Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:39:02 (4585)

1998-03-11 14:39:02# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að við áttum okkur á því að það að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna byggir á því að eðlilegt sé að sveitarfélögin sinni þjónustu við alla sína íbúa. Þau eiga að sinna sambærilegri þjónustu við alla sína íbúa, ekki bara suma, og ætla svo ríkinu að sjá um aðra. Ég tel einnig að rétt væri að halda því til haga í þessari umræðu að nú þegar er búið að flytja þennan málaflokk til nokkurra sveitarfélaga í landinu. Eftir því sem fram hefur komið hjá hæstv. félmrh. þykir það gefast vel. Verði staðið við þá ákvörðun sem hér hefur verið kynnt, að fresta því að þetta málefni verði flutt til sveitarfélaga, tel ég nauðsynlegt að ákveðinn frestur verði gefinn og það skýrt nánar hvað veldur því að nú þarf að fresta verkefni sem áður hefur verið flutt til nokkurra sveitarfélaga. Þar hefur það gengið vel og hefur þótt gefa góða raun.