Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:14:10 (4572)

1998-03-11 14:14:10# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:14]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er um allsérstætt mál að ræða og hér getur verið um viðkvæmt mál að ræða. Menn skulu hafa það í huga.

Í mínum huga eru einkum tvö skilyrði grundvallaratriði í þessu máli, þ.e. að fyrir liggi heilbrigðisvottorð sem viðurkennt er af íslenskum aðilum sem samrýmist þeirri löggjöf og þeim venjum sem við höfum haft um innflutning dýra. Í öðru lagi er það grundvallaratriði að þeir sem annast þennan flutning og gangast fyrir málinu, ef til kemur, beri ábyrgð á umbúnaði og vörslu háhyrningsins eftir að hann er kominn hingað og séu ábyrgir í því og fyrir því ef illa fer sem getur auðvitað orðið þegar háhyrningurinn skiptir um umhverfi.

Þetta eru grundvallaratriði að mínu mati. Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld eigi að líta jákvæðum augum á þetta mál.