Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:33:39 (4581)

1998-03-11 14:33:39# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Auðvitað eru margvísleg rök sem mæla með því að þetta verkefni, þ.e. málefni fatlaðra, séu á verksviði sveitarfélaganna. Við fórum yfir það á sínum tíma þegar þessi mál voru rædd hér í þinginu og við undirbjuggum þessi lög sem voru samþykkt. Ég tel að auðvitað geti það komið upp að sveitarfélögin treysti sér ekki til þess að taka þennan málaflokk yfir nú þegar. Þá verður að fresta ásetningi okkar um að færa málaflokkinn yfir. En ég tel mikilvægt að setja tímasetningu inn í þá breytingu. Ég held að óheppilegt væri að tímasetja ekki hvenær við ætluðum síðan að láta þennan verkefnatilflutning eiga sér stað. Við þekkjum að svona verkefnatilflutningur gerist ekki nema að mjög vel undirbúnu máli og við þurfum auðvitað að hafa keyri á að menn standi vel að slíkri tilfærslu. Við þekkjum það, varðandi grunnskólann, að upp koma mörg álitamál og þess vegna er mikilvægt að halda dampi við undirbúninginn þrátt fyrir að ákvörðun sé tekin um að fresta þessu. Og ég held þess vegna að eðlilegt væri að gera það með því að fresta þessu um tiltekinn tíma.