Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:47:38 (4613)

1998-03-11 15:47:38# 122. lþ. 85.6 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 122. lþ.

[15:47]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé mikill skoðanamunur á viðhorfum mínum og hæstv. dómsmrh. En ráðherrann sagði að þarna mundi hámarkið verða við 29 ára á aldur brotaþola. Það er ekki rétt. Það er eingöngu í 202. gr. sem leyfilegt er að hafa hámarksrefsingu allt að 12 árum þannig að ég spái því að í 99% tilvika verði refsingin tíu ár eða minni þannig að hámarksfyrningarfrestur verði eingöngu 24 ár. Ég vil bara benda ráðherranum á að þarna var að öllum líkindum villa í ræðu hans.

Mér finnst heldur ekki hafa komið nægileg rök fyrir því hvers vegna miðað sé við 14 ára aldur. Það er spurning hvenær viðkomandi gerir sér fyllilega grein fyrir því sem um er að ræða. Vissulega má segja að við 14 ára aldur sé viðkomandi orðinn nógu þroskaður til að gera sér grein fyrir þessum málum en mér finnst eðlilegra að miða við sjálfræðisaldur og ég hef ekki fengið nægilega góð rök fyrir öðru.