Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:21:41 (4577)

1998-03-11 14:21:41# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessar miklu umræður sem hafa orðið um fyrirspurnina en hæstv. ráðherra sagði að þetta mál hefði ekki rekið á sínar fjörur. Það er nokkuð óvænt þar sem mér skilst að hæstv. forsrh. hafi sagt opinberlega að það eigi að koma einhvers konar svar frá stjórnvöldum fyrir apríllok þannig að væntanlega hlýtur þetta að reka á fjörur sjútvrn. fyrr en síðar.

Afstaða hæstv. ráðherra var sú að það yrði allt í lagi að taka við háhyrningnum ef mat vísindamannanna yrði jákvætt. Nú er búið að tala um að dýrið sé mjög vel rannsakað og sé ekki haldið neinum sjúkdómum. Segjum að það yrði niðurstaðan að dýrið er ekki sjúkt, en hvað ef það verður mat vísindamanna okkar að Keikó geti ekki lifað utan kvíarinnar sem á að setja hann í? Ætlum við að taka á móti Keikó ef hann á að vera í kví allan tímann? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að þessu.

Ég vil líka reyna að særa upp úr hæstv. ráðherra svör um hvalveiðarnar. Það eru mjög skiptar skoðanir um það hvort Bandaríkjamenn og alþjóðasamfélagið muni tengja háhyrninginn Keikó t.d. við hrefnuveiðar. Sjá Bandaríkjamenn mikinn mun á háhyrningi og hrefnu? Sjálf efast ég um það. Það má líka segja að við séum að veiða ýmsar fuglategundir meðan aðrar eru friðaðar og það hefur gengið upp en kastljósið hefur ekki beinst neitt að því. En ég spyr hæstv. sjútvrh. í ljósi umræðnanna hér: Telur hann að heimkoma Keikós hafi áhrif á möguleika okkar til þess að veiða hval?