Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:11:38 (4571)

1998-03-11 14:11:38# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:11]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það fer e.t.v. best á því að svara síðari lið fyrirspurnarinnar fyrst. Þetta umrædda mál hefur ekki rekið á fjörur sjútvrn. og hefur þess vegna ekki verið skoðað þar sérstaklega.

Um fyrri lið fyrirspurnarinnar er það að segja að ég er enn sömu skoðunar og ég hef verið áður, þ.e. að afstaðan hljóti að ráðast af mati vísindamanna okkar á þessu sviði á því hvort um sjúkdómahættu er að ræða eða ekki. Ef hún er ekki fyrir hendi þá er engin fyrirstaða að því er ég best fæ séð til þess að taka við þessu dýri. Ef mat okkar vísindamanna er á annan veg þá hljóta menn að skoða það.

Í þessu þurfa menn kannski einnig að horfa á gildandi löggjöf í þessu efni. Ég er ekki viss um að í sjálfu sér þurfi sérstök leyfi til að flytja sjávarspendýr inn. Leyfi þarf til þess að flytja inn öll önnur dýr, bæði á landi og í sjó samkvæmt gildandi lögum. Ef hins vegar gera á tilraunir eða rannsóknir þá þarf sérstök leyfi stjórnvalda til þess.

Af því að hér var minnst á afstöðu ráðuneyta árið 1992 þá er rétt að rifja það upp að þá barst ekki formleg umsókn um að fá að sleppa því dýri sem þá var um rætt í sjó hér við strendur. Það barst fyrirspurn um það hvort að líklegt væri að formlegri fyrirspurn yrði svarað og sjútvrn. svaraði fyrir hönd nokkurra ráðuneyta. Að höfðu samráði við utanrrn. og umhvrn. og landbrn. var þetta svar gefið og það byggði einvörðungu á mati vísindamanna á því að líkur væru á sjúkdómahættu sem ekki væri ástæða til að taka áhættu af og það var grundvöllur þessa svars sem var sameiginlegt svar þeirra ráðuneyta sem hlut áttu að máli.