjáum þá í tölum hjá Tryggingastofnun. Þar hefur tvöfaldast sá fjöldi öryrkja sem er á tryggingabótum og þar er m.a. tilgreint --- hæstv. heilbrrh. sagði það hreinlega í svari til mín fyrir nokkrum vikum síðan --- að það sé m.a. vegna aðstæðna öryrkja á vinnumarkaðnum. Ég sé ekki, herra forseti, að neitt sé verið að gera til þess að breyta þessari alvarlegu þróun. (Gripið fram í: Það er reyndar verið að gera rannsóknir á þessu hjá Tryggingastofnun.) Já, það er mjög gott innlegg í málið. Það er verið að rannsaka í Tryggingastofnun hvers vegna þessi mikla fjölgun öryrkja er. Ég held að það sé mjög þakkarvert af Tryggingastofnun eða hverjum þeim sem hefur átt frumkvæði að því eða er að vinna það verk að þeim skuli gert það kleift að vinna en þeim sé ekki búin sú aðstaða í þjóðfélaginu að þeim sé vísað af vinnumarkaðnum, kannski ungu fólki. Auðvitað gerum við það ekki, ég tala nú ekki um konum. Við gerum það ekki. Ég vil því hvetja til þess undir þessari umræðu, herra forseti, að menn setjist yfir og kortleggi og athugi hvað er raunverulega að gerast á atvinnumarkaðnum.

Svo höfum við upplifað það og það kom fram í svari félmrh. fyrir nokkrum vikum síðan að langtímaatvinnuleysi hefur líka aukist verulega. Fólki sem er sex mánuði atvinnulaust eða ég tala nú ekki um eitt ár, hefur fjölgað verulega. Við erum að tala um verulega fjölgun að því er varðar konur. Verulega fleiri konur eru nú atvinnulausar á tímum góðæris en á tímum kreppunnar og samdráttar í atvinnulífi sem við upplifðum fyrir nokkrum árum og það er ekkert gert og félmrh. telur sig ekkert þurfa að gera þó sú staða sé uppi og þetta hafi varað um langt skeið.

Atvinnuleysi öryrkja hefur einnig aukist og þegar konur eru komnar á miðjan aldur, um fimmtugt, fá þær ekki vinnu. Er einhver að skoða þetta, athuga hvernig munstrið er að breytast hérna á vinnumarkaðnum? Mér er ekki kunnugt um það.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál en ég tel, og það skulu vera mín lokaorð, að stjórnarandstaðan þurfi að taka þessi mál í sínar hendur. Stjórnarandstöðunni er hreinlega ekki stætt á því að bíða frekar eftir því að þessi ríkisstjórn aðhafist eitthvað að því er varðar þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á vinnumarkaðnum og hefur varað hér um nokkurra mánaða og missira skeið. Ég held að við sjáum engar breytingar á því nema að gripið verði til aðgerða. Þær felast ekki síst í því, einmitt með tilliti til þeirrar tækniþróunar og byltingar sem við búum við, að auka starfsmenntun og starfsþjálfun. Hér er að fækka störfum í hefðbundnum atvinnugreinum kvenna á vinnumarkaðnum og ég hvet til þess að við bregðumst við því.

Síðan í lokin, herra forseti, aðeins um þá brtt. sem flutt er af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og þeirri sem hér stendur. Hún er prófsteinn á það þegar við greiðum hér atkvæði hvort þingmenn meina eitthvað með því að vilja nú skoða þennan atvinnusjóð kvenna og styrkja hann vegna þess að ég lít þannig á þessa tillögu að það eigi að styrkja hann. Ef þingmenn fella þessa tillögu um það hvernig tryggja megi þessum sjóði aukið fjármagn, herra forseti, þá gef ég ekki ýkja mikið fyrir þessa þáltill. A.m.k. er hún miklu veikari en hún væri ef brtt. sem hér er lögð fram og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur mælt fyrir yrði samþykkt.