Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:53:09 (4590)

1998-03-11 14:53:09# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með svör hæstv. iðnrh. Ég tel að þetta verkefni, smíði nýs varðskips, sé kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld til að efla íslenskan skipasmíðaiðnað sem hefur átt í verulegum erfiðleikum allt frá miðjum síðasta áratug þegar verkefnastaða þessara fyrirtækja hrundi í kjölfar minnkandi aflaheimilda og alls konar erfiðleika í þjóðarbúskapnum. Þetta leiddi til þess að starfsmönnum í þeirri grein stórfækkaði og það sem verra var að endurnýjun í greininni lagðist nánast af. Fyrirtækin treystu sér ekki til að taka nema og ekki varð eðlileg endurnýjun sem er að koma greininni í koll í dag. Nú hefur leiðin legið upp á við. Verkefnastaðan hefur stórbatnað með uppsveiflu sem orðið hefur í þjóðfélaginu en samt sem áður tel ég að þessi fyrirtæki vanti tilfinnanlega nýsmíði, bæði til að efla stöðugleika í rekstri þeirra og ekki síður til að viðhalda þeirri þekkingu sem enn er til staðar í skipasmíði á Íslandi og væri mjög alvarlegt mál ef hún félli niður. Nánast engin skip hafa verið smíðuð síðasta áratuginn og hætt við að sú þekking hverfi ef ekki bjóðast verkefni. Nú er einmitt kjörið tækifæri og ég tel að það væri gott samstarfsverkefni fyrir skipasmíðastöðvarnar að taka þetta að sér, og efast ekki um að þær mundu leysa það með sóma því það er óumdeilt að þau fiskiskip sem smíðuð voru á Íslandi meðan stálskipasmíðin var og hét hafa reynst afburðavel.