Tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 13:55:51 (4565)

1998-03-11 13:55:51# 122. lþ. 84.4 fundur 493. mál: #A tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[13:55]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þegar farið var af stað með framangreint verkefni voru eftirfarandi þrjár meginforsendur settar fram sem skilyrði þess að verkið væri framkvæmanlegt. Í fyrsta lagi að heildarkostnaður við smíði skipsins færi ekki fram úr 1,4--1,6 milljörðum ísl. kr. Í öðru lagi að afhendingartími skipsins frá undirritun samnings færi ekki fram úr 15--16 mánuðum. Og í þriðja lagi að framdrifsbúnaður, vélar og skrúfur, fengist sem stæðist mjög ströng hávaðamörk, þ.e. skipið væri mjög hljóðlátt með tilliti til hávaða sem mældur er í sjónum utan við skipið.

Þar sem eitt af tilboðunum sem bárust var allnokkru lægra en hin ákváðu Ríkiskaup og smíðanefndin að birta sérstaklega rökstuðning fyrir höfnun þess og í rökstuðningi Ríkiskaupa og smíðanefndar segir svo um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Þetta tilboð er lægst þeirra tilboða sem bárust, auk þess sem 10. des. 1997 staðfesti bjóðandi að framdrifsbúnaður frá Cecelec sé innifalinn í tilboðsverðinu. Í fljótu bragði virðist þessi yfirlýsing gera tilboðið mjög hagstætt með tilliti til verðs, en við nánari skoðun tækniráðgjafa Hafrannsóknastofnunar kemur fram að sú tala sem eftir stendur, þegar búið er að draga framdrifsbúnað frá tilboðsverði, nægir ekki fyrir efni og tækjabúnaði af þeim gæðum sem kaupandi telur ásættanlegt og aðkeyptri sérfræðiþjónustu. Þá er eftir allur launakostnaður við smíði skipsins.

Leitað hefur verið eftir skýringum vegna þessa án þess að viðunandi svör hafi borist. En skv. 46. gr. reglugerðar um innkaup ríkisins, nr. 302/1996, skal ef tilboð virðist óeðlilega lágt kanna það í smáatriðum og má í því skyni krefja bjóðanda um nauðsynlegar skýringar á efnisverði, vinnulaunum og álagningu. Tilboðsverðið virðist óraunhæft. Enn fremur var leitað eftir því hvaða tæki bjóðandi hygðist bjóða fram í skipið. Tækjalisti sem bjóðandi lagði fram uppfyllir ekki óskir kaupanda nema að hluta. Tilgreindur smíðatími skipsins er 22 mánuðir, sem er um hálfu ári lengri tími en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum og talið er ásættanlegt vegna fyrirhugaðra verkefna skipsins. Ein af meginkröfum útboðsgagna lýtur að samhæfingu búnaðar sem settur er í skipið vegna mikilvægi þess sem rannsóknaskips. Í því sambandi má ljóst vera að ekki er unnt að tefla í neina tvísýnu með samspil framdrifsbúnaðar og skips, sérstaklega hvað varðar kröfur um hljóðdeyfingar. Bjóðandi hefur ekki samkvæmt skipaskrá Lloyd´s Register of Shipping reynslu af byggingu skipa þar sem þessar flóknu hljóðkröfur eru gerðar. Bjóðandi stenst því ekki kröfur útboðsgagna hvað þetta varðar og þessu atriði má ekki tefla í tvísýnu.

Framleiðandi framdrifsbúnaðar hefur tekið undir þetta atriði þar sem hann er að stórum hluta ábyrgur fyrir því hvernig til tekst. Bjóðandi hefur ekki sýnt fram á að skipasmíðastöðin hafi ISO-vottun og ekki lagt fram umbeðin gögn um fjárhagsstöðu hennar auk fleiri almennra upplýsinga sem reglur um opinber útboð gera ráð fyrir, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og fundi með honum.

Rétt er að taka fram að sú skipasmíðastöð sem boðin er fram er að dómi Lloyd´s góð stöð sem slík og hefur skilað góðum verkum á því sviði sem hún hefur starfað á, sem er m.a. smíði gámaskipa, tankskipa og fljótabáta.``

Í rökstuðningi Ríkiskaupa og smíðanefndar fyrir því að taka tilboði ASMAR segir svo: ,,Tilgreindur smíðatími skipsins í tilboði er 15 mánuðir frá undirritun verksamnings, sem er vel ásættanlegt. Stöðin er þekkt fyrir smíði á mjög tæknilega þróuðum skipum, m.a. í sambandi við strangar hljóðkröfur. Þegar starfsmenn Ríkiskaupa, Hafrannsóknastofnunar og smíðanefndar ásamt tækniráðgjafa skoðuðu stöðina voru fulltrúar frá kafbátadeild flotans viðstaddir en þeir munu sjá um allt sem lýtur að hljóðkröfum við skipið.

[14:00]

Tilboðsupphæð samræmist viðmiðunarmörkum um heildarkostnað. Samkvæmt framlögðum gögnum er fjárhagsstaða stöðvarinnar mjög sterk og öll önnur umbeðin gögn varðandi fyrirtækið sem borist hafa uppfylla settar kröfur. Stöðin er með ISO 9001 vottun sem nær yfir allt ferlið frá hönnun til loka framleiðslu. Að mati starfsmanna og tækniráðgjafa Hafrannsóknastofnunar hefur ASMAR stöðin mikinn trúverðugleika og þekkingu á öllum þeim þáttum sem lúta að vandasömu verki sem smíði hafrannsóknaskips er. Því er það samdóma álit allra aðila sem komu að mati tilboðanna að velja tilboð ASMAR skipasmíðastöðvarinnar í Chile.

Það hefði þurft mjög veigamikil rök til þess að hafna þeirri niðurstöðu sérfræðinga sem falið er að gera tillögur til stjórnvalda um þessi efni um að taka öðru tilboði en því sem sérfræðingarnir töldu vera það hagkvæmasta.