Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:14:28 (4629)

1998-03-12 11:14:28# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru nokkur orð sem ég vil leggja í púkk umræðna um þetta frv., þennan bandorm þar sem lagt er til að ökutæki, sem hafa í för með sér minni eða hverfandi mengun, eru knúin rafhreyfli, vetni eða einhverju öðru slíku eldsneyti sem er vinsamlegra umhverfinu en bensín, dísilolía eða aðrir slíkir orkugjafar sem hafa í för með sér m.a. mikla koldíoxíðsmengun eða gróðurhúsalofttegundaútlosun verði undanþegin skattskyldu.

Þetta er angi af mjög stóru máli sem mér finnst að þurfi að skoða í heildarsamhengi eins og reyndar var bent á af einum ræðumanni áðan. Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarna daga af ýmsum ástæðum og þar á meðal að því gefna tilefni að mér þótti frammistaða hæstv. ráðherra ríkisstjórnar Íslands á umhverfisráðstefnu Norðurlandaráðs í Gautaborg ekki vera sem skyldi, að þörf væri á því að ná einhvern veginn utan um þessi mál.

[11:15]

Það er góðra gjalda vert að einstakir þingmenn leggi til aðgerðir á afmörkuðu sviði til að gera notkun rafbíla eða vetnisbíla mögulega. Að sjálfsögðu ber að taka slíku vel en ég hef hins vegar ekki þá tilfinningu að stjórnvöld í landinu, ríkisstjórn Íslands, hafi heildstætt náð utan um þær breyttu aðstæður í umhverfismálum sem við stöndum frammi fyrir. Ég velti upp því hvort ekki sé ástæða til þess að Alþingi taki á málinu, setji t.d. á laggirnar sérstaka þingkjörna nefnd til að móta stefnu og áherslur Íslands í umhverfismálum með hliðsjón af Kyoto-samkomulaginu, út frá aðstæðum í íslenskum orkubúskap og íslenskum veruleika.

Einnig er mikil þörf á að samræma stefnu og móta einhverjar áherslur, t.d. í notkun umhverfis- eða mengunargjalda. Slíkt er komið vel á veg víða erlendis eða orðinn viðurkenndur hluti af skattapólitík í nágrannalöndunum. Hér er þetta fyrst og fremst á umræðustigi og kannski tæplega það.

Til eru margar mismunandi leiðir til þess að ná fram þeim markmiðum sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að hvetja til eða gera mögulega notkun á ökutækjum sem hafa minni mengun í för með sér en hefðbundnir bílhreyflar. Í staðinn fyrir að fella niður eða létta gjöldum af slíkri umferð væri hægt að skattleggja hina sem meiri mengun veldur. Menn verða að hafa það í huga, mér er ljóst af greinargerð með frv. að flutningsmenn þess sjá það einnig, að framtíðin getur auðvitað aldrei falið í sér að t.d. rafbílar, ef þeir verða umtalsverður hluti af bílaflota landsmanna, verði skattfrjálsir. Það getur auðvitað aldrei orðið. Þessi umferð hlýtur að þurfa að bera einhverjar álögur eins og önnur í fyllingu tímans til að standa straum af gerð umferðarmannvirkja og a.m.k. að einhverju leyti þeim kostnaði sem af umferðinni sjálfri hlýst. Ég geri því þann fyrirvara á, og alveg sérstaklega vegna þess að hér eiga í hlut tekjur Vegasjóðs þar sem um þungaskattinn er að ræða, að stuðningur minn við niðurfellingu af þessu tagi er háður þeim skýra fyrirvara að hún geti þá ekki verið annað en tímabundin. Nái menn fram því markmiði sínu að auka verulega hlut þessarar tegundar bifreiða í umferðinni, þá hlýtur auðvitað að draga að því að hún þurfi að bera einhvern kostnað við umferðina. Það væru ekki rétt skilaboð til þeirra sem hugsanlega fjárfesta í slíkum bílum á næstunni að þeir gætu búist við því, til lengri tíma litið, að slík umferð yrði alveg skattfrjáls. Þetta er mönnum er væntanlega ljóst og þarf ekki að fjölyrða um en ég vil fyrir mitt leyti taka þetta fram.

Ég minni á það hvernig farið var að því að hvetja til notkunar á blýlausu bensíni. Það var á árunum 1989--1990 hygg ég, sem innflutningur hófst fyrir alvöru á blýlausu bensíni. Það var ósköp einfaldlega gert með því að búa til ákveðið verðbil milli bensíns sem innihélt blý og þess sem var blýlaust. Þarna nægði að búa til verðbil upp á nokkrar krónur á lítra til þess að á innan við tíu árum hvarf nánast blýblandað bensín af markaðnum. Sá sértrúarsöfnuður sem undirritaður tilheyrir og á svonefnda fornbíla verður að gera sér það að góðu að leysa þau vandamál með sérstökum aðferðum og íblöndunarefnum vegna þess að venjulegt blýbensín er ekki lengur fáanlegt. Með öðrum orðum leiddi verðstýring og ákveðin verðlagningarpólitík einfaldlega til þeirrar þróunar á ákveðnu árabili sem stefnt var að og auðvitað var það markmiðið að færa alla notkunina, á sem allra skemmstum tíma, yfir í bensín sem var umhverfinu vinsamlegra.

