Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:45:21 (4588)

1998-03-11 14:45:21# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur átt og á enn í harðri og erfiðri samkeppni við ríkisstyrktan iðnað annarra þjóða. Hér hefur hins vegar ekki verið farið inn á þær brautir að styrkja iðnaðinn og hann hefur því gengið í gegnum erfið tímabil þar sem sveiflur hafa verið miklar og menn hafa jafnvel óttast um framtíð skipasmíða á Íslandi. Útgerðarmenn hafa viljað njóta þeirra ríkisstyrkja sem önnur lönd bjóða upp á í sínum skipasmíðaiðnaði og siglt skipum sínum þangað sem best er boðið. Spurningin er auðvitað í hve miklum mæli íslenska ríkið gerir það líka. Nú er ráðgert að smíða tvö stór skip á vegum opinberra aðila, hafrannsóknaskip og varðskip. Hafrannsóknaskipið hefur þegar verið boðið út á alþjóðlegum markaði og greinir menn á um hvernig til tókst eins og fram hefur komið í dag. Á það er bent m.a. af Samtökum iðnaðarins að sú almenna regla að verkefni af þessu tagi séu útboðsskyld eigi ekki við þegar um er að ræða skip sem ætluð eru til varnar landi eða lögsögu og þá er átt við að þau séu útboðsskyld á alþjóðamarkaði, a.m.k. hafi aðrar þjóðir komist upp með að skilgreina slík verkefni þannig að því sé í raun ekkert sem mæli fyrir um að hönnun eða smíði varðskips skuli boðin út á alþjóðlegum markaði. Það virðist því vera mögulegt, ef vilji stjórnvalda stendur til þess, að líta á þetta verkefni sem íslenskt verkefni, verkefni sem gæti orðið mikilsverður áfangi í þróun skipasmíðaiðnaðar hér á landi. Ég hef því varpað spurningum til hæstv. iðnrh. á þskj. 807 um hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hvort ákvörðun hafi verið tekin um að við nýttum okkur þann möguleika að bjóða smíði varðskipsins ekki út á alþjóðlegum markaði heldur láta smíða það innan lands á þeim forsendum að um sé að ræða skip sem jafna megi við þau verkefni annarra þjóða og eru ekki boðin út á alþjóðlegum markaði með rökum um hernaðarleynd. Ef sú stefna hefur ekki verið mótuð, hver eru þá viðhorf ráðherrans til þessa og hvaða veganesti fékk nýskipuð smíðanefnd í þessu efni?