Atvinnusjóður kvenna

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 18:31:34 (4554)

1998-03-10 18:31:34# 122. lþ. 83.9 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[18:31]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er fullkomlega sammála hv. þm. en langaði til að koma því á framfæri í andsvari að það eru afar athyglisverðar tölur í nýjum bæklingi Hagstofunnar um konur og karla varðandi örorku. Að vísu vantar línurit yfir þróunina á undanförnum árum en það er afar athyglisvert að skoða það línurit sem hér er um það hvernig öryrkjar skiptast eftir aldri. Það tengist því sem hv. þm. nefndi um konur sem komnar eru yfir fimmtugt að það er mjög áberandi hve þær eru fjölmennar í hópi öryrkja og miklu fjölmennari en karlar á sama aldursskeiði, þ.e. hópurinn 55--67 ára. Hvað er það svo sem hrjáir konur sem eru á örorku? Það eru fyrst og fremst vöðva- og beinasjúkdómar. Samkvæmt nýjustu tölum eru 1.634 konur á móti 614 körlum. Þetta finnst mér afar athyglisverðar tölur og þær segja mér að fyrst og fremst sé um vinnuslit að ræða, álagssjúkdóma meðal kvenna og þetta er eitthvað sem þarf að rannsaka mjög rækilega. Slíkan mun er ekki að finna í neinum öðrum sjúkdómsflokki samkvæmt þeirri flokkun sem hér er að finna.

Þá vil ég einnig bæta því við varðandi það sem hv. þm. sagði um breytingar á atvinnugreinum að það er líka mjög athyglisvert að skoða fiskvinnsluna. Ég vil bara nefna það af því að hv. þm. nefndi ekki fiskvinnsluna að þar eru líka að verða gríðarlegar breytingar og þar mun verða fækkun á starfsfólki og það er síaukin tækni og hvað þýðir það fyrir landsbyggðina og fyrir þá þróun sem margir hafa svo miklar áhyggjur af hvernig straumurinn er hingað til höfuðborgarsvæðisins? Konur hafa alltaf streymt hingað en verði þessi fækkun á störfum í fiskvinnslunni mun straumur þeirra stóraukast og þá koma karlarnir á eftir.