Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 10:54:46 (4625)

1998-03-12 10:54:46# 122. lþ. 86.4 fundur 544. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (heildarlög) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[10:54]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð en ég fagna því að þetta frv. skuli komið fram, 34 greina frumvarp, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Ég lít á þetta sem einn lið í því sem verður að koma hjá okkur Íslendingum, að vinna að því að öll matvara sem við framleiðum verði vottuð. Það á ekkert síður við um sjávarafurðir en aðrar afurðir sem við framleiðum.

Við höfum flutt hér, nokkrir þingmenn, till. til þál. sem lýtur að framleiðslu íslenskra matvæla. Þar er sérstaklega tekið á sjávarútveginum. Þar teljum við að Ísland geti verið forustuland í vottun sjávarafurða. Ég hef trú á því og það væri gaman að heyra viðbrögð hæstv. sjútvrh. við því hvort þetta sé ekki einmitt liður í þessu sem ég veit að alls staðar er verið að huga að um þessar mundir. Kannski er það svo komið að þeir sem stunda fiskveiðar og fiskverkun séu orðnir mjög meðvitaðir um að þetta verði að gerast. Við eigum að gera þetta á þann veg að við Íslendingar höfum frumkvæðið, ekki að bíða eftir tilskipunum frá öðrum. Við erum með viðurkennt fiskveiðistjórnarkerfi og þó að ég finni ýmislegt að þeirri framkvæmd þá ættum við að byggja okkar vottunarkerfi á þeim grunni.

Við höfum nú einu sinni þá sérstöðu að um 82% af gjaldeyristekjum vegna vöruútflutnings koma úr sjávarútveginum. Að mínu viti undirstrikar það mikilvægi þess máls sem hér er til umræðu. Við getum ekki beðið eftir því að aðrar þjóðir setji okkur leikreglur um hvernig fara skuli með sjávarafurðir heldur verðum við að setja upp vottunarkerfi á þeim grunni sem við höfum. Við vitum að neytendur eru farnir að gera meiri kröfur um að fá að vita um uppruna þeirra matvæla sem þeir kaupa. Þeir vilja vita hvaða tegund er um að ræða og þá verður spurt um alla þætti, allt frá veiðum á fiski þar til fiskurinn lendir á diski. Ég held að við eigum að vinna ötullega að vottun íslenskra matvæla og í þessu tilviki tala ég sérstaklega um fiskinn.

Miklar breytingar eiga sér stað í aðferðum við framleiðslu matvæla. Það er vegna neytendanna, neytendur gera auknar kröfur um umhverfisþætti, siðferði í umgengni við dýr, aukin gæði framleiðslu og hollustu fæðu. Mikilvægt er að koma á jafnvægi á milli náttúruverndarsjónarmiða og gæða með tilliti til heilsufars og meðferðar á þeim dýrum sem við veiðum og notum til matar.

Þetta var örlítið innlegg í þessa umræðu. Um leið og ég lýsi yfir ánægju með þetta frv. sem ég tel vera rétt skref hefði ég viljað spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort menn hafi ekki hugað að því að við framleiðum a.m.k. um 3.000 tonn af eldisfiski. Ég held, og það er reyndar nefnt í þessu frv., að við þurfum að setja okkur það mark að fá þær afurðir vottaðar. Það kemur að því, fyrr en menn gera sér grein fyrir, að við förum að ala sjávarfiska í enn meiri mæli en gert hefur verið. Það er því ástæða til að koma inn á þessi mál frekar.

[11:00]

Ég vil aðeins gera annað að umræðuefni sem tengist að sjálfsögðu fiskveiðum. Í þjóðfélaginu hefur oft verið umræða um að greiða fyrir að nýta auðlindirnar, svokallað auðlindagjald, þ.e. að þeir sem nýti auðlindir greiði auðlindagjald. Menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að í dag greiða þeir sem eru með útgerðir og þeir sem stunda sjó verulegt gjald sem auðlindagjald. Og það sem ég vil fá viðurkennt er að þau gjöld sem núna eru greidd vegna þeirra skipa og þeirra aðila sem fá aðgang að auðlindinni séu viðurkennd auðlindagjöld. Það má nefna t.d. að í nýrri gjaldskrá sem er nýkomin út í reglugerð þarf að greiða fyrir eftirlit eða flokkun hjá Siglingamálstofnun Íslands fyrir báta sem eru undir 8 metrum. Það eru smátrillur, en borga þarf 10.700 kr. bara fyrir skoðun. Og ef við bætum við þarf hver smábátur að greiða 14 þús. kr. að lágmarki fyrir hvert veiðileyfi. Algengt er að hinir smæstu bátar séu a.m.k. með tvö veiðileyfi og það er fljótt að koma upp í 100 þús. kr. á hvern bát sem greiða þarf vegna aðgangs að auðlindinni. Við erum því með auðlindagjald. Við þurfum bara að átta okkur á því hvernig viljum við hafa þessa hluti.

Þetta tengist kannski ekkert mjög því máli sem við erum að fjalla hér um og þó. Það gerir það að vissu marki. Við erum að ræða um þá möguleika sem menn hafa til að reka sína útgerð og það er alveg öruggt mál að þetta frv. um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða er hluti af því máli því það mun koma til skoðun á skipunum, fiskvinnslunni, umbúðunum og tæknibúnaðinum öllum. Þess vegna fagna ég frv. en vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. sjútvrh. til þess sem lýtur að vottun afurða okkar úr sjónum.