Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:20:18 (4576)

1998-03-11 14:20:18# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég er ekki sammála þingmanninum sem talaði síðast um að það hvort við hefjum hvalveiðar sé algerlega sjálfstætt mál. Það hefur ekki verið það hingað til. Af hverju erum við ekki farin að veiða hval? Einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið sjálfstætt mál. Við höfum þurft að taka tillit til ýmissa hagsmuna annarra en okkar eigin í því máli.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort hvalaskoðun og hvalveiðar fari saman og menn hljóta að velta því fyrir sér hvort Keikó-skoðun og hvalveiðar fari saman. Ég er handviss um það, herra forseti, ef Keikó kemur til Íslands með öllu því kastljósi sem því fylgi af hálfu ýmiss konar ,,friðunarsamtaka``, hv. þm. vék að einum þeirra hér áðan, þá verður mjög erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að sannfæra umheiminn um réttmæti þess að veiða hvali við Ísland. Hvað er auðveldara en að segja: Heyrðu, þeir ætla að fara að veiða Keikó? Hvernig ætlum við að svara því? Við höfum áreiðanlega ekki bolmagn til þess þá frekar en við höfum haft bolmagn fram til þessa að sannfæra heiminn um það að við ættum rétt til hvalveiða.