Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:28:09 (4580)

1998-03-11 14:28:09# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Sveitarfélögin óskuðu eftir því á sínum tíma að fá málaflokkinn til sín. Samtök fatlaðra studdu eindregið að það yrði gert og í fyrravetur var lögfest með ákveðnum skilyrðum að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna og yfirfærslan kæmi til framkvæmda 1. jan. 1999, enda hafi Alþingi þá m.a. samþykkt ,,ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þó ekki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins,

b. breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,

c. sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.``

Á grundvelli þessa hófst undirbúningur og hann er kominn vel á veg. Verkefnisstjórn var skipuð. Laganefnd er að störfum og er langt komin með endurskoðað lagafrv. um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem lögin um málefni fatlaðra eru felld inn í.

Kostnaðarnefnd er einnig að störfum. Úttektarhópur sem átti að meta þörfina er einnig að störfum og ég held að það séu einir átta starfsmenn úr félmrn. sem eru meira og minna uppteknir í þessu verkefni og hafa verið um margra mánaða skeið. Landshlutanefndirnar hafa sumar unnið mikið starf, sumar aftur minna.

[14:30]

Það er ekki eingöngu út af sveitarstjórnarkosningum sem þessu er frestað en þær hafa óhjákvæmilega nokkur áhrif á málið. Það er erfiðara fyrir menn í kosningabaráttu að ganga til vandasamra samninga, gefa sér tíma í það og fara í umræður innan sveitarstjórna um málið.

Reykjavíkurborg óskaði eftir fresti. Í afstöðu Reykjavíkurborgar kom fram að Reykjavíkurborg vill athuga fleiri verkefni en það sem heyrir til lögunum um málefni fatlaðra. Það mál er hið eina sem er á forræði félmrh. en hin tilheyra öðrum ráðuneytum.

Eftir að hafa haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnina ákvað ég að fresta yfirfærslunni. Ný dagsetning hefur ekki verið sett á málið en unnið áfram af fullum krafti að undirbúningnum. Ég tek hins vegar fram að ég er til viðræðu um það ef einhver sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga óska eftir því að taka við málaflokknum á næstunni. Við erum opin fyrir því í félmrn. að ræða um yfirfærslu til einstakra sveitarfélaga eða svæða.

Ég held að það gefist aukinn tími til samninga við sveitarfélögin. Vel hefur gengið þar sem sveitarfélögin hafa tekið við þessum málaflokki, bæði á Norðurlandi eystra, þar sem málefni fatlaðra eru alfarið komin til sveitarfélaganna, á Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Það vekur ánægju allra að sveitarfélögin skuli hafa tekið við þessum málaflokki.

Hins vegar er ekki sömu sögu að segja um allt land. Sums staðar er þetta erfiðara en annars staðar. Skortur er á úrræðum fyrir fatlaða í tveimur kjördæmum landsins, þ.e. í Reykjavík og á Reykjanesi. Þar eru biðlistar sem óhjákvæmilegt er að skoða sérstaklega. Ég hef skipað nefnd til að fjalla um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og gera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um uppbyggingu á þjónustu í þágu fatlaðra. Í nefndinni eru Árni Mathiesen alþm., Bjarni Kristjánsson, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Guðrún Ögmundsdóttir borgarfulltrúi, Jón Kristjánsson alþm., Ómar Kristmundsson stjórnsýslufræðingur, Þór Þórarinsson, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi, og Sturlaugur Tómasson skrifstofustjóri sem er jafnframt formaður nefndarinnar. Björn Arnar Magnússon, deildarstjóri í fjmrn., starfar með nefndinni. Og það er óskað eftir því að þessi nefnd hafi lokið störfum fyrir 1. ágúst næstkomandi.