Ég held þess vegna, herra forseti, að ástæða væri til þess, og það tengist reyndar líka vinnu sem stendur yfir í efh.- og viðskn. sem væntanlega fær þetta mál til umfjöllunar og lýtur að spurningunni um upptöku olíugjalds í stað þungaskatts, að koma þessum málum í heildstæða og vandaða athugun þar sem allt verður undir í þessum efnum. Stefna Íslands ætti að felast í markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þetta er vissulega viðleitni í þá átt. En auðvitað hlýtur margt fleira að þurfa að koma til. Stefnumörkun með langtímamarkmið í huga varðandi skattlagningu á umferð almennt og hvernig henni verði háttað. Skattlagningin þarf að tryggja tekjugrundvöll Vegasjóðs þannig að hægt verði að standa fyrir framkvæmdum á sviði umferðarmannvirkja sem mikil og knýjandi þörf er fyrir. Sú þörf verður ekki síður þó að bílar séu knúðir rafmagni eða vetni en bensíni og dísilolíu.

Síðan þarf að koma inn í þetta almenn stefnumótun, sem sagt framtíðarmarkmið okkar í beitingu skattalegrar eða fjárhagslegrar stýringar af því tagi sem víða er á dagskrá erlendis. Rætt er um að skattleggja mengunarvaldana og þá hafa menn gjarnan tvennt í huga:

Annars vegar að skattleggja óæskilega mengun þannig að hún hverfi. Þá hverfur tekjustofninn líka, og því er ekki hægt að tala um tekjugrundvöll til lengri tíma fyrir ríkissjóð. Það er eingöngu tímabundin aðgerð sem virkar þannig að í gegnum skattalegar aðgerðir er einhverri tiltekinni starfsemi íþyngt þannig að hún hverfi á skömmum tíma.

Eins eru til þær tegundir skattlagningar á mengun eða með hliðsjón af þörfum umhverfisins sem verða viðvarandi. Þarna vantar stefnumótun án þess að ég dragi um of inn í þessa umræðu framgöngu ríkisstjórnarinnar, fræga að endemum í Kyoto, og það sem síðar hefur fylgt í þeim málum. Ég held að í aðdraganda ráðstefnunnar hafi það orðið lýðum ljóst að við vorum illa undir þann leiðangur búin. Við höfðum ekki unnið heimavinnuna hér á Íslandi. Okkur hefur verið tamt að trúa því að við stæðum vel að vígi í þessum efnum og það gerum við að ýmsu leyti. Við höfum ekki verið plöguð af mikilli iðnaðarmengun, loftmengun eða öðru slíku sem verið hefur viðvarandi vandamál á ýmsum þéttbýlum svæðum meginlandanna. Við höfum trúað því að við byggjum við svo hreina orku o.s.frv. að við þyrftum ekki að hafa af þessu miklar áhyggjur.

En nú er öldin önnur. Nú eru þessi mál virkilega að banka upp á hjá okkur og skylda okkar engu að síður, þó að loftmengun sé ekki slíkt vandamál hér sem sums staðar erlendis, að leggja okkar af mörkum. Við erum á góðri leið inni í alþjóðlegu umhverfi þar sem við verðum beinlínis samningsbundin til að gera það.

Ég held, herra forseti, að ástæða sé til þess að skoða þetta í heildarsamhengi. Ég er ekki að segja að koma eigi í veg fyrir að þetta frv. eða þær tillögur sem hér eru á ferðinni hljóti afgreiðslu og sjálfsagt verður það skoðað með velvilja í þingnefnd að gera tilhlýðilegar ráðstafanir til þess að hvetja til notkunar á þessum bílum. Eftir stendur þó þörfin fyrir heildarstefnumótun.

Ég gæti vel séð það fyrir mér að lágmarks- eða flöt skattlagning kæmi á allt kolefniseldsneyti og yrði þá væntanlega eitt látið ganga yfir alla í þeim efnum. Auðvitað mundi muna verulega um það ef lagðar væru ein eða tvær krónur á hvern einasta lítra af útseldu bensíni, dísilolíu og svartolíu sem notuð er í landinu. Það yrði skilgreint sem kolefnisskattur, mengunarskattur eða umhverfisgjald og yrði hluti af þeirri skattlagningu, stýringu og tekjuöflun sem þarna er á ferðinni. Á hina hliðina gætu komið ívilnandi aðgerðir af því tagi sem hér er lagt til og ríkissjóður yrði þá ekki fyrir tekjutapi þó að notkun á rafbílum, vetnisbílum eða metangasbílum eða hvað það nú er, ykist talsvert.

Herra forseti. Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri sem út af fyrir sig gæti átt heima hvar sem er í umræðum um þessi mál til að koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri.