Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:40:10 (4586)

1998-03-11 14:40:10# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Við þurfum ekkert að ræða það hér. Almennur vilji stendur til þess að flytja þetta verkefni til sveitarfélaga. Ég hef lengi verið ákafur talsmaður þess og er enn. Það er ekki umræðuefnið í dag. Umræðuefnið er það að sveitarfélög standa frammi fyrir því að undirbúningsstarf í félmrn. er komið of skammt á veg. Peningamálin eru algjörlega óútkljáð. Hæstv. ráðherra upplýsti einnig að undirbúningur löggjafarstarfs, þ.e. breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, er ekki nægur. Hefðu menn ætlað að standa við þessa dagsetningu, um næstu áramót, þá hefðum við auðvitað þegar fengið frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga inn í þingið. Hann undirstrikar það sjálfur að vandi málsins liggur í félmrn. en ekki hjá sveitarfélögunum.

Ég hef skilning á því að sveitarfélögin vilji fara sér hægt í þessu máli og vilji sjá á öll spilin áður en af framkvæmd verður. Nú grípur hæstv. ráðherra til þess ráðs að skipa nefnd til að gera framkvæmdaáætlun til næstu ára. Auðvitað átti það að vera hans fyrsta verk þegar lögin um tilflutninginn voru samþykkt. Þannig að hér eru auðvitað handarbakavinnubrögð á ferð. Menn eru allt of lengi að vinna þessi verk.

Ég get fellt mig við frestunina í ljósi þessara aðstæðna, í ljósi þess að félmrn. hefur ekki unnið þau verk sem því voru falin. Ég tel að skynsamlegast sé að fresta þessu en auðvitað eigum við að setja ákveðin tímamörk. Ég hlýt að spyrja hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur um það. Að vísu skiptir það ekki meginmáli. Hæstv. ráðherra verður ekki í sama stóli þegar þar að kemur. Það verður augljóst eftir næstu þingkosningar. Hann lýkur því ekki verkinu sem hann hóf